09.03.1935
Efri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

2. mál, gjöld 1936 með viðauka

Jón Auðunn Jónsson:

Að því er snertir fyrirvara hv. 1. þm. Reykv., þá er ég ekki viss um, að hann sé bundinn við afstöðu Sjálfstfl. til málsins, eins og hv. frsm. vildi vera láta. Ég hygg t. d., að honum eins og fleirum þyki kannske tekju- og eignarskattur, sem settur var á síðasta þingi, nógu hár, þó ekki verði farið að bæta ofan á hann 10%. Það er þegar farið að sýna sig, og mun eiga eftir að sýna sig enn betur, að það er erfitt fyrir bæjar- og sveitarfélögin að ná inn aðaltekjum sínum, sem eru útsvörin, þegar farið er jafnlangt niður í vasa borgaranna og gert er með tekju- og eignarskattslögunum frá í vetur. Ég fyrir mitt leyti get því alls ekki gengið inn á að hækka þann skatt um 10%.