29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3152)

130. mál, símaleynd

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er fremur fátt, sem ég þarf að svara í ræðum þeirra hv. þm., sem hafa tekið til máls og andmælt því, sem ég hélt fram í minni ræðu. — Hv. þm. G.-K. hélt því fram, að ef farið væri að fylgja þeirri reglu að opna símann til hlustunar, þá mætti eins opna hvert einasta bréf í landinu. En þetta er hjá hv. þm. fullkomlega að fara fyrir ofan garð og neðan, vegna þess, að það, sem hér hefir gerzt, er aðeins það, að það hefir verið hlustað á tiltekinn grun, númerin vitanlega örfá, sem hefir verið hlustað á, og það er viðurkennt af öllum hv. þm., sem hafa talað í þessu máli, að það sé leyfilegt að kveða upp slíkan úrskurð, sem kveðinn hefir verið upp af lögreglustjóra. Hinsvegar hefir því verið haldið fram af hv. þm., að það sé ekki heimilt í því máli, sem hér er um að ræða, áfengismálinu, að nota þennan úrskurð. Með því erum við komnir inn á eitthvað til þess að halda okkur við.

Því var haldið fram af hv. 3. þm. Reykv., að lögreglustjóri hefði rétt til þess að opna símann samkv. úrskurði í nægilega stórum málum.

Þetta er alveg rétt og verður ekki vefengt. En það get ég viðurkennt, að í almenningsvitundinni hafa áfengisafbrotin aldrei verið talin stór brot. Þess vegna er það, að áfengislögin hafa í mörg undanfarin ár verið meira brotin heldur en flest önnur lög. En samt sem áður getur enginn dómari tekið tillit til þessa. Hann verður að framfylgja þeim lögum, sem þingið setur, og dæma eftir þeim. En það er dómarans að ákveða um það, og einskis annars, hvort lögreglustjóra hefir verið heimilt að beita þessu valdi í máli, sem svipuð refsing liggur við, ef brotið er. Ég hefi álitið, að honum væri þetta heimilt, og álít það, en ég veit ekkert um; hvort ég hefði notað þessa aðferð, ef ég hefði verið lögreglustjóri. Það getur vel verið, en ég álít tvímælalaust, að lögreglustjóri hafi haft rétt til þess að nota þessa aðferð. (PHalld: Verður þessu máli ekki áfrýjað til hæstaréttar?). Þessi hv. þm., sem tekur fram í, spurði um það, hvort ekki ætti að áfrýja þessu máli til hæstaréttar. Því hefir verið haldið fram, þar sem um stór áfengismál er að ræða, að þeim eigi að áfrýja. Og vitanlega eiga dómarar hæstaréttar alveg eins og í hverju öðru máli að skera úr um það, eins og oft hefir verið tekið fram, hvort undirréttardómarar hafi skilið lögin rétt eða ekki. En það, sem haldið er fram hér, er, að dómarinn í Reykjavík hafi dæmt móti betri vitund, og að hann sé nú að ofsækja andstæðinga sína með þessum úrskurði. Það er einmitt hæstaréttar að skera úr því, hvort þessi dómari hafi skilið lögin eins og hann átti að skilja þau.

Hinsvegar, þegar málið er komið inn á þann grundvöll, sem hv. þm. G.-K. ræddi það, með þeirri vanstillingu, sem greip hann, að það er varlega mælandi við þá þm., sem tala þannig, því að það er ekki hægt að neita því, að það gengur nokkuð langt, þegar hv. þm. heldur því fram, að hann geti vel trúað því, að tilteknir menn færu að taka upp á því að hringja og panta áfengi í sínu nafni. Ég hygg, að það sé þannig útbúið á símastöðinni, að það megi sjá, hvaða númer tali. A. m. k. eiga þeir menn, sem hafa eftirlit með stöðinni, alltaf að geta sagt um það. Það gengur því langt hjá hv. þm. (ÓTh), þegar hann er að beina því að mönnum, að þeir komist í sitt númer — í sitt eigið hús — til þess að panta vín í hans nafni. Þegar heilaspuninn kemst á svona hátt stig, þá er ekki hægt að tala við þessa menn. Á sama hátt var tal hv. 5. þm. Reykv.; hann sagði, að það væri almenn skoðun hér í bænum, að loftskeyti væru skoðuð, og meira að segja líka símskeytin, sem fara til og frá landinu. Ég sé, að hv. þm. kinkar kolli til samþykkis; hann segir, að almennt sé álitið, að það sé hlustað í símann yfirleitt. Það má alveg með sama rétti reyna að koma þeirri skoðun inn hjá fólkinu, að hvert einasta bréf, sem um bæinn fer, sé skoðað, og það gæti vel verið, að það mætti takast að fá fólkið til þess að trúa þessu, ef nógu dyggilega væri að því unnið að breiða þessi ósannindi út, enda er sagt, að ef eitthvað getur farið á tvo vegu, þá trúi fólkið ekki því, sem betra er. Ég verð bara að segja það, að ef löggjafarvaldið og þingið á að fara að hlaupa eftir því, sem hinum og þessum dettur í hug að segja í sambandi við svona mál, þá er nokkuð langt gengið. (PHalld: Vill hæstv. forsrh. neita því, að símskeyti séu skoðuð?). Ég neita því ákveðið, að það hafi nokkurn tíma komið til mála.

Þegar lögreglustjórinn skýrir frá því, að það hafi undir þessum kringumstæðum verið hlustað á símanúmer samkv. úrskurði til þess að koma þessum brotum upp, þá er dómaranum ekki trúað, og það er álitið, að hann fari með ósannindi. Til hvers er það yfirleitt fyrir þingið að fara eftir slíkum firrum eins og þessum, þegar taugaæsingurinn og fjarstæðurnar eru komnar út í þessa sálma? Ef ekki á að trúa dómaranum, sem á að sjálfsögðu að skera úr þessu, þá er hér komið út yfir öll takmörk, og þá er þýðingarlaust að nema staðar við þessi mál; þá má eins stíga næsta sporið, eins og hv. 5. þm. Reykv. gerði; hann heimtaði, að líka væri látið rannsaka, hvort búið væri að setja á almenna skeytaskoðun í landinu. Svo kemur næsta skrefið, hvort ekki sé komin á almenn bréfskoðun. Það mætti með jafnmiklum rétti hóa upp þeirri trú, að það ættu sér stað óeðlilegir hlutir hjá hinu eða þessu félagi í þessum bæ, sem miklu máli skipti, hvernig rekið er, og svo koma menn í þingið og segja: Við óskum eftir rannsóknarnefnd. —

Þetta mál er mjög óbrotið; rannsóknardómarinn hefir í þessu tilfelli látið hlusta á tiltekin símanúmer, til þess að upplýsa tiltekið mál; ríkisstj. hefir jafnframt látið fara fram undirbúningsrannsókn viðvíkjandi misnotkun loftskeyta. Það er það, sem gert hefir verið, og ef menn geta ekki sætt við það þær skýringar, þá eru þeir komnir út á þann hála ís, sem hv. 5. þm. Reykv. er byrjaður að renna eftir, því að hann heldur því fram, að það sé skoðun manna, að það sé almennt hlustað á símtöl í bænum og sennilega sé látin fram fara skeytaskoðun og svo koll af kolli, þannig að næst kemur almenn bréfaskoðun, og svo náttúrlega í fjórða lagi úrskurður um að leita í húsum. Lögreglan getur eins gert það eins og að úrskurða, að það skuli hlustað í tiltekin símanúmer, en hún fer svo að hlusta á önnur númer. Ef lögreglan úrskurðaði að fara í tiltekin hús og færi svo í önnur hús, þá væri það brot, og á sama hátt væri það brot af hennar hálfu, ef hún hlustaði á önnur númer en þau, sem henni er fengið vald til þess að hlusta á. Það er talað um, að þetta eigi ekki að verða rannsóknarnefnd nema í þeim skilningi, að hún eigi að upplýsa, að hve miklu leyti hafi verið hlustað. Hún á að kalla lögreglustjórann fyrir rétt, og getur það tekið talsverðan tíma frá lögreglustjóranum, ekki sízt ef þessi rannsókn yrði eins víðtæk og grunsemdir hv. 5. þm. Reykv. gefa tilefni til. Það er ekki hægt að neita því, að með slíkri rannsóknarnefnd væri verið að stíga það spor að setja dómsvaldið undir framkvæmdarvaldið.

Ég sé ekki ástæðu til að kýta um öllu fleiri atriði; ég skal aðeins benda á það, að hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það væri aðeins átt við loftskeyti milli skips og lands, þar sem talað væri um loftskeyti í reglugerðinni. (JakM: Lögunum sagði ég). Í lögunum er bæði talað um loftskeyti, sem send eru innan íslenzkrar landhelgi, og sömuleiðis loftskeyti, sem ekki eru sérstaklega send innan íslenzkrar landhelgi. Þessu getur hv. þm. flett upp í lögunum á bls. 662, og í samræmi við það er reglugerðin sett, því að annars færi hún bersýnilega út yfir takmörk laganna.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að það er óþarft að skipa þessa rannsóknarnefnd, vegna þess að það er æðri dómstóll, sem á að leggja úrskurð á verk lögreglustjóra, og það er sú bezta rannsókn, sem völ er á í þessu sambandi.