17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (2598)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að svara orðum hv. 6. þm. Reykv. um óvild mína til sjávarútvegsins, — ég hefi svo oft svarað því áður. Þetta mál snertir ekki heldur það, hvort menn vilja unna sjávarútveginum einhvers réttar, heldur, eins og ég hefi margtekið fram, aðeins formið fyrir því, hvernig hentugast er að fá vörur til landsins. Allur þessi blástur hv. þm. um óvild til sjávarútvegsins er því út í bláinn.

Þá hefir bæði hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. verið mjög umhugað að halda því fram, að Sambandið hefði það, sem þeir kölluðu sérréttindi og ívilnanir um gjaldeyri sinn. Ég upplýsti það áðan, hvernig þessu hefði verið háttað með Sambandið, a. m. k. í fyrra, að það hefði fengið að verja nokkru af sínum gjaldeyri til greiðslu á skuldum vegna vöruinnflutnings. Ég hygg, að hver maður, sem ekki er skyni skroppinn, sjái, að hér er ekki um neinar ívilnanir að ræða til handa þessu verzlunarfyrirtæki, heldur er þetta gert af gjaldeyrisyfirvöldunum til þess að hægt sé að halda við því lánstrausti, sem þarna hefir verið myndað erlendis, því að hér var um að ræða lán í banka. Og ef ekki hefði verið hægt að halda við þessu lánstrausti, hefði orðið að telja út gjaldeyrinn fyrir þessar vörur miklu fyrr en ella. Það er því þessi dýrmæti gjaldeyrisfrestur fyrir bankana og landið í heild sinni, sem veldur því, að þessu hefir verið hagað á þennan hátt, en alls ekki verið skapaðar neinar ívilnanir fyrir þessa stofnun.

Hv. þm. Vestm. orðaði þetta svo, að Sambandið hefði haft ívilnanir að því er snerti almenn vörukaup. Ég hygg, að þetta sé vísvitandi orðað þannig til þess að koma að blekkingum, því að þessi orð eru ekki rétt. Sambandið hefir vitanlega orðið að hlíta minnkuðum innflutningsleyfum alveg eins og aðrir, en fengið, eins og ég sagði, að nota nokkuð af sínum gjaldeyri til þess að greiða sínar eigin skuldir. Hvort önnur fyrirtæki hafa haft samskonar lán, er mér ekki kunnugt, en ég hygg, að svo hafi ekki verið. (HannJ: Mér er kunnugt um, að neitað hefir verið um gjaldeyri til samskonar greiðslu). Mér er ekki kunnugt um það. Bankarnir hafa beinlínis gert þetta til þess að halda við lánstraustinu erlendis, en það var alveg sama fyrir Sambandið, því að það hefði annars fengið lán innanlands (HannJ: En það er ekki sama fyrir heildina). Nei, það er rétt, það er betra fyrir þjóðarheildina, að slíkt lánstraust fáist í erlendum bönkum.

Þá sagði hv. þm. Vestm., að það væri ekki sambærilegt, þó að menn fengju svona leyfi, ef þeir keyptu t. d. skip erlendis. En þetta er einmitt sambærilegt, því að í báðum tilfellunum er um að ræða viðskipti, sem innflutnings- og gjaldeyrisleyfi þarf fyrir. Annars er það, að ef hv. þm. hefir eitthvað sérstaklega að athuga við þetta, þá ætti hann ekki að beina því fram hér á þingi, heldur gegn þeim, sem að þessu hafa staðið, sem sé bönkunum.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði í sambandi við það, sem hann sagði um Sambandið, að almenningi væri kunnugt, að gjaldeyrisl. væri misbeitt til framdráttar þeim, sem styddu stj. Maður kannast við þennan són, sem er framhald af því, sem sífellt hefir verið klifað á í blöðum stjórnarandstæðinga. Þó hafa þeir ekki séð sér sigurvænlegt að halda því fram nú, og eftirtektarvert var það, að á eldhúsdaginu, sem er nú nýafstaðinn, var þetta ekki nefnt á nafn. Hefði naumast verið þagað um það, ef eitthvað hefði verið hægt að draga fram. Og til þess að sýna, hversu ástæðulausar þessar ásakanir eru um hlutdrægni í garð Sambandsins, vil ég geta þess, að þegar úthlutað var fyrir fyrsta ársfjórðung, þá fóru fram umr. milli fulltrúa verzlunarráðsins í sambandi við gjaldeyrisleyfin og skiptinguna milli kaupmannaverzlana og samvinnuverzlana, og þá varð fullt samkomulag milli þessara aðilja um þetta mál. Fulltrúar kaupmanna í verzlunarráðinu lýstu sig samþ. þessari ráðstöfun gagnvart Sambandinu. Það er því misskilin húsbóndaþjónkun hjá hv. 6. þm. Reykv., ef hann heldur, að hann fari hér með eitthvað, sem sé vel séð í þeim herbúðum, sem hann hefir bækistöð í. Það eina, sem ósamkomulagi gat valdið, var það, hvort ný kaupfélög fengju gjaldeyrisleyfi. Það sem þessi hv. þm. gæti því helzt talað um misbeitingu, væri úthlutun gjaldeyris til slíkra nýrra neytendafélaga. En ég er reiðubúinn að standa við það, að sú ráðstöfun hefir orðið ákaflega mikið til þess að koma í veg fyrir, að verðhækkun skylli yfir þennan bæ jafnmikið og orðið hefði, ef ekkert hefði verið að gert. Og þó að þessi hv. þm. tali um misbeitingu, þá mun almenningur ekki taka undir það, hvorki í þessum bæ né annarsstaðar.

Þessi hv. þm. var að tala um, að stjórnarandstæðingar fengju ekki réttláta afgreiðslu hjá gjaldeyrisnefnd, en aftur á móti væri séð gegnum fingur við meðhaldsmennina. Ég vil skora á hann að færa sönnur á þessi orð. Ég held, að þótt öllum sé það ljóst, að það er mikill vandi að stjórna gjaldeyrismálunum, þá verði aldrei sagt með sanni, að vísvitandi hafi verið beitt rangindum í þeim málum. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að góð samvinna hafi verið milli gjaldeyrisnefndar og fulltrúa verzlunarstéttarinnar, sem í höfuðdráttunum hefir með þessi mál að gera.

Umr. þessar eru nú komnar alllangt frá efni frv., en á því á ég enga sök. Ég hefi orðið að svara því, sem að mér hefir verið beint. Ummálið sjálf` hefi ég sagt mína skoðun, og læt það nægja. Ég mun beita mér fyrir því, að till. um ferðamennina verði tekin inn í frv. í Ed., en verði till. hv. þm. Vestm. samþ., þá tel ég mér ekki fært að fylgja frv. frá þessari umræðu.