25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2152)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hv. þm. N.-Þ. hefir nú rakið sögu löggjafarinnar um þessi mál, eins og hann var reyndar búinn að gera í sínu nál. En einn gleymdi þó sá hv. þm., nefnilega því, að rekja sögu fiskveiðanna jafnhliða því, sem hann rakti sögu löggjafarinnar. Hann gleymdi að geta þess, að þegar l. um héraðabönnin voru sett, þá var mjög ábatavænlegt að veiða þorsk, því að þá þekktu landsmenn ekki kolamiðin og kunnu ekki að nota þetta veiðarfæri. Hv. þm. hefir líka gleymt að geta þess, að þá var fiskútflutningur til Bretlands alls ekki takmarkaður. Þá var hægt að nota þau veiðitæki, sem til voru í landinu, með góðum árangri, án þess að taka upp ný. En nú er svo komið, að í kringum allt land er fjöldi sjómanna, sem ekki hefir nein ráð til að bjarga sér nú um hábjargræðistíminn. Þessu hefir hv. þm. N.-Þ. öllu gleymt. Þetta atvinnuleysi stafar af þeim breyt., sem orðið hafa á fiskveiðum og fiskútflutningi á síðastl. árum. Og það er þessi sögulega staðreynd, sem hv. þm. N.-Þ. annaðhvort þekkir ekki eða vill ekki horfa á. Og mér er nær að halda, að hann þekki hana, en vilji bara ekki horfa á hana, því að hann er svo blindsýnn á þetta, að hann segir, að atvinna landsmanna eigi ekki og megi ekki koma neitt til greina, þegar rætt sé og ákvarðað um þessi mál.

Ég vil nú spyrja þennan hv. þm.: Til hvers hafa verið sett ákvæði um að friða landhelgina á undanförnum árum? Ég get vitanlega svarað þessari spurningu sjálfur, því að það vita allir, að landhelgin hefir verið friðuð til þess að vernda á þann hátt atvinnumöguleika landsmanna. En þegar friðun landhelginnar er komin á það stig, að hún spillir atvinnu landsmanna, þá er það alveg sjálfsagður hlutur að breyta löggjöfinni um landhelgisfriðunina og rýmka heimildirnar.

Þessi hv. þm. sagði, að það væri varhugavert að rýmka nokkuð um heimildir til veiða í landhelgi. En ég er einnig þeirrar skoðunar, að varhugavert væri að rýmka um þær, ef sú rýmkun yrði til þess að skaða fiskveiðar landsmanna í nútíð eða framtíð. Og í sambandi við þessa kenningu sína um, að við eigum að vernda okkar landhelgi vel, þá heldur þessi hv. þm. því fram, að það sé nauðsynlegt að fá fært út þessi friðuðu svæði. En hvaða svæði eru það, sem hafa verið ófriðuð fyrir dragnót? Það eru einmitt hrygningarsvæðin kringum landið, Faxaflói, Breiðafjörður og sjórinn fyrir Suðurlandi, sem ekki hafa verið friðuð fyrir dragnót, nema til 15. júní. En frá 15. júní til 30. nóv. eru þessi svæði ófriðuð fyrir dragnótinni. Þetta, að búið er að taka einmitt aðalhrygningarsvæði þorsksins og ófriða það fyrir dragnót, bendar á, að á hæstv. Alþingi hafi ráðið sá skilningur, sem er alveg réttur, að dragnótin spilli í engu fyrir veiðum á öðrum fiski en þeim, sem hún veiðir, en dragnótin er höfð svo stórriðin, að hún er óskaðleg fiskseiðum.

Viðvíkjandi því, að það séu nokkuð sambærileg veiðarfæri dragnótin og botnvarpan, vil ég segja að slíkt er endemisfjarstæða, og furðar mig mjög á því, að nokkur hv. þm. skuli leyfa sér að bera þá vitleysu fram á hæstv. Alþingi. Það er vitað um botnvörpuna, að hún rífur ákaflega mikið upp botninn. Aftur á móti er ekki hægt að nota dragnótina nema á sandbotni. Botnvörpuveiðar skemma mjög sjávargróður og eyða smáseiðum og öðru slíku, en dragnótin er hinsvegar algerlega skaðlaust veiðarfæri. Og það væri æskilegt, ef hv. þm. N.-Þ. vill ekki trúa mér í þessu efni, að hann þá vildi leita álits þeirra tveggja fiskifræðinga, sem við eigum, um þessa hluti. Þeir eru báðir sammála um, að dragnót sé algerlega óskaðlegt veiðarfæri fyrir aðra fiska en þá, sem eru svo stórvaxnir, að þeir geta ekki smogið hina stóru möskva dragnótarinnar.

