28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

95. mál, sveitarstjórnarlög

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég talaði nokkur orð við umr. um það mál, sem skylt var þessu að nokkru leyti og borið var fram sem brtt. við útsvarslögin. Ég sýndi þá fram á, að ef tilgangurinn væri sá, sem hv. þm. Mýr. og hans stuðningsmaður, hv. 1. þm. Árn., töldu vera, að losa hreppana og þar af leiðandi hlutaðeigandi sýslufélög við að íþyngja gjaldendum meira en bæri vegna þeirra eigna, sem virkilega ættu heima í hreppnum, eða hreppsbúar ættu eða hefðu not af. Þess vegna var því beint til hlutaðeigenda, sem eru kannske færri en hafa gefið sig fram, að slík breyt. á löggjöfinni sem þessi ætti betur heima við sveitarstjórnarlögin en útsvarslögin, því að með þessari breyt. sinni ætla hv. flm. ekki að íþyngja þeim mönnum, sem eiga sumarbústaðina, heldur er aðaltilgangurinn að losa hina við óþarfa gjöld. En hér stendur svo á, eins og þeir vita, sem eru kunnugir þessu, að hér er ekki verið að tala um nein gjöld, sem eiga að leggjast á fasteignir, því að hér er aðeins verið að tala um að breyta til um undirstöðu — mælikvarða, sem hafður hefir verið í sveitum landsins til þess að jafna niður sýslusjóðsgjaldinu eftir. Og mælikvarðinn er þessi, að sýslusjóðsgjaldinu er jafnað niður að 1/3 hluta eftir skattmati fasteigna í hreppi hverjum, það eru aðrir mælikvarðar líka, en ég þarf ekki að tiltaka þá nú. En hvað þennan mælikvarða snertir, samanlagt skattmat fasteigna í hreppnum, þá er að nokkru leyti eftir honum skipt niður þessu gjaldi, sem sýslunefndin ákveður, að skuli heita sýslusjóðsgjald og jafnast niður á hreppana. Hér er því ekki verið að tala um, að gjaldið í sjálfu sér verði meira eða minna, hvort sem fleiri eða færri eiga hinar og þessar fasteignir í hreppnum, því að sýslusjóðsgjaldið er ákveðin upphæð, og það er hún, þessi ákveðna upphæð, sem jafnast niður eftir vissu hlutfalli á milli hreppanna. Það gerir hvorki að minnka eða hækka gjaldið, hvernig sem fer með þennan mælikvarða, hvort sem fasteignirnar rýrnuðu eða yxu, eða heldur um hina mælikvarðana, hvort sem tala verkfærra manna breyttist í einum hreppi eða öllum, eða hvort tekjur manna og eignir breyttust, sem líka er þriðji mælikvarðinn. Gjaldið er ákveðið fyrirfram, og því verður að skipta. En það skiptist hlutfallslega niður á hreppana. Hér kemur því fram misskilningur hjá þessum hv. þm. (JörB), að hér sé um það að ræða, hvort eigi að skattleggja hina og þessa vegna sinna fasteigna í hreppnum. Það á ekki að gera, hvorki þá menn, sem eru í hreppnum og eiga fasteignir, né hina, sem ekki eiga heima í hreppnum. En hitt er atriði, sem ég efast um, að hv. 1. þm. Árn. skilji, en ég þykist vita, að hv. þm. Mýr., sem flytur þetta frv., skilji, að þessum mælikvarða þarf aðeins að breyta á þennan löglega og sjálfsagða veg, að hindra, að hreppunum sé íþyngt í þessum skiptum vegna þess að einhverjir aðkomumenn eigi þar einhverjar eignir.

Ég sýndi fram á það í fyrri ræðu minni, að þessar eignir eru ekki slíkar sem útsvarslögin ætlast til í 8. gr., að komi til greina, þegar skipta á útsvari eða jafna niður. Ef þessir sumarbústaðir teldust til þeirra eigna, sem talað er um í 8. gr., þá mætti segja, að þessar húseignir kæmu undir útsvarslögin. Það er kostnaðarsamt fyrir þá menn, sem eiga hús eða hafa íbúð á leigu í þeim kaupstað, sem þeir eru búsettir í, að eiga sumarbústað, sem þeir búa í ásamt fjölskyldu sinni lengri eða skemmri tíma á sumrin. — Nú er þetta mál komið inn á rétta braut, þar sem gert er ráð fyrir, að fasteignamat þessara húseigna, sem hér um ræðir, skuli dregið frá skattmati fasteigna áður en sýslusjóðsgjaldinu er jafnað niður, og það er vitanlega rétta leiðin í þessu máli.

