24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

23. mál, eignarnámsheimild á Reykhólum

Flm. (Sigurður Einarsson):

Ég mun ekki fara að metast um það við hv. þm. Barð., á hvers eða hverra atkv. ég komst inn í þingið. Ég held, að þetta sé í 3. sinn, sem þessi hv. þm. notar ræðutímann í Alþ. til þess að kveinka sér eitthvað undan þessari ráðstöfun hv. fyrrv. þm. N.-Ísf. En það fer að vekja athygli, ef hv. þm. Barð. teygir oftar hér í d. fram sínar særðu hendur til þess að biðja einhvern að sleikja kaunin. — Ekki mun ég heldur jagast við hv. þm. um það, hversu óþarft og vanhugsað þetta frv. sé. Aðeins vil ég benda hv. þdm. á það, að hv. þm. Barð. telur sig vera á ferðinni með frv. um kaup á jörðinni Reykhólum, ef um semjist við eigendur, að undangenginni rannsókn á því, hvort þörf sé á, að jörðin komist í eign ríkisins, og ef rannsóknin leiðir í ljós, að slíkt sé nauðsynlegt. Ég tók það einmitt fram í minni framsöguræðu, að ég gæti ákaflega vel sætt mig við það — og ég benti hv. n. á það —, að viðfelldnara væri að hafa í frv. ákvæði um, að ríkisstj. skyldi vera heimilt að kaupa eða taka eignarnámi þessa jörð. Því getur varla borið svo mikið á milli í þessu efni hjá okkur hv. þm. Barð., að ástæða sé til að fara í svarra út af þessu frv. fyrir menn. sem hafa nokkurn veginn sæmilega rólegar taugar.

Orð hv. þm. Barð. um það, að við jafnaðarmenn viljum svæla undir ríkissjóð allar beztu eignir í landinu, eru ekkert annað en geðvonzka. Og orð hans í þá átt, að hér eigi að beita þrælatökum með því að fyrirskipa eignarnám, eru ekki heldur komin til af öðru en því, að hv. þm. hefir lesið frv. mitt í einhverju villuljósi. Það, sem í frv. er farið fram á, er ekki annað en það, að ríkisstj. sé heimilt að gera þessar ráðstafanir, að taka eignarnámi þessa jörð, eða m. ö. o. að kaupa hana eða taka eignarnámi, samkv. því, sem ég lýsti í minni framsöguræðu, að ég gæti fallizt á, að væri látið standa í frv. En eins og ég tók fram, liggur jörðin nú á lausu frá hálfu eigenda hennar, og hefir hún ítrekað verið boðin til kaups nú. En ekki hefir fengizt boð í hana. sem eigendur geti sætt sig við. Og hv. þm. Barð. veit vel, af hverju það er. Það er ekki af því, að jörðina skorti landkosti né stærð. Hann veit, hv. þm., að það kemur til af því, að jörðin er meira bákn en svo, að menn finnist, sem geti keypt hana og gert sér hana arðberandi að kaupunum loknum. Það er þess vegna ekkert annað en bara getgátur, sem af einhverjum dularfullum ástæðum skortir þann velvilja, sem hv. þm. Barð. vill láta eigna sér í öllu, sem hann talar og gerir, þegar hann gefur í skyn, að með þessu frv. sé verið að ráðast á erfingja Þóreyjar sál. Pálsdóttur. Fyrir mér vakir ekkert annað með þessu frv. heldur en það, að æskilegt væri, að jörðin yrði ríkiseign.

Hv. þm. Barð. sagðist ekki sjá, að þetta mál kæmi mér neitt við. Það kemur reyndar mér við nákvæmlega á sama hátt og honum sjálfum og hverjum öðrum þm. Og íbúum Reykhólasveitar kemur þetta mikið við. Hvernig fer um Reykhóla í framtíðinni, ef þeir verða hjáleiga frá Miðhúsum, eins og þeir hafa að nokkru leyti verið undanfarið? Það yrði engum til góðs, — ekki eigendum jarðarinnar, og sjálfsagt síður íbúum hreppsins til góðs.

Það getur vel verið, að þetta mál megi tefja með því að segja, að ekki liggi fyrir álít byggt á nægri rannsókn á því, hvort ríkið eigi að kaupa Reykhóla. Stefnan er nú sú, að fara gætilega í því að farga jarðeignum ríkissjóðs. Og þar sem lítið sem ekkert er um jarðhitasvæði á Vesturlandi annarsstaðar en þarna, þá tel ég mjög æskilegt, að hið opinbera eigi Reykhóla. Ríkið hefir eignazt margar jarðir, án þess að nokkur ráðstöfun hafi verið gerð á undan kaupunum um það, til hvers jörðina skyldi nota. Eins og ég tók fram, er það stefnan nú, að ríkið fari gætilega í að selja jarðir, sem stafar m. a. af því, að ekki er nú eins eftirsóknarvert og áður fyrir bændur að leggja stórfé í að kaupa jarðir. Þetta sést greinilega á því, að til eru bændur, sem bjóðast til að gefa ríkinu jarðir sínar, gegn því að það taki að sér skuldir, sem ekki eru nema hluti af því, sem þeir keyptu jarðirnar fyrir.

Þá ætla ég aðeins að bæta því við, að það stendur hvergi í frv. né í grg. þess, að það sé vegna veðursældar á Reykhólum, sem mér hefir dottið í hug, að æskilegt væri, að ríkið eignaðist þá. Hv. þm. Barð. gerði mikið úr veðursældinni þar. (BJ: Ég nefndi ekki veðursæld á Reykhólum. en sagði aðeins, að þar væri fallegt í góðu veðri). Jú, hv. þm. talaði um veðursæld þar. En veðursæld er þar ekki meiri en annarsstaðar.

Ég verð að álíta, að þegar talað er um mál á þessum grundvelli, þá sé ekki eyðandi tíma hv. þd. í það. Ég óska, að gengið verði til atkv. um að hleypa málinu til 2. umr. og landbn. Svo má tala um það á öðrum vettvangi, hvort það sé óþarft eða óréttlátt, að ríkið eignist Reykhóla.