03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2696)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég tel rétt að víkja nokkrum orðum að ræðu þeirri, er hv. þm. V.-Sk. hélt hér áðan fyrir kaffihléð, þótt flest af því hafi hann áður sagt og ég hafi því í raun og veru litlu að svara.

Hann hélt áfram að tala mikið um þessar pípur, sem einkasalan hefði flutt og væru svo slæmar, að þær yrðu ekki notaðar. Ég upplýsti það áðan, að þetta eru samskonar pípur eins og þær, sem rafmagnsveita Rvíkur löggilti til notkunar í fyrra. Ég athugaði þetta nánar nú í kaffihléinu og átti tal við forstjóra einkasölunnar, og hann segir, að ekki sé hægt að ásaka einkasöluna fyrir að hafa flutt þessar pípur, sem hafi verið samþ. af rafmagnseftirlitinu. Þótt nú að fenginni reynslu þyki hæpið, að hægt sé að nota þær til síns brúks, þá sé einkasalan í fullum rétti.

Viðvíkjandi því, hve mikið sé til af þessum pípum, þá er það upplýst af einkasölunni, að það er rangt, að til séu 20 þús. metrar, eins og hv. þm. V.-Sk. heldur fram. Það mun nær, að til séu um 10 þús. metrar, eða helmingur þess, sem hv. þm. sagði, og fer vel á því, að hann fari ekki út fyrir þau takmörk, sem sett eru í gamla málshættinum, og segi ekki ósatt meira en um helming.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að rafmagnseftirlitið hefði neitað um löggildingu á og orðið að banna um 700 tegundir af rörum, sem einkasalan hefði flutt. Út af þessum ummælum átti ég nú í kaffihléinu tal við forstöðumann rafmagnseftirlitsins, og samkv. upplýsingum frá honum, þá eru þessi ummæli hv. þm. sumpart alröng og sumpart villandi, eins og annað það, sem hann hefir haldið fram í þessu máli. Hér er ekki um að ræða vörur, sem hafi verið fluttar inn til sölu, heldur sýnishorn, sem einkasalan hefir fengið og sendir rafmagnseftirliti ríkisins til umsagnar og löggildingar. Einkasalan sendir fleiri vörur heldur en hún hefir ákveðið að kaupa til rafmagnseftirlitsins, til þess að það velji úr, og samkv. þessu er frásögn hv. þm. V.-Sk. villandi. En hún er einnig alröng, því að það eru aðeins 36 tegundir af þessum sýnishornum, sem rafmagnseftirlitið hefir ekki viljað löggilda, en ekki 100 tegundir, og þarna fer hv. þm. langt út fyrir þau takmörk á ósannsögli, sem sett eru í málshættinum. Hinsvegar bíðu um 62 tegundir, sem rafmagnseftirlitið hefir ekki tekið ákvörðun um.

Þetta vildi hv. þm. láta líta svo út, að það væri sönnun fyrir því, að einkasalan flytti lélegar vörur, en forstöðumaður rafmagnseftirlitsins segir, að þetta gefi algerlega villandi hugmynd um það, því að hér sé aðeins um sýnishorn að ræða, svo að allt er á sömu bókina lært hjá hv. þm. V.-Sk.

Hitt er annað mál, að með rafmagnseftirliti ríkisins hefir það nýlega verið tekið upp að hafa heimild í lögum til að löggilda efni, og einkasalan hefir vitanlega ekkert við það að athuga, þótt slíkt eftirlit hafi verið sett. Þá er ekki hægt á eftir að skamma einkasöluna fyrir, að hún flytji ónýta vöru, því ákvörðunarvald um það er þá ekki í hennar höndum, og rafmagnsettirlitið verndar þannig einkasöluna fyrir árásum þeirra manna, sem bera illan hug til hennar, eins og t. d. hv. þm. V.-Sk. Og rafmagnseftirlitsmaðurinn sagðist ekki geta kvartað um samvinnuna við einkasöluna.

Hv. þm. V.-Sk. fór fljótt yfir sögu, þegar hann kom að þeim verðsamanburði, sem ég gat um áður. Hann hafði ekki önnur ráð en að segja, að þau skjöl, sem ég hefði, kæmu frá sakborningi (einkasölunni), og þess vegna væri ekkert að marka þau. En ég vil nú spyrja hann, hvaðan skjöl hans koma. Koma þau ekki frá ákærendum einkasölunnar? Og ef ekkert er að marka skjöl sakbornings, — hvað er þá að marka skjöl ákæranda? En það þurfti enga áskorun frá hv. þm. um að birta þennan samanburð. Vitanlega verður sá verðsamanburður, sem ég las hér áðan, birtur opinberlega, og hann verður áreiðanlega hv. þm. V.-Sk. til skammar.

