29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3160)

130. mál, símaleynd

*Sigurður Kristjánsson:

Hv. 1. landsk. hefir nú gengizt við vanskapnaði þeim, sem hæstv. forseti hélt upp til sýnis, og það verður sjálfsagt ekki hægt að véfengja, að króginn sé rétt feðraður. Ég ætla, að hann með ræðu sinni hafi sannað, að slíkur krypplingur er ekki líklegur til að vera getinn af öðrum en honum, slíkur vanskapnaður sem hans rök voru nú fyrir því, að það væri samkv. íslenzkum l. hægt að liggja á hleri í síma. Þetta er að sönnu ekki alveg nýtt. Hann hefir tuggið þetta upp eftir sjálfum sér; og hann taldi þetta sannað með því, að gera mætti húsrannsókn. Hann sagði, að þetta væri að sönnu hvergi heimilað í íslenzkum 1., og það eitt mælti hann rétt. En það er sú mesta hunda„logik“, sem hugsazt getur, að leggja að jöfnu húsrannsókn og símahlerun. Það er vitað, að þegar úrskurðuð er heimilisrannsókn, þá er það til þess að leita hjá ákveðnum manni eftir ákveðnum hlut. En þegar lagzt er á hleri í síma, þá er hlustað á alla þá menn, sem kunna að tala gegnum þetta símanúmer. Það er m. ö. o. hnuplað samtölum, án þess að vita, hver muni tala eða um hvað muni verða talað. Þetta virðist eiga að geta komizt inn í hvern einasta haus, hversu ferkantaður sem hann kