22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Magnús Jónsson:

Ég þarf fyrst að víkja nokkrum orðum til hv. 1. þm. Eyf. — Hann sagði, að það hefði áður komið fyrir hjá íhaldinu, að lög hefðu verið framlengd. Ég tók það einmitt fram, að þetta hefði að vísu komið fyrir áður, og væri ekkert sérstakt við því að segja, en ég vítti það, að nú væri það orðin aðalreglan að ná inn sköttum og tollum með lögum, sem gilda aðeins frá ári til árs. Þetta er alveg sama og um umframgreiðslur. Þó að slíkt komi fyrir, er ekki mikið við því að segja, en þegar þær fara út í öfgar eða verða að venju, gegnir öðru máli. Þetta er líka alveg hliðstætt því, að ef mistalning verður hjá gjaldkera í eitt skipti, getur það verið afsakanlegt og eðlilegt, en fari slíkt að endurtaka sig, verður það glæpsamlegt og vítavert.

Hv. þm. sagði, að þegar stjórn sjálfstæðismanna sat við völd, hefði hún ekki lækkað skattana fyrr en á þriðja ári, eða næsta ári fyrir kosningar, og það eingöngu verið gert til þess að afla stj. kjörfylgis. En hvernig átti sú stjórn, sem tók við öllu í öðru neins sukki eins og stjórn sjálfstæðismanna, er síðast fór með völd, að lækka skattana fyrr en á þriðja ári?

Hv. 4. landsk. hélt því fram, að bílstjórarnir hefðu ekki fengið kröfum sínum framgengt með verkfallinu í vetur. En það er alveg ómótmælanlegt að þeir komu sínu fram að efninu til, þótt þeir ónýttu engin lög frá Alþingi. Þeir fengu því framgengt, að félag, sem bauðst til þess að selja þeim benzín ódýrar en hin olíufélögin, fékk aðstöðu til þess, þótt slíkt hefði verið hindrað áður. Það var náttúrlega ágæt „tilviljun“, eins og hv. 4. landsk. kallaði það, að svo skyldi hittast á, að benzín í Póllandi skyldi lækka einmitt um sama leyti og stjórnarliðið var að hátolla þessa nauðsynjavöru hér heima.

Hv. 4. landsk. sagði, að ég hefði haldið því fram, að styrjaldir myndu hætta, tíðarfar og aflabrögð batna, ef sjálfstæðismenn tækju við völdum. Er þá enginn munur á vondu og góðu stjórnarfari? Það er satt, að tíðarfarið getur verið illt viðureignar, en það er bara mjög mikill munur á því, hvernig við því er brugðizt.

Hæstv. fjmrh. var að endurtaka það, sem hann hefir áður verið að stagast á, að sjálfstæðismenn hefðu staðið fyrir bílaverkfallinu. Ég hefi þegar sýnt fram á, að þetta er ósatt, og get ég ekki séð, hvað það kemur þessu máli við. Ég veit, að hæstv. ráðh. getur ekki með öllum sínum hlustunum í síma fært nokkur rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni, að sjálfstæðismenn hafi staðið fyrir verkfallinu, sem endaði með sigri bílstjórann.