Það má ef til vill segja, eins og fram kom hjá hv. frsm. allshn., að það væri ekki beinlínis rangt, að hreppar ættu að bera ofurlítið þyngri hlut vegna þessara húseigna, sem hreppsbúar hefðu meiri og minni hag af vegna viðskipta eigenda þessara sumarbústaða við hreppsbúa; um það skal ég ekki dæma; málið er sem sé ekki á þeim rekspöl, en þessar fasteignir á að draga út úr sem óviðkomandi þessum niðurjöfnunarmælikvarða. Við það getur engin ringulreið skapazt, því að sýslusjóðsgjaldið er ekki lagt á fasteignir, heldur er fasteignamatið aðeins notað sem mælikvarði í sveitarstjórnarlögnnum að því er snertir niðurjöfnun á sýslusjóðsgjöldum. Eins og kunnugt er, eru gjöld kaupstaðanna ekki miðuð við þetta; þau eru ekki miðuð við neina slíka skiptingu, því að hennar er ekki þörf. Þar skiptir það engu máli í þessu sambandi, þótt menn eigi sumarbústað á einum eða öðrum stað. Það mætti segja, að einmitt af því, að þessir menn tilheyra kaupstöðunum, megi ekki nota þá fyrir mælikvarða til niðurjöfnunar uppi í sveit. En þó þeir sleppi við það, þá verða þeir að greiða þessi venjulegu gjöld í þeim kaupstað, þar sem þeir eru búsettir; þeir verða að borga fasteignaskatt og eignarskatt þar, sem þeir eiga heima, og loks má fullyrða, að við álagningu þessara almennu gjalda er einnig tekið tillit til þessara eigna þeirra. — Svo er að geta þess, að þar, sem sýsluvegasjóðir eru, er heimilt að taka af þessum mönnum gjald til sýsluvegasjóðs, svo að ekki sleppa þeir þar. En nú er spurningin bara, hvort það á að hleypa sveitunum á þessa menn og gefa þeim rétt ofan á allt annað til að leggja á þá útsvör, sem enginn getur reiknað út nákvæmlega, hvað ætti að nema miklu. Menn segja, að þetta sé lítil upphæð, sem hér geti verið um að ræða. Það getur vel verið, að hv. 2. þm. N.-M. mundi reyna að reikna þetta, en það yrði mikil rekistefna út af þessu um allar jarðir. Hv. 1. þm. Árn. ætlast til þess, að þeir verði notaðir til þess að skattleggja þá í sveitunum, en það er ekki rétt, því að það á aðeins að leggja á þá þar, sem þeir eiga heima.

Þetta er því eina rétta leiðin í þessu efni; allt annað er rangt. Hagsmunum þeirra hreppa, sem hér um ræðir, er að fullu borgið með þessu, enda fóru þeir, eftir því sem hv. þm. Mýr. segir, aldrei fram á að fá að leggja skatta og skyldur jafnt niður á þessa menn, heldur fóru þeir fram á, að þeir væru losaðir undan þeirri íþyngingu, sem einn og einn hreppur verður fyrir vegna þessara húseigna, sem hér um ræðir, og vitanlega eiga hrepparnir ekki að bera skarðan hlut frá borði vegna þess.

Hv. 1. þm. Árn. virðist misskilja þetta ennþá; hann hefir nú líklega verið hreppstjóri og oddviti, og ef til vill sýslunefndarmaður, en það getur komið fyrir, að menn fáist við ýmiskonar mál án þess að komast inn í þau, en fyrst hv. þm. hefir misskilið þetta, þá verður hann að sætta sig við það, að menn ætlast til þess, að hann taki sönsum, þegar menn benda honum á sannleikann í þessu máli. Hv. þm. verður að skilja það, að ef hann ætlar að bera fram brtt. við þetta frv., sem er brtt. tíð sveitarstjórnarlögin á þeim grundvelli, sem hann byggir á í þessu efni, þá er það á röngum stað, því að við sveitarstjórnarlögin má ekki bera fram brtt. um útgjöld á sérstaka menn. Hv. þm. ætti því að hætta við að bera fram brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir, heldur geyma það þangað til seinna og bera þá fram brtt. við útsvarslögin, um það, að þessir menn skuli skattlagðir, og ef meiri hluti þings fylgir þeirri brtt., þá verðum við hinir náttúrlega að fleygja okkur fyrir því, en fyrr ekki.