20.02.1936
Efri deild: 4. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

5. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Einar Árnason:

Ég geri ráð fyrir, að tilgangurinn með þessu frv. sé sá, að gera foreldrum barna á skólaskyldualdri nokkuð léttara fyrir um kaup á námsbókum heldur en nú er. Um þann tilgang er vitanlega ekkert nema gott að segja. Ég hygg, að þetta barnaskólabákn, sem búið er að setja hér í landinu, sé orðið svo þungt fyrir þjóðfélagið og einstaklingana, að sjálfsagt sé að taka vel hverri tilraun, sem gerð er til þess að fá það að einhverju leyti ódýrara. Ég skal fúslega játa, að í þessu frv. felast breytingar, sem geta orðið æðimörgum foreldrum til léttis að því er bókakaupin snertir. En hinsvegar dylst mér eigi, að samkv. ákvæðum þess geta bókakaupin í einstökum tilfellum komið töluvert þyngra niður á foreldrum heldur en nú; það hlýtur að fara nokkuð eftir því, hvernig á stendur. Í frv. er gert ráð fyrir, að heimili, sem eiga börn á skólaskyldualdri, greiði 5 til 8 kr. á ári, svo lengi sem þar er nokkurt skólaskylt barn, að mér skilst. Nú getur staðið svo á, að þessi skólaskylda barna á sama heimili standi mjög mörg ár, og ef maður gerir ráð fyrir 8 kr. gjaldi á ári, getur þetta numið allhárri upphæð fyrir fátæka foreldra. Á það sérstaklega við um foreldra í sveit, því það er svo ennþá þar, að kaup á bókum handa börnum eru ekki sérstaklega tilfinnanleg. Börnin taka við bókunum hvert af öðru, eftir því sem hægt er, og enn er ekki heimtað jafnmikið af þeim eins og börnunum í kaupstöðunum. Nú vil ég benda á það, að hugsi maður sér heimili með fjórum börnum og að það elzta nái fyrst skólaskyldualdri árið 1937, þegar hugsað er, að þessi l. komi til framkvæmda, þá getur staðið svo á, að skólaskyldualdur þessara fjögurra barna sé ekki úti fyrr en árið 1952. Og geri maður ráð fyrir 8 kr. gjaldi á ári, yrðu þessir foreldrar búnir að greiða 128 kr. fyrir skólabækur. Ég vildi einmitt vekja athygli á þessu, áður en málið fer til n., því mér finnst ástæða til að taka það til athugunar, að þessi breyting verði þó ekki til að íþyngja einstökum foreldrum frá því, sem nú er; við það finnst mér, að tæplega væri unandi, þó segja megi með réttu, að frv. mundi í mörgum tilfellum verða foreldrum til léttis. Ég vil því beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi, hvort ekki er hægt að setja einhver þau ákvæði í frv., sem komi í veg fyrir, að þetta geti orðið svo dýrt fyrir einstaka foreldra sem ég hefi bent hér á.