Hv. þm. N.-Þ. vildi halda því fram, að þeir, sem ekki kynnu að nota dragnót, væru bezt fallnir til að dæma um það, hvort dragnótin sé skaðleg eða ekki. m. ö. o., að þeir, sem ekki þekkja þetta veiðarfæri, ættu að dæma um verkanir þess. Ég sé satt að segja ekki ástæðu til að andmæla þessu. Ég rifja þetta bara upp til þess að sýna hv. þd., hvað þetta er hlægilegt. Fyrst hv. þm. N.-Þ. er svo kunnugur dragnótaveiðalöggjöf Dana og Svía eins og hann læzt vera, þá vildi ég skora á hann að færa hér sönnur á, að kolamiðin séu friðuð þar á öðrum tímum en hrygningartíma kolans. Það er auðvitað alkunnugt, að Danir friða viss svæði fyrir dragnótaveiðum, en þeir friða þau ekki nema á hrygningartíma kolans. Svo opna þeir sína landhelgi fyrir þessum veiðum á þeim tímum, er þeir álíta, að hagkvæmt sé að veiða kolann. Og það er það og ekkert annað, sem farið er fram á með flutningi þessa frv. Kolinn hefir alstaðar kringum allt landið lokið sinni hrygningu á þeim tíma, sem farið er fram á í frv., að megi nota þetta veiðarfæri á. Um þetta getur hv. þm. N.-Þ., ef hann ekki trúir mér, fengið upplýsingar líka hjá fiskifræðingum okkar, sem báðir eru sammála í þessu efni.

Nú er það svo, að af ástæðum, sem ég er sammála hv. þm. N.-Þ. um, mundi ég ekki vilja opna landhelgina fyrir togaraveiðum, af því að það yrði meiri skaði að því fyrir landsmenn en gagn að leyfa slíkar veiðar. Hinsvegar er ég sannfærður um, að miklu meira gagn en skaði mundi vera að því að opna landhelgina fyrir dragnótaveiðum á þeim tíma, sem tekinn er fram í frv. Þess vegna legg ég til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.

Annars verð ég nú að segja, að það hafa ekki fram að þessu komið fram frá 2. minni hl. sjútvn. nein þau rök, sem geri það að verkum, að nokkur hv. þdm. geti sannfærzt um réttmæti þeirrar kröfu, að Alþingi eigi lengur að láta þessa úreltu löggjöf vera í vegi fyrir því, að fjöldi landsmanna, sem nú er atvinnulaus og hefir engar tekjur nú um hábjargræðistímann, geti fengið sæmilegar tekjur með því að stunda dragnótaveiðar. Reynsla sú, sem komin er af þeim svæðum, sem þegar er búið að opna fyrir dragnótaveiðum innan landhelgi og staðið hafa þannig opin nokkur undanfarin ár, sannar, að þessar dragnótaveiðar þar hafa engin áhrif til skaða fyrir aðrar fiskveiðar.

Ég harma þá afstöðu, sem hv. þm. N.-Þ. hefir tekið í þessu máli, því að mér dettur ekki í hug að halda, að hv. þm. N.-Þ. sé svo skilningssljór á þessi mál, að hann haldi fram því sama sem haldið hefir verið fram í opinberum blöðum hér í bænum, að dragnótin veki svo mikla undrun og skelfingu meðal fiskanna í sjónum, að m. a. hafi síldin tekið sig til vissan hluta haustsins og haldið sig í Herdísarvík, af því að verið var að skurka með dragnót einhversstaðar í Miðnessjó, eins og ég hefi lesið í Morgunblaðinu. Ég veit, að hv. þm. N.-Þ., sem er alinn upp í sveit, þekkir það áhald, sem stundum er haft til þess að reka með hesta, hrossabrestinn. Og ég vona, að hv. þm. N.-Þ. sé ekki svo glámskyggn á þessa hluti, að hann haldi, að dragnótin sé einskonar hrossabrestur í landhelginni, þannig að hún fæli alla fiska, sem nærri eru, þegar verið er að nota hana til veiða.

Hv. þm. N.-Þ. hefir á engan hátt gert tilraun til að afsanna þá staðhæfingu mína, að kolinn sé svo mörgum sínum verðmætari útflutningsvara en þorskur, að það sé í rauninni mesta fásinna að banna mönnum að stunda kolaveiðar, þegar þeim er ómögulegt að stunda þorskveiðar með góðum árangri, eins og reynsla undanfarinna ára hefir sýnt og sannað.