24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Hannes Jónsson:

Það er til að bera af mér sakir. Út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði, ef það á að skiljast á þann hátt, að afstaða hans eða framkoma við síðustu kosningar hafi stutt mig eða skapað mér fylgi, þá mótmæli ég því algerlega. En ef það hefir átt að skiljast þannig, að tilvera Sjálfstfl. og afstaða hans á þingi hafi skapað mér fylgi í Húnavatnssýslu, — það get ég fallizt á. Því meðan framkoma hv. þm. Snæf. ásamt öðru heldur áfram í svipuðu horfi, þá býst ég við, að Bændafl. haldi áfram að skapast fylgi, því þegar bændurnir finna, að málefni þeirra eru svikin og vanrækt, þá munu þeir skilja við þann fulltrúa eða þann flokk, þó að hann hampi einhverri bændapólitík, og þá koma þeir til okkar. Þeir þekkja ekki fólkið og misreikna sig alveg, sem halda að þeir geti teymt það á einu bandi, hvort heldur sem það er Sjálfstfl., Alþ.fl. eða Framsfl. Bændurnir munu skilja við alla slíka flokka og koma saman í einum flokki, og þá er óhætt fyrir hv. þm. Snæf. að leggja niður skottið, enda óþarfi fyrir hann að hreykja sér hátt.

Út af þessu, sem ég sagði réttilega um hv. þm. Snæf., skal ég segja það, að oft getur verið erfiðara að færa fyllstu sannanir á mál heldur en tala til samvizkunnar í mönnum, enda var það svo, að hann áleit helzta ráðið að fara í mál út af þessum ummælum.

Ég vænti þess, að þm. geti fengið leyfi hæstv. forseta til málshöfðunar, svo að hann geti fengið tækifæri til þess eina kattarþvottar, er hann á völ á.