12.03.1936
Efri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (2918)

69. mál, hrafntinna

*Jónas Jónsson:

Umr. þessar geta frekar talizt upplýsingar um málið en hörð deila. Til frekari upplýsinga skal ég taka það fram, að húsameistari hefir einnig nú í seinni tíð unnið nokkuð að hinni teknisku hlið þessa máls, því að ég hefi séð erlendis sýnishorn frá honum, sem hann hefir sent byggingarmeisturum ytra. Hann hefir því haldið áfram uppgötvunarstarfsemi sinni, alveg án þess að vera með verzlun fyrir augum, uppgötvunarstarfsemi, sem getur orðið stór gjöf til landsins, ef allt fer sem að líkum lætur. Og þetta gerir húsameistari jafnt fyrir það, þó að laun hans séu ekki nema helmingur á móti því, sem aðrir sambærilegir starfsmenn hafa.

Þá vildi hv. flm. halda því fram, að kaupmaður sá, sem í þessu tilfelli vill fá einkaleyfi, hafi gert tilraunir í þessu efni. En þetta er ekki rétt; hann hefir aðeins gert það sama og ef hann hefði selt kjöt og fisk. Því getur hann haldið áfram, ef hann vill, og það eina, sem ætti að vera tap, er, ef einhverjir aðrir flyttu út þessa vöru líka. — Nú veit ég, að hv. 2. þm. Rang. er svo kunnugur hagfræðikenningum síns flokks, að hann veit, að því hefir verið haldið fram, að það væri um að gera, t. d. með fisk og kjöt, að framboðið væri á sem flestra höndum. Þó að breytt hafi verið út af þessu með fiskinn á síðustu tímum, þá nær það ekki til þessarar vöru, og ég get ekki séð annað en að það sé heppilegra fyrir þennan mann að halda áfram með þetta í frjálsri samkeppni, a. m. k. ef hann hallast að þeirri hagfræðilegu pólitísku trú, sem ég hygg, að hv. flm. styðjist við.

Þar sem hv. flm. vék að hinum einkaleyfunum, þá hrakti hann það ekki, að Sveinbjörn Jónsson hefði átt hugmyndina að því að nota vikur sem einangrunarefni í byggingar, og það hefir verið sannað með tilraunum, að það hefði verið æskilegt líka hér á landi að nota vikur til einangrunar í hús. Um hitt er ég raunar samdóma hv. þm., að það séu ekki ákaflega miklar líkur til þess, að Sveinbirni Jónssyni takist það nú, en það var a. m. k. sú réttlæting, að hann fékk með þessu móti að reyna sínar eigin hugsjónir.