07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Frsm. 3. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Eins og kunnugt er, hefir fjhn. klofnað í 3 hluta í þessu máli. Nál. það, sem ég hefi getið út, er á þskj. 461. Ég er sammála 2. minni hl. um að leggja það til, að frv. verði samþ., en ég legg til, að gerðar verði á því nokkrar breyt., og flyt ég um þær till. á þskj. 461. I a-lið vil ég víkja nokkuð frá frv. í þrem atriðum. Ég legg til, að í stað þess, að í frv. er aðeins talað um útgerðarmenn, nái ákvæðin til útflytjenda hverskonar afurða. Ég álít, að þær ástæður, sem mæla með ákvæðum frv. að því er snertir útgerðarmenn um frelsi til þess að ráðstafa gjaldeyri fyrir útfluttar vörur, mæli einnig með því, að þeir, sem flytja út landbúnaðarvörur, njóti hins sama. Hv. frsm. 2. minni hl. minntist að vísu á, að í frv. væri aðeins um að ræða heimild til þess að ráðstafa gjaldeyri til að kaupa vörur, sem þarf beinlínis til útgerðarinnar, en það eru líka til vörur, sem þarf beint til landbúnaðarins, og álít ég, að ekki eigi að gera upp á milli þessara tveggja atvinnugreina að þessu leyti.

Þá er það önnur breytingin í a-lið, að leyfi gjaldeyrisnefndar skuli þurfa í hvert skipti til þess að menn megi ráðstafa gjaldeyri sínum. Margir munu segja, að ef þessi brtt. verði samþ., sé um litla breyt. að ræða frá því, sem nú er. En þó álít ég, að innflutningsnefnd geti losað útflytjendur við að sækja um sérstök gjaldeyrisleyfi, svo að meira frjálsræði yrði í þessum efnum en áður. Þriðja atriðið í a-lið er það, að gjaldeyrir skuli vera frjáls til greiðslu á eigin skuldbindingum, í stað þess að vera miðaður við einstakar vörutegundir.

Þá legg ég það til í b-lið, að ákveða megi í reglugerð, að allir þeir, sem fara til útlanda, leggi fram skírteini fyrir öflun löglegs gjaldeyris til fararinnar. Eins og gjaldeyrismálum þjóðarinnar er nú komið, er þetta nauðsynlegt til þess að gjaldeyrislögin komi að fullu haldi, þar sem vitað er, að mikið af erlendum gjaldeyri fer út úr landinu með mönnum, sem ferðast til útlanda. Ég veit, að menn munu telja þetta ófrjálslegt, en margar aðrar slíkar ráðstafanir verður að gera, meðan það vandræðaástand ríkir í gjaldeyrismálunum, sem nú er og ekki er fyrirsjáanlegt, að batni í nánustu framtíð.