12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég verð að taka undir það með hv. þm. G.-K., að þó það kunni að þykja nauðsynlegt, að ríkisstj. fái heimild til að takmarka útflutning til ýmsra landa eða beina honum aðrar leiðir en hann vill leita, þá hljóti skoðanir manna á því efni að fara nokkuð eftir því, hver heimildin verður og hvernig hún verður notuð. Það er eðlilegt, að innlendir framleiðendur bæði til sjós og sveita óski þess að fá að selja sínar vörur þar, sem þeir fá bezt verð fyrir þær.

Hér hefir verið minnzt nokkuð á eitt af okkar markaðslöndum, og mér liggur við að segja kannske nokkuð óheppilega mikið af hæstv. ráðh. svona í opinberum umr. Það verður með allri varfærni af stjórn í opinberum umr. að halda því fram, að mikil nauðsyn beri til að draga úr útflutningi vara til ákveðins lands. Ég hefði ekki farið að tala um þetta, ef hæstv. atvmrh. hefði ekki látið sér svo tíðrætt um nauðsyn á því að takmarka útflutning til Þýzkalands.

Þá taldi hæstv. ráðh., að sá ljóður væri á sölu til Þýskalands, að bankarnir afreiknuðu peninga fyrir vörur, sem þangað væru seldar, ekki fyrr en seint og síðarmeir. Þetta er rétt; það var svo. En á þeim tíma, sem þetta ástand var verst, var ekki að mínu viti ástæða fyrir Landsbankann að haga þessu svo sem hann gerði. Það mun vera fyrst nú vegna gjaldeyrisskortsins, að bankinn er farinn að afreikna hraðar en áður fyrir vörur seldar til Þýzkalands, og líklega farinn að nálgast það, sem viðgengst hjá bönkum í öðrum löndum, en meðferð bankans á þýzku ríkismörkunum hingað til hefir verið í ósamræmi við það, sem viðgengst hjá bönkum í öðrum löndum með samskonar valútu. Ég gæti t. d. nefnt Nationalbankann danska og ríkisbankann norska.

Ég tel, að ekki hafi verið ástæða til þessarar framkomu bankans, áður en hann breytti um stefnu, sem ég ætla, að hafi verið á síðasti. sumri. Ég held líka, að þó benda megi á, að einhverjar vörur, sem keyptar eru í Þýzkalandi, séu eitthvað dýrari þar en annarsstaðar, þá megi í því sambandi líta á það, að viðskipti okkar við Þýzkaland eru samt í raun og veru miklu hagstæðari fyrir okkur heldur en við sum önnur lönd, t. d. Danmörk og England, sem við kaupum frá mikið meira en við getum selt þangað. Þá vil ég segja það, að verið hafa mikil mistök, ég vil ekki segja hjá ríkisstj., heldur þeim mönnum, sem þar hafa um fjallað fyrir hana, á því að nota þá beztu kaupmöguleika í Þýskalandi, sem völ var á. Ég hefi ekki orðið var við það, að þaðan hafi verið keyptar vörur til óhagnaðar, svo miklu nemi, en vegna innflutningshamla á vörum þaðan og tregðu á yfirfærslum, hefir gengið erfiðlega að kaupa þaðan vörur í stórum stíl, fyrir þeim mönnum, sem lagt hafa vinnu í að útvega hin beztu viðskiptasambönd þar, sem auðvitað eru eins og annarsstaðar bundin við stór kaup. Stundum hafa leyfin blátt áfram ekki fengizt.

Ég tel það vorkunnarmál fyrir framleiðendur, þó þeir leiti á að selja vörur sínar þangað, sem þeir fá mest verð fyrir vörurnar, og það er ekki vinsælt að sporna við útflutningi til þeirra staða, sem bezt borga.

Hér hefir nokkuð verið rætt um nýja skipun innflutnings- og gjaldeyrisnefndar í sambandi við 2. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að bætt verði tveim fulltrúum í n. Með því fær eitt sérstakt verzlunarfyrirtæki fulltrúa í n. Ef það á að verða að l., þá sýnist mér vera sanngjarnt, að það verzlunarfyrirtæki, sem sér um sölu meiri hluta sjávarafurðanna, eigi þar einnig fulltrúa, en það er Sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Samband ísl. samvinnufélaga er beinlínis verzlunarfyrirtæki, sem selur fyrir mörg smærri félög, alveg á sama hátt og S. Í. F. gerir. Ef eitthvert jafnrétti ætti að vera milli þessara tveggja stofnana, þá ætti S. Í. F. að hafa fulltrúa í þessari n. í staðinn fyrir fiskimálan., eins og hv. þm. G.K. benti á.

Hæstv. ráðh. minntist á útflutning á ísfiski til Þýzkalands og sagði frá því, sem ekki var nema góðra gjalda vert, að ríkisstj. hefði greitt fyrir og leyft þessa sölu til Þýzkalands. Þessi ísfiskur, sem vitanlega var engin leið til að selja í nokkru öðru landi fyrir nokkuð sambærilegt verð. Ég tel það næsta eðlilegt, að hæstv. ráðh. sæi engan hag í því að bægja honum frá markaði í Þýskalandi meðan við eigum þess engan kost að selja fiskinn annarsstaðar. Það hefir hangið á veikum þræði hingað til, og þegar bent er á þetta land sem sérstaklega óhentugt markaðsland fyrir okkur hér, þá miðar það í sjálfu sér ekki að því að afla okkur samúðar og bættrar aðstöðu í því landi.