23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

5. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Guðrún Lárusdóttir:

Ég sé ekki annað en það sé vel viðeigandi og í alla staði réttmætt, að prestastéttin hafi afskipti af þessum málum, þar sem þeir hafa betri aðstöðu til að kynnast heildinni heldur en nokkrir aðrir embættismenn. Hv. þm. S.-Þ. sagði, að skólar og kirkja færi hvort sína leið. Mér finnst, að skólar og kirkja ættu að eiga samleið, og þótt prestar séu yfirleitt ekki skólakennarar, þá eru það þeir, sem á vissu aldursskeiði barnanna hafa mest afskipti af þeim og nánust sambönd við heimilin, ef þeir rækja vel skyldur sínar, t. d. með húsvitjunum. Ég álít þess vegna alls ekki rétt að ganga framhjá prestastéttinni og allra sízt þar sem ég lít svo á, að þetta eigi sérstaklega að snerta barnafræðsluna. Ég álít, að hér sé um mjög þýðingarmikið atriði að ræða. — Fræðslan er undirstaða lífsins, og þess vegna ber að vanda til hennar eftir föngum.

Ég er ekki með þessari uppástungu minni um að blanda synodus í málið að kasta neinni rýrð á kennarastéttina, enda þótt hægt sé að segja, að kennarar séu ekki alltaf heppnir í vali um bækur, sem þeir gefa út, og getur það t. d. átt við um bók eina, sem nýlega er gefin út og heitir Dýrin tala. Hafa hv. þdm. sjálfsagt lesið þann ritdóm, sem Árni Friðriksson hefir skrifað um hana, og vita þá, hve vel það bókarval hefir tekizt. Ég er ekki heldur með þessum orðum að kasta rýrð á kennarastéttina, heldur aðeins að sýna það, að öllum getur mistekizt, og það er engin allsherjartrygging fyrir góðu bókavali, að kennarar einir fjalli um þetta mál, og ég held, að prestar gætu gert það fullt eins vel.