Þá minntist hv. þm. á það, að sá samanburður, sem ég gerði, væri ekki eðlilegur, því að þar væri miðað við verðið hjá einkasölunni eins og það væri nú, og vildi segja, að það væri mikið breytt frá því verði, sem áður var og hann hefði tekið. Þessi breyt. á verði er ekki mikil, og það getur hver séð, sem vill bera verðin saman. En það, sem er, er hún til lækkunar, og stendur svo á því, að eftir að einkasalan hafði smám saman losað sig við gömlu vörurnar frá heildsölunum, þá gat hún farið að lækka verðið, af því að þá gat hún fengið betri innkaup, og þótti mér í rauninni vænt um að fá þessa viðurkenningu hv. þm. á þessu atriði.

Ég vona, að hv. þdm. hafi tekið eftir því, að allur samanburður hv. þm. V.-Sk. var þannig, að hann bar útsöluverð einkasölunnar til aðilja hér saman það það verð, sem raftækjakaupmenn fengu áður beint frá verksmiðjunum. M. ö. o., samanburðurinn var falsaður frá upphafi til enda og ekkert að marka hann. Það getur enginn ætlazt til, að einkasalan geti selt út frá sér með sama verði og hún kaupir inn frá verksmiðjunum. Það gátu kaupmennirnir ekki heldur, og þess vegna verður samanburður á verði að miðast við þau gömlu heildsöluverð, fyrir utan það, að innkaupsverðið, sem hv. þm. notaði í samanburði sínum, hlýtur að vera rangt í einstökum tilfellum. Annars gerði hv. þm. ekkert annað viðvíkjandi þessum verðsamanburði en berja höfðinu við steininn. Það er því ekki gott að eiga rökræður við slíkan mann, en ég vænti þess þó, að hv. þdm. hafi heyrt, hvílíkt röksemdaþrot hv. þm. komst í.

Þá kom hv. þm. enn á ný með dæmið um mótorvélina og hélt því fram, að einkasalan hefði orðið að kaupa hana hærra verði frá verksmiðjunni en hún hefði selt öðrum. En sannleikurinn er sá, að viðskiptamaðurinn hélt sér svo fast við það að fá mótorinn aðeins frá þessu ákveðna firma, að þar varð ekki um þokað. Annars verður hv. þm. að minnast þess í þessu sambandi, að maðurinn, sem ætlaði að kaupa mótorinn, hafði áður átt hlutdeild í einkaumboði fyrir þetta firma. — Þá barði hv. þm. líka höfðinu við steininn að því er snerti númerakassana. Eins og ég hefi áður tekið fram, þá getur varla annað komið til mála í þessu sambandi en að hann rugli saman tegundum. Það, sem hann virtist byggja á, var engu líkara en ef til hans hefði komið maður og sagt, að vasahnífur kostaði í einni búðinni 1 kr., en í annari 5 kr., og hann legði þennan verðmismun til grundvallar fyrir ádeilu á seljendur fyrir mismunandi verðlag á hnífnum, alveg án tillits til þess, þó að hér hafi verið um gerólíkar hnífategundir að ræða. Alveg sama máli gegnir um númerakassana. Þeir heita allir númerakassar, eins og hnífarnir heita allir hnífar, enda þótt tegundirnar séu mjög mismunandi.

Þá minntist hv. þm. á bifreiðaeinkasöluna, en fór frekar lítið inn á umr. um hana nú, því að það var dreginn af honum mesti ofsinn frá í gær. Það stendur við sama og ég upplýsti í gær, að t. d. fordbifreiðarnar hafa verið seldar fyrir lægra verð síðan einkasalan komst á heldur en þær voru seldar áður. — Þá sagði hv. þm., að pirelligúmmíin væru seld hér hærra verði nú en fyrirskipað væri af eigendunum. Um þetta veit hv. þm. ekkert. Allt fleipur hans um þetta er því órökstudd slagorð út í loftið, sem hafa við engin rök að styðjast.

Þá sagði hv. þm., að það væri vítavert að semja um jafnstóra sendingu af gúmmíum í einu eins og ég minntist á í gær, því að gúmmíin gætu skemmzt við geymsluna og orðið verðlaus. Hv. þm. til huggunar get ég sagt það, að þó að gerð séu í einu kaup á stórri sendingu til þess að ná út innstæðum, þá er ekki þar með sagt, að það þurfi að taka hana hingað alla í einu. Þvert á móti mun því hagað svo til, í þessu tilfelli a. m. k., að varan kemur hingað smátt og smátt, eftir því sem þörf krefur. Hv. þm. getur því sofið rólegur fyrir því, að hætta sé á, að vara þessi skemmist.