25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í C-deild Alþingistíðinda. (4479)

60. mál, klakstöðvar

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Ég hefi ekkert á móti því, að fjvn. fái þetta mál til athugunar. Þá ætti vitanlega að taka upp þá reglu, sem hv. 1. þm. Skagf. virðist halda fram í hverju máli, að ef kostnaður sé við eitthvert mál, sem fram er borið, þá eigi það að fara til fjvn. Það er nú víst ekki hægt eftir þingsköpunum að vísa máli til fjvn. úr deild, en við í landbn. erum auðvitað reiðubúnir til að skrifa fjvn. hátíðlegt bréf og senda henni það með tilheyrilega kurteisum orðum og biðja hana, þá hv. yfirnefnd þingsins, að líta í náð sinni á þetta mál og athuga, hvort hér sé ekki einhver herfileg vitleysa á ferðinni. Fjvn. hefir nú haldið 100 fundi minnst, og hefir því sett met í fundahöldum, og ætti þetta mál okkar þess vegna að geta komið til athugunar einhverntíma á öðru hundraði fundanna, en það þyrfti að vera heldur fyrr en síðar, til þess að málið geti komið aftur í d. áður en þingi lyki. En ef haldið verður áfram að ryðja svona hverju málinu á fætur öðru til fjvn., þá getur skeð, að það tefji eitthvað fyrir afgreiðslu fjárl., sem margir eru orðnir langeygðir eftir. En sem sagt, ég er alveg fús til þess að samþ., að þetta mál verði athugað í fjvn., þ. e. a. s. fjárhagslegu atriðin í því, en ég vil ekki, að það verði fyrr en að þessari umr. lokinni, til þess að ekki þurfi að taka það út af dagskrá, enda eftir ein umr. í d.