17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2596)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Mér kom dálítið á óvart, þegar hæstv. ráðh. fór ennþá að krafsa í frv., eftir þá breyt., sem samkomulag varð um í fjhn. að gera. Eins og ég skýrði frá við 2. umr., er bersýnilegt, að frv. er mjög skert við það samkomulag, sem varð í fjhn., en þó hefi ég lýst yfir, að ég muni fylgja frv. — jafnvel þó ekki sé meira eftir af því. En ég tel mig hafa óbundnar hendur um að greiða atkv. með till., sem gengur lengra. Nú liggur fyrir till. frá hv. þm. Vestm. um að bæta við veiðarfærum, og frá hv. þm. Ísaf. um að bæta við veiðarfærum og allskonar útbúnaði til skipa. Ég skal játa, að orðalagið á síðustu till. er nokkuð óbundið, en ég býst við, að flm. meini þar útbúnað til veiðiskipa, því ég ætla ekki að gera honum þær getrakir, að hann flytji till. til þess að drepa frv.: a. m. k. ætla ég fyrst að sjá, hvernig afstaða hans verður við atkvgr.

Út frá því, sem hæstv. fjmrh. sagði um fjandskap — eins og hann orðaði það —, sem till. hans hefði mætt, þá kannast ég ekki við það. Till. hefir verið mótmælt blátt áfram af einstökum þm., en enginn fjandskapur verið sýndur, nema að hún féll eins og fjöldi till. gerir alltaf í þessari d. og þinginu yfir höfuð, án þess að við það sé bundinn nokkur fjandskapur til till. sjálfra: það er bara skoðanamunur. En mér fannst hæstv. ráðh. furðu ófeiminn, að tala um fjandskap við sjávarútvegsmál, því að það hefir ekki leynt sér, að það er um miklu meira en skilningsleysi að ræða frá hans hálfu og hans samflokksmanna gagnvart sjávarútveginum. Það þýðir ekki að fara neitt í launkofa með, að almennt er það álitinn vera mjög blindur fjandskapur, þegar á það er litið, að hæstv. stj. veit vel, að afkoma fjölda fólks í landinu er afskaplega bundin því, að liðkað sé til fyrir þessum atvinnurekstri, þegar hann stendur höllum fæti, og þar að auki eru tekjur ríkissjóðs ákaflega mikið bundnar við afkomu þessa atvinnuvegar. Þegar tekið er tillit til þessa, held ég, að mönnum blandist ekki hugur um, að það er miklu meira, en skilningsleysi, sem veldur þeirri þrjózku og þeirri andstöðu, sem svo að segja hver einasta till., sem á að vera sjávarútveginum til hjálpar, mætir hjá honum og hans skoðanabræðrum. Hæstv. stj. veit það vel, að innan hennar flokka eru menn, sem þykir nóg um þennan kulda, sem sjávarútvegurinn hefir mætt frá stj., og þar af leiðandi er það, að einstakir menn í fjhn. hafa viljað ganga til móts við okkur flm. í þessu máli. En það er sýnilegt, að seigla óvildarinnar er furðu mikil hjá hæstv. stj. Þegar búið er að skerða frv. mikið í d., þá rís hæstv. fjmrh. upp og segir frá því feimnislaust, að hann ætli að nota þá átyllu, að ekki var samþ. sérstakt form fyrir því, hvenær ferðamenn væru ferðbúnir úr hlaði, að hans skapi, til þess að verða þessu máli til tjóns og að bana. Ég skal ekki segja, hvernig Ed. snýst í þessu máli, en hæstv. ráðh. talaði eins og hann ætlaði að skríða í eitthvert skúmaskot í Ed. til þess að myrða frv. Ég veit ekki, hvort hann er svo kunnugur þar, að hann viti af einhverju skúmaskoti, þar sem hann gæti myrt málið, en hann talaði kunnuglega um, að þarna væri hægt að skriða í einhvern skugga, þar sem væri hægt að koma málinu fyrir kaftarnef.

Út af því, sem talað hefir verið um, hvort Sambandið hefði sérstöðu um gjaldeyri, þá vil ég upplýsa, það, að formaður gjaldeyrisn. kom á fund sjútvn. í fyrra. Þar var leitt í tal, hvort Sambandið hefði sérstöðu í því efni. Ég man ekki, hvort það var ég eða hv. þm. Vestm., sem spurði blátt áfram um það, hvort Sambandið hefði sérstöðu hvað gjaldeyrisleyfi snerti. Hann viðurkenndi, að svo væri, að það héldi sínum gjaldeyri sérstaklega, en fór ekki nákvæmlega út í það, að segja, hvort það væri allur sá gjaldeyrir, sem því tilfelli, sem það réði yfir án verulegrar íhlutunar bankanna.

Þetta er ekki ný saga fyrir okkur. Almenningi er kunnugt, að innflutningshöftunum er misbeitt, og er bezt að segja það alveg umbúðalaust. Það er vitað, að þessum l. er misbeitt pólitískt. Einstakir atvinnuvegir og sérstakir stjórnmálaflokkar eiga ávallt undir högg að sækja sinn rétt, nema þeir geti fyrir sig borið alveg skýlausan lagabókstaf, en aftur á móti er séð gegnum fingur við þá, sem eru pólitískir fylgismenn núv. valdhafa.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að þetta frv. er borið fram fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að það var komið í ljós, að ekki voru aðeins mikil vandræði fyrir útgerðarmönnum að fá yfirfærslur, heldur voru yfirfærsluvandræðin, og sérstaklega yfirlýsingar, sem gefnar voru út af stjórnarvöldunum í sambandi við það, farnar að spilla stórkostlega lánstrausti þeirra, svo að ekki eingöngu voru líkur til, að þeir gætu ekki greitt vörurnar, heldur var loku fyrir það skotið, að þeir fengju gjaldfrest hjá erlendum seljendum. Ástæða fyrir frv. er einnig sá réttur, sem hver maður á til þess gjaldeyris, sem hann aflar. Það er eign mannsins, sem hann fær fyrir sína vöru, og er ekki hægt nema með sérstökum l. að svipta hann þeim eignarrétti. Þetta hefir verið gert með gjaldeyrisl. Menn hafa beygt sig undir það af þjóðarnauðsyn. En það gengur of langt, þegar girt er fyrir það, að menn fái að halda áfram atvinnurekstri sínum fyrir þessum höftum. Frá almennu sjónarmiði er það ekki ósanngjarnt, að útgerðarmenn ráði yfir þeim hluta gjaldeyris síns sem þarf, til þess að geta skaffað aðkeyptar vörur til atvinnurekstrar síns. Á þetta hefir fjhn. litið og því gert þá miðlun í málinu, sem ég vil fylgja, svo langt sem hún nær, en álit, að ekki megi á nokkurn hátt skerða.

Nú líður að atkvgr. um þetta mál. Ef d. verður þeirrar skoðunar, að frv. eigi að komast út úr d. óbreytt, eða með þeim breyt., sem fyrir liggja nú, þá geri ég ráð fyrir, að þeir haldi þessari einurð og breyti frv. aftur, þegar það kemur úr þessu fyrirhugaða skúmaskoti hæstv. fjmrh.