18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í C-deild Alþingistíðinda. (4382)

197. mál, fóðurtryggingarsjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Þetta mál hefir legið fyrir landbn., en síðan það kom til n. hefir hún haft svo annríkt, að hún hefir ekki haft tíma til þess að athuga það lið fyrir lið. Hinsvegar eru allir nm. sammála um að leggja til, að málið nái fram að ganga, en hafa að öðru leyti óbundnar hendur um brtt., sem fram kunna að koma fyrir 3. umr. málsins. Það er öllum ljóst, að það er brýn nauðsyn á því að sjá um, að fóðurtryggingar yfirleitt í landinu séu í lagi, sérstaklega á þeim stöðum, þar sem ís getur heft siglingar meiri hl. vetrar. Það er geysilega mikill munur á því, hvað mikinn fóðurforða þarf, eftir því hvernig árar, og það er tæplega hægt að gera þær kröfur til allra einstaklinga, að þeir geti haft hann fyrirliggjandi á haustnóttum. Og svo hefir á seinni árum komið í ljós, að birgðir, sem til eru á haustnóttum á höfnum kringum land, hafa yfirleitt farið minnkandi. Sú gamla venja, að liggja með forða til vetrarins, er horfin og í stað þess komnir aðdrættir smátt og smátt. Af þessu leiðir, að nú er meiri hætta á fóðurskorti, bæði fyrir skepnur og menn, en áður var, þá menn og verzlanir birgðu sig upp til vetrarins strax á haustnóttum. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér þá hugsun, að ríkissjóður leggi visst fjármagn fram á ári, sem standi sýslunum til boða til þess að koma á hjá sér tryggingum, þ. e. a. s. sjóðum, sem varið skuli til þess að kaupa varaforða, sem til megi grípa, ef siglingar tepptust eða fóðurskortur yrði af öðrum ástæðum. — Það var minnzt á það við 1. umr., að það væru gerðar nokkuð miklar kröfur til framlags á móti, þar sem ætlazt væri til, að helmingur kæmi frá viðkomandi sýslufélagi, sem vildi koma upp hjá sér slíkum sjóði. Það kann vel að vera, að mörgum sýslufélögum mundi veitast það erfitt, en ég hygg, að ef sjóðirnir eiga að komast fljótt upp og verða öflugir, þannig að þeir geti komið að notum í náinni framtíð, þá sé ekki rétt að minnka þetta framlag á móti, a. m. k. ekki nú um skeið, en það getur vitanlega komið til mála seinna, þegar sjóðirnir vaxa. En meðan sjóðirnir eru að vaxa held ég, að framlagið megi ekki minna vera, ef þeir eiga fljótt að ná því marki, sem að er stefnt.

Ég vonast til þess, að n. vinnist tími til að halda fund um þetta mál fyrir 3. umr., ef ekki verður unnið allar nætur hér í d., og má þá vera, að hún beri fram einhverjar brtt. til bóta við frv.