13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það gleður mig, að hæstv. ráðh. hefir nú lært nokkuð. Nú vill hann fá mig til að tala, en áður vildi hann, að ég talaði ekki oftar. Hann vill, að ég endurtaki alltaf það, sem ég er búinn að svara. (Fjmrh.: Það er ekki komið ennþá). Ég vænti því, að hæstv. forseti verði ekki knífinn á ræðutíma handa mér, ef ég verð við kröfum hæstv. ráðh. oftar.

Ég tók það fram nægilega skýrt, að hæstv. ráðh. ætti að geta fullnægt fyllilega þeirri þörf á útflutningi á þeim vörum, sem ekki er hægt að selja annarsstaðar en á Þýzkalandi, þó að landbúnaðurinn sé látinn njóta réttar síns. 1933 var af þessum vörum ekki selt til Þýzkalands nema fyrir 1/2 millj. Heildarsalan á þessum vörum, ull og gærum, er því ekki svo afskaplega mikil, að ekki sé hægt að fullnægja henni að öllu leyti.

Þá er það broslegt, þegar hæstv. ráðh. gerir upp orð manni, sem talaði við mig, slær fyrst föstu, hvað hann hafi sagt við mig. en segir síðan, að þetta sé allt haugalýgi, hann hafi ekki talað við mig. Hann gerir ráð fyrir, að þetta samtal hafi verið eftir að lögin voru sett. En þetta var áður en ríkisstj. setti bráðabirgðalögin. Honum var kunnugt, hvað ríkisstj. ætlaði að gera og hvað rak hann til að setja l. í þessu efni. En allt þetta sýnir, að hæstv. ráðh. á ekki hreint mjöl í pokahorninu.

Hæstv. ráðh. hefir ekki heldur svarað, hvernig stendur á því, að svo harkalega var farið á stað með leyfin, að ekki var hægt að fá leyfi, ef varan fór fram úr 25%, og erfitt var oft að fá útflutt, þó ekki væri nema nokkur kg., fyrir sláturtíð eða fram um miðjan september, og sumir urðu að flytja yfir aðrar hafnir. Var þó ástæða til að veita leyfið ríflega á þessum tíma. Hæstv. ráðh. ætti að svara, hvers vegna haldið var svona í þessi leyfi, og aðeins veittur partur af því, sem nú er. Mér virðist þetta benda á, að nota eigi löggjafarvaldið harkalega gegn þessari framleiðslu, og það get ég ekki sætt mig við.

Að ég hefi ekki tekið til máls um þetta fyrr, er af þeirri ástæðu, að mér er örðugt um að tala vegna hæsi. Ég hefi ekki ástæðu til þess nú að rekja málið nánar. Það hefir verið tekið fram ýmislegt af því, sem ég er að benda á. En ef á að nota þessa löggjöf sem grímuklædda árás á framleiðsluna eða sem dulbúna gengishækkun, þá er verr farið en heima setið, jafnvel þó nokkrir örðugleikar hafi verið að koma framleiðsluvörunum fyrir á eðlilegan hátt hér í landinn. En það er dulbúin gengishækkun, ef á að hindra útflutninginn á þessum vörum til Þýzkalands, af því að ekki sé hægt að fá þaðan vörur með jafngóðu verði og annarstaðar.