02.03.1936
Neðri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Mál þetta hafði fjhn. til athugunar, og hún komst fljótlega að sömu niðurstöðu sem hæstv. ráðh. hafði rekið sig á, að þessi l. voru í einu eða tveimur atriðum óframkvæmanleg, nema með endurbót. Þessi endurbót er að n. dómi formlegs efnis og áhrærir ekki efni l., sem flokksskipting var og er um. L. verður að vera hægt að framkvæma á reglulegan hátt, og til þess voru bráðabirgðalögin nauðsynleg; þau fjalla um atriði, sem enginn ætlaðist til, að öðruvísi væri, enda er það sama sem gilt hefir.

Hitt atriðið, sem getið er um í nál. og brtt. n. fjallar um, getur verið meira álitamál, og raunar telur n. ekki mikla ástæðu til að taka það upp, þó hún eftir atvikum geti fallizt á, að það sé gert. Ég vil endurtaka það, sem tekið er fram í nál., að það er skilningur n., að tilgreind gr. tekjuskattslaganna sé ekki reglulega úr gildi felld, heldur sé framkvæmd hennar niður felld meðan l. um bráðabirgðatekjuöflunina eru í gildi, en þau eru aðeins miðuð við árið 1936; síðan kemur gr. aftur til framkvæmda, ef bráðabirgðaákvæðin eru ekki framlengd. Tekjuskattslögin í heild standa þannig óbreytt, en framkvæmd 6. gr. er frestað og önnur ákvæði koma í staðinn, meðan ákveðið er, að þau skuli gilda.