31.03.1936
Neðri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

73. mál, fræðsla barna

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. gat þess, að hann vildi athuga á milli umr., hvort ekki væri rétt að hafa það ákvæði aðeins í frv.,

að ráðh. væri heimilt að fyrirskipa tekjuöflun til skólabygginga. Ég skora á hv. n. að athuga, hvort ekki er rétt að hafa aðeins í frv. heimild fyrir fræðsluyfirvöldin í hverju fræðsluhéraði til að afla þessara tekna. Ég held, að ákvæði frv. um þetta atriði, eins og þau eru, verði mjög óvinsæl, og að héruðum um landið þyki ekki rétt, að ráðh. geti risið upp og skyldað menn til þess að leggja á sig þessar álögur til þess að koma upp skólabyggingum, nema ef sérstakar ástæður eru fyrir bendi. Slíkt væri vitanlega sjálfsagt um þau héruð, þar sem þessi mál væru ekki í góðu lagi, t. d. ef eitthvert ófremdarástand væri ríkjandi um húsnæði skólans og yfirvöldin í héraðinu vildu ekki eða sýndu tómlæti í að bæta úr því. En ég álít mjög varhugavert að ákveða, að ráðh. skuli t. d. á erfiðleikatímum skylda menn til þess að afla stórfjár til þess að byggja skólahús fyrir.

Ég veit ekki, hvað hv. menntmn. hefir athugað mikið þetta mál. Það er ekki heldur mitt verk að segja henni fyrir verkum. En ég álít mjög áríðandi, að mál þetta verði mjög vel athugað í n. Því að fyrir utan fræðsluhlið málsins grípur það mjög inn í fjárhagsmál sveita og ríkis. Og ég vil enn leggja áherzlu á, að þetta mál þarf mjög vel að athugast í n., áður en ákvæði um miklar fjárhagslegar álögur vegna þessara mála eru samþ. á þessum sérstöku erfiðleikatímum.