04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Það sýnir bezt, hve hæstv. forseti telur hv. þm. Ísaf. ómerkan og lítilsvirðan, að hann skuli aldrei átelja hann fyrir ósæmileg og óþingleg orð, eins og stundum kemur fyrir að hann gerir við heiðarlega þm. Þessi vesali þm. hefir nú hvað eftir annað með því að kalla mig leiguþý gert tilraun til þess að fá forseta til þess að sýna sér þó ekki væri nema að þessu leyti sömu virðingu og öðrum þm., að telja honum ekki sæmandi að viðhafa allskonar óþverraorðbragð hér á Alþingi. En reynslan hefir bara hvað eftir annað staðfest, að hæstv. forseti, eins og allir aðrir, telur hann vera þá undantekningu frá öllum öðrum, að hann hafi einn rétt til þess að viðhafa óátalið allskonar óþverraskap. — Annars vil ég að gefnu tilefni taka það fram, að ég hefi aldrei fengið eyrisvirði frá Kveldúlfi, að öðru leyti en því, sem ég hefi eins og aðrir orðið aðnjótandi þess, sem atvinnulífið í landinu hefir blómgazt fyrir framtakssemi Kveldúlfs. Það er ekki nema eðlilegt, þó að hv. þm. Ísaf. þyki þetta undarlegt, þar sem hann hefir aldrei komið nærri nokkru fyrirtæki án þess að hagnast af því sjálfur til stórra muna. Og þó að fyrirtæki þau, sem hann hefir stjórnað, hafi ekki getað borgað neinum neitt, þá hafa þau þó jafnan verið látin borga forstjóranum, og það oftast rífleg laun.