25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3135)

130. mál, símaleynd

*Sigurður Kristjánsson:

Ég sé, að hæstv. atvmrh. er staddur hér í d., og vil ég því nota tækifærið og skjóta máli mínu til hans. — Eins og hv. dm. er kunnugt, hefir komið hér upp mál, sem vakið hefir allmikla athygli, en það er misnotkun stjórnarvaldanna á símanum. Mál þetta var rætt hér síðastl. miðvikudag, og upp úr þeim umr. varð það ljóst, að símanotendur töldu þessa misnotkun símans mjög alvarlega. Nú er það svo, að á þinginu 1934 voru afgr. lög um eftirlit með opinberum rekstri, og þingið skipaði menn í þetta eftirlit, sem var skipt niður í flokka, og hver flokkur kallaður rekstrarráð. Ég varð svo fyrir því að vera skipaður í eitt þessara ráða, það ráðið, sem síminn heyrir undir. Rétt minn og skyldur gagnvert þessu eftirliti tel ég því vera samkv. fyrirmælum þessara laga. Í lögum þessum stendur: „Skal ráð hvert og hver einstakur ráðsmaður ávallt hafa rétt til að aðgæta reikningshald og skjöl öll, er stofnunina varða.“ Og ennfremur segir svo í þessum lögum: „Forstjórum stofnana þeirra, sem ræðir um í lögum þessum, skal skylt að leggja fyrir ráð það, sem stofnunin heyrir undir, öll mikilsvarðandi mál, sem starfræksluna varða.“ Nú er það upp komið, að ein þeirra stofnana, sem mér er fenginn réttur yfir samkv. lögum þessum, hefir lent í því, að af henni hefir verið krafizt hlutar, sem telja verður mikilsverðan. Á ég þar við, að póst- og símamálastjóri hefir verið krafinn upplýsinga um atriði, sem vafasamt er talið, að hann hafi haft heimild til að láta framkvæma. Og hann hefir alls ekki borið það undir hlutaðeigandi ráð, hvort hann ætti eða honum bæri að hlíta þeim úrskurði lögreglustjóra, að leyfa njósnir í gegnum símann. Ég tel, að það hafi verið bein skylda forstjórans að bera þetta undir „ráðið“.

Í tilefni af þessu hefi ég átt tal við póst- og símamálastjóra og farið þess á leit við hann að fá að sjá úrskurð þann, sem símanjósnirnar hafa verið byggðar á, en hann hefir synjað mér um það, og færði sér það til afsökunar, að hann hefði borið sig saman við dómsmrh. um þetta, og hann hefði ekki viljað leyfa, að úrskurðurinn væri sýndur. Annars tel ég, að það hafi verið skylda póst- og símamálastjóra að bera þetta mál allt, þegar á fyrsta stigi, undir ráðið. En úr því sem komið er, er ekki hægt að kippa því í lag, en hitt má lagfæra, að póst- og símamálastjóri verið við þeirri sjálfsögðu skyldu að leyfa okkur, sem skipum það ráð, sem yfir símann er sett, að sjá úrskurð þann, sem hann hefir nú beygt sig fyrir, og leyft, að hlerað væri á einkamál manna.