14.03.1936
Neðri deild: 24. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2496)

55. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur m. fl.

*Gísli Sveinsson:

Ég skal ekki tefja tímann, en vil aðeins láta í ljós undrun mín, yfir því, hve hv. n. hefir orðið fljót til að skila áliti um þetta mál. Ég bjóst ekki við því, að nýskipuð n. gæti skilað álíti svo fljótt um þetta vandamál. Mér hefði þótt það eðlilegast, að öll ákvæði um laun opinberra starfsmanna hefðu orðið samferða frá n., og bjóst satt að segja ekki við öðru. En nú er mér alveg óljóst, hvað n. ætlast fyrir.

Nefndin mun nú að vísu sjá, að ókleift er að leggja fram frv. mþn. í launamálum óbreytt, vegna sameininga þeirra, sem þar er gert ráð fyrir. Það er þegar ljóst, að þær eru dauðadæmdar. Þess er því að vænta, að n., beri fram frv. um launamálin á tiltækilegum grundvelli, og hefði verið eðlilegast, að öll frv. hefðu orðið samferða inn í þingið.

En úr því að n. hefir nú af einhverjum ástæðum kosið að taka frv. um laun hreppstjóranna út úr og flytja það á undan öllum hinum, og stendur að þessu næstum óskipt, tel ég rétt að vera ekki að spyrna gegn því máli. Afgreiðsla þess skiptir litlu máli fyrir ríkissjóð, en þörf þeirra manna, sem hlut eiga að máli, er löngu viðurkennd. Hér er aðeins að ræða um nokkra tugi króna í launaviðbót til hvers á ári, og nokkra tugi aura að auki í aukatekjum. Hér er það því þörfin, sem verður að ráða, en ekki það, hvort menn eru ósammála um, hvort rétt sé, að málið komi fram nú eða að afgreiðsla þess kosti ríkissjóð 14 þús. kr. Það er vitað, að sá eini nm., sem beitir sér gegn þessu máli, hefir þessa upphæð, 14 þús. kr., í laun á ári. Þótt ég sé ekki að efast um það, að hann vinni ærlega fyrir þessum launum á sína vísu, þá getur maður í hans sporum varla álitið þetta mái neitt stórmál. Þetta getur ekki haft nein áhrif á það, hvernig og hvenær sýslumenn fá bætt upp sitt skrifstofufé. Skrifstofuféð verður hækkað af öðrum ástæðum en laun hreppstjóranna. Það verður hækkað vegna aukinna anna og ferðalaga sýslumannanna sjálfra, en þar sem það mál liggur ekki fyrir hér að þessu sinni, skal ekki nánar út í það farið.

En þess má geta, að allir, sem nokkuð eru kunnugir úti um landið og ekki eru svo miklir landshornamenn, að þeir kynni sér ekkert nema yfirborðið, vita það, að störf hreppstjóranna, eins og sýslumannanna, aukast með hverri nýrri löggjöf. Launakjör hreppstjóranna, ef laun skyldi kalla, eru því löngu úrelt, og verða það aftur eftir nokkur ár. Því er fjarstæða að vera að tala um þetta sem eitthvert háskalegt nýmæli fyrir ríkissjóð, ekki sízt þegar á það er litið, að ljósmæður í hverjum hreppi hafa nýlega fengið þreföld laun á við það, sem áður var. En þessar ljósmæður, sem að vísu eru mjög nauðsynlegar. eins og hreppstjórar, hafa alls ekki meira að gera en þeir. Það eru dæmi til þess í fámennum sveitum, að yfirsetukonur þurfa ekki að hreyfa sig frá heimilum sínum allt árið. En þegar þeim eru greidd laun á manntalsþingum, þá fá þær miklu hærri laun en hreppstjórar, þannig að fyrir hverjar 1000 kr. til hreppstjóranna fá ljósmæður 3000 kr. Hv. 2. þm. N.-M. hefir ekki fundið neitt að þessu, en hann gerir það ef til vill síðar, ef launakjör ljósmæðra verðu tekin til meðferðar í þinginu.

Ég sé ekki, að hv. þm. bæti sig á því að ræða frekar um þetta frv., sem hér liggur fyrir, eða á því að telja eftir hreppstjóralaunin; ég held, að það komi bráðum fyrir annað mál, sem er stærra í vöfum, og þá ætti hv. 2. þm. N.-M. að taka á þeim stóra sínum og leggja eitthvað meira og staðbetra til málanna en að þessu sinni. Því að honum hefir ekki tekizt að rökstyðja ágreining sinn við meiri hl. n. svo, að forsvaranlegt megi teljast.