30.04.1936
Efri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Út af orðum hv. þm. N.-Ísf. þá get ég ekki svarað fyrir alla n. um það, hvort þessi breyt. ætti að komast á, en ég get aðeins sagt það sem mína skoðun, að ég tel þetta fullvíðtækt, því að eftir þessu þá gæti dómari, ef hann vildi það við hafa, tafið mál með því að bera einhverju við. Frv. vill gera ráð fyrir, að bæjarþing sé haldið einu sinni á viku eða jafnvel tvisvar, en brtt., sem n. flytur, gerir aðeins þá undantekningu, að ef dómari sé fjarverandi og af þeim sökum geti ekki sinnt því, þá sé gefin nokkur tilhliðrun í þessum efnum. En ef þetta orðalag væri tekið upp, sem hv. þm. leggur til, þá er hægt fyrir dómara að tefja gang mála og bera öðru við. En tilgangur þessa frv. er að tryggja öllum réttan gang í málum og gera þannig almenningi léttara fyrir að fá fljótari afgreiðslu mála. Ég get því ekki mælt með þessari brtt., hvað sem aðrir segja um það efni.

Mig greinir á við hv. 10. landsk., og gat ég búizt við því. Ég hafði líka þann fyrirvara í minni ræðu, að hver einstakur nm. hefði óbundið atkv., en ég er ekki viss um, að meiri bl. n. sé fylgjandi fyrstu brtt. Ég hefi gert grein fyrir, hvers vegna ég er henni mótfallinn, og sú skoðun mín hefir alls ekki breytzt við ræður þeirra, sem hafa lagt henni liðsyrði. Um fyrstu brtt. er það að segja, að hér er um að ræða menn, sem eru alveg komnir út úr því að stunda lögfræðisstörf. Ef það er maður, sem hefir haft málflutning með höndum, þá kemur hann til með að ná þeim rétti, sem frv. ætlast til; t. d. ef hann stjórnar viðskiptafyrirtæki og annast þann málarekstur, sem hann þarf viðvíkjandi því, þá á hann að öðlast þennan rétt. Hv. þm. vitnaði í bankastjórana. En það vill svo til, að meðal okkar bankastjóra er aðeins einn maður, sem er lögfræðingur, og það er öllum kunnugt, að hann hafði lengi fengizt við víðtæka málafærslustarfsemi hér í bæ, áður en hann tók við þessum starfa, og ég hygg, að ef maður vitnar í það, þá geti það ekki sannað neitt.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál.