08.05.1936
Efri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

109. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Bernharð Stefánsson:

Við 2. umr. þessa máls boðaði ég, að ég mundi bera fram brtt. við þetta frv., þess efnis, að fleiri bæjarfélögum yrðu heimilaðir samskonar möguleikar til tekjuöflunar fyrir sig og felast í þessu frv. gagnvart Vestmanneyjakaupstað. Þetta hefi ég nú gert, og er brtt. mín á þskj. 608. Þar er farið fram á, að inn í frv. verði bætt ákvæði um, að Siglufjarðarkaupstað heimilist að hækka hafnargjöld til bæjarsjóðs Siglufjarðar um 100% frá því, sem þau eru nú. Ég ætla, að það þurfi ekki að færa fram frekari rök fyrir nauðsyn þessarar till. en búið er að gera áður á þessu þingi.

Nú er í Nd. verið að ræða um tekjuöflunarfrv. sveitar- og bæjarfélaga, og þar sem ákveðið er, að þinginu verði slitið á morgun, þá er sýnilegt, að það frv. getur ekki orðið að lögum á þessu þingi, eða það verður þá ef til vill með þeim hætti, að mikið verður dregið úr þeim tekjum, sem því var ætlað að veita bæjarfélögum. Þess vegna er fallin sú ástæða, sem ég gat um í nál. að væri þess valdandi, að ég yrði á móti þessu frv., ef frv. um nýja tekjustofna handa bæjar- og sveitarfélögum næði fram að ganga á þinginu. Nú er sýnilegt, að það verður ekki. Ef brtt. mín verður samþykkt hér nú, þarf að endursenda frv. til Nd., og þá nær það heldur ekki fram að ganga á þessu þingi. Afleiðingin af því verður sú, að hvorki ég né Siglufjarðarkaupstaður verður betur settur eftir en áður; en Vestmannaeyjakaupstaður verður aftur á móti verr farinn. Ég mun því vegna þess öngþveitis, sem málin eru nú komin í, taka þessa brtt. mína aftur, svo að það mál, sem nú er hér til umr., verði ekki sett í hættu. Þó að hv. þdm. hljóti að sjá það á hinn bóginn, að það hefði átt að samþykkja frv. með þessari breyt., þá veit ég, að það verður ekki gert.