21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Sigurður Einarsson:

Af því að ég hefi flutt þetta mál, þykir mér hlýða að segja nokkur orð við þessa umr. málsins, en ég get verið stuttorður. Ég get verið meiri hl. landbn. þakklátur fyrir, hvernig hann hefir tekið undir þetta mál. Hitt er aftur á móti ekki eins gleðilegt, að nál. og brtt. skuli ekki hafa komið fram fyrr en svona er liðið á þingtímann, því að það gæti hugsazt, að það yrði málinu til þeirrar tafar, að það næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Ég verð að segja það, að brtt. meiri hl. n. eru þannig, að ég get ákaflega vel sætt mig við þær allar. Meiri hl. vill stefna að því að festa þessa starfsemi á Reykjum í Ölfusi. Og þó að ég vildi hafa þetta svo rúmt, að aðrir staðir gætu komið til greina, þá hefi ég siðan sannfærzt um, að Reykir hafa ýmsa kosti fram yfir aðra staði. meðal annars þann kost, að það er ódýrara að koma þessu máli af stað þar en annarsstaðar, með því að þar er hægt að hagnýta þau húsakynni og aðra hluti, sem þar eru til staðar, 3. brtt. get ég vel sætt mig við, þó að ég geti í rauninni ekki séð, að það skipti miklu máli, hvort skólinn er rekinn sem sérstök stofnun eða ekki. En það gladdi mig mjög mikið, sem hv. frsm. sagði, en hann er kunnáttumaður um þessa hluti, að hann gerði sér vonir um, að garðyrkjubúið mundi bera uppi að mestu eða öllu leyti kostnaðinn við skólahaldið. Ég tel, að mál þetta hafi hlotið búningsbót í n. og að það sé einsætt að halda sig við þær till., sem hún gerir, og greiða atkv. með þeim. Þar af leiðandi er ég andvígur því, sem kemur fram hjá hv. þm. A.-Húnv., og sé ekki, að það verði að neinu leyti betur séð fyrir þessari starfsemi, þó að hún verði fengin búnaðarskólunum í hendur, að þeim alveg ólöstuðum. Það, sem mælir sérstaklega á móti því, er það að staðirnir fyrir þá skóla voru valdir út frá allt öðru sjónarmiði og eru áreiðanlega ekki eins vel hæfir til garðyrkjunáms og rekstrar garðyrkjubús eins og á jarðhitasvæðunum. Ég tel þess vegna, að þessi dagskrártill. minni hl. sé ekki til annars en að tefja fyrir málinu og hrekja það út af réttri braut.