03.12.1935
Efri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í C-deild Alþingistíðinda. (4488)

60. mál, klakstöðvar

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það var þessi brtt., sem var boðuð við fyrri hl. umr. um að lækka gjaldið til klaksjóðs úr 10 aurum á kg. í laxi og niður í 6 aura. Það er dálítið erfitt að afla sér upplýsinga um, hversu mikið af laxi yrði selt og gjald yrði greitt af. Skýrslur um þetta eru ekki nákvæmar. Það má að vísu sjá, hvað út er flutt, en það virðist vera breytilegt frá ári til árs, jafnvel frá 15 tonnum upp í 40 til 50 tonn. Það má búast við, að þetta gjald yrði einhversstaðar á milli 3 og 4 þús. kr., eftir því sem næst er hægt að komast, ef gjaldið næðist af miklum hluta þess lax, sem seldur er innanlands. En það má búast við, að það fari talsvert forgörðum og ekki verði hægt að ná gjaldi af öllum þeim laxi, sem seldur er í landinu, en það ætti að nást af meginhluta þess, sem út er selt, og því, sem selt er í stórum stíl, a. m. k. í Reykjavík.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði neinn ágreiningur um þessa till. En ég vil mælast til, að till. á þskj. 646 verði ekki samþ. Því að það er óeðlilegt að afhenda fjvn. þetta vald, sem segir í þessari brtt. Ég talaði um þetta við fyrri hl. þessarar umr. og flutti fram þau rök, sem til eru um það, að það er óeðlilegt að binda ríkisstj. í þessu eina efni við það, að nota ekki heimildina nema með samþykki fjvn., úr því að ekki er til nein yfirfjárveitinganefnd, sem starfar á milli þinga, eins og till. hv. 1. þm. Reykv. gerir ráð fyrir og nú liggur fyrir þinginu, og má vel vera að hún verði samþ., þó hún eigi fyrst og fremst við umframgreiðslu á fjárlögunum. Ég skal nú benda á nokkra erfiðleika, sem eru á því að ná samþ. fjvn.

Við skulum segja, að þetta kæmi til í byrjun janúar. Þá er ekki nein fjvn. til og verður ekki skipuð fyrr en á næsta þingi. En hér er gengið út frá því, að fjvnm. hafi þetta vald á milli þinga. En þá eru samt erfiðleikar á að fá þetta samþykki, því að þeir eru sinn á hverju landshorni; t. d. eins og fjvn. er nú skipuð, þá er hv. 6. landsk. austur á landi, hv. 7. landsk. norður í Skagafirði o. s. frv. Sem sagt, þeir eru dreifðir út um allt land. Þó að maður hugsi sér, að til þeirra mætti leita, er það ekki fyrr en á þinginu 1936, og þá er ekki eingöngu fjvn. að snúa sér til, heldur situr þá Alþingi á rökstólum og því eðlilegast, að til þess sé leitað. Vil ég því mælast til, að þessi till. verði felld, því að það er óeðlilegt að samþ. hana.