02.04.1936
Efri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

32. mál, landssmiðja

Bernharð Stefánsson:

Það er fátt eitt, sem ég þarf að segja. Ég verð að segja, að mér þykja undarlegar ræður hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf. að því leyti, sem þeir hafa vikið að mér. Fyrst gerir hv. 1. þm. Reykv. grein fyrir því, hvað hann telji felast í mínum fyrirvara, áður en ég segi nokkurt orð sjálfur. Ég hefi vanizt því, að þm. gerðu þetta sjálfir, ef þeir á annað borð óska þess að gera grein fyrir honum. (MJ: Ég fór eftir nál.). En það var auðvitað ekki samhljóða því, sem hv. þm. sagði. Og svo kemur hv. þm. N.-Ísf. og svarar hér ræðu með miklum þjósti, sem hann segir, að 1. þm. Eyf. hafi haldið. Ég þekki engan annan 1. þm. Eyf. en sjálfan mig. En það er áreiðanlegt, að ég hefi ekki haldið þá ræðu, sem hv. þm. N.-Ísf. var að svara og ég hefi heldur ekki heyrt hana haldna. Hv. þm. sagði meðal annars, að ég hefði sagt, að það væri ekki um ríkisrekstur að ræða í þessu máli. En mér hefir aldrei komið til hugar að segja slíkt. Það er auðvitað mál, að hér er um ríkisrekstur að ræða. En það, sem ég sagði, var, að hér væri ekki um neinn nýjan ríkisrekstur að ræða, því að landssmiðjan væri til. Og eins og hv. frsm. n. hefir tekið fram, þá er hér um það að ræða, hvort það eigi að vera l. um landssmiðjuna eða ekki, því að ég held, að það liggi ekki fyrir neinar till. um að leggja þessa starfsemi niður.

Hv. þm. talaði um það í ræðu sinni, að ég hefði sagt eitthvað út í hött. Ég veit ekki, hvað er að tala út í hött, ef ræður þessara tveggja hv. þm. hafa ekki verið út í hött. Ég skil ekki. hvers vegna þeir flytja ekki till. um það að skora á landsstj. að leggja landssmiðjuna niður. Ef þeir flyttu slíka till., þá gætu þessar ræður þeirra átt við, en hér eiga þær ekki við. Hér finnst mér, að það eigi að ræða málið eins og það liggur fyrir þinginu og þessum fundi. En hér er um það að ræða, hvort það fyrirkomulag, sem stungið er upp á í frv., sé heppilegra eða óheppilegra en það fyrirkomulag, sem nú er, að landsstj. reki þessa smiðju eins og henni þóknast án nokkurra l. Það er vitanlega ekki núv. landsstj., sem hefir sett þessa landssmiðju upp, heldur hugsa ég, að það séu nokkuð margar landsstj., sem hafa látið hana starfa. Hv. þm. N.-Ísf. minntist á það, að Jón heitinn Þorláksson hefði komið landssmiðjunni upp til þess eins að byggja brýr. Mér er það óskiljanlegt, að ef það er ákaflega gott að hafa landssmiðju til þess að byggja brýr, hvernig það má þá vera, að það sé undir öllum öðrum kringumstæðum óheppilegt og að öll önnur verk, sem hún getur komið til með að vinna, séu til bölvunar. Ég sé engan mun á því að byggja brýr og ýmsa hluti til vita og svo aðra hluti, sem ríkið hefir með höndum. Hugleiðingar hv. þm. um það að það mundi verða bannað að flytja inn mótora í landið, munu varla vera í alvöru meintar, og álít ég ekki ástæðu til þess að svara slíkri fjarstæðu. (JAJ: Það var sagt í fullri alvöru).

Hvað því viðvíkur, sem hann nefndi, að landssmiðjan hefði ekki borgað skatta og skyldur, þá skal ég játa, að ég er ekki vel kunnugur því, hvernig það hefir verið með þetta fyrirtæki hingað til, en ég gæti hinsvegar trúað því, að landssmiðjan borgaði ekki neitt, en ég skal þó játa, að ég veit það ekki. En í þessu frv. er einmitt ákveðið, að hún skuli borga til bæjarsjóðs. Það getur verið álitamál, hvort það er sett hæfilegt eða ekki, en þá er hægt að koma með till. um það. Og ef mönnum þykir þetta gjald ekki hæfilegt, þá ættu þeir að koma með till. um að breyta því.

Svo var hv. þm. að tala um það, að kjósendur Framsfl. hefðu allt aðra skoðun á þessu máli heldur en þm. flokksins. Ég veit ekki betur en að nákvæmlega sömu bigzlyrðin í garð framsóknarmanna hafi heyrzt frá íhaldsmönnum og núv. sjálfstæðismönnum nú í meira en áratug, og það eru nokkuð margar kosningar, sem hafa farið fram á þessum áratug, svo að ég hygg, að ef þessir kjósendur taka nokkurt mark á því, sem þessir menn segja, þá hafi þeir kjósendur, sem hafa kosið núv. þm. Framsfl., lýst nokkurn veginn fylgi sínu við þeirra stefnu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Ég held, að það sé dálítið óvenjulegt þetta, sem ég nefndi í upphafi máls míns, að það sé gerð grein fyrir fyrirvara manns, áður en maður segir nokkurt orð um hann sjálfur, og svo þegar hv. þm. N.-Ísf. svarar hér ræðu, sem ég hefi alls ekki haldið. Hv. þm. virðist vera í vondu skapi, og það er líklega eitthvað annað, sem hefir orðið til þess að róta við geðsmunum hans, og þetta bitnar svo á mér, en ég ætla ekki undan því að kvarta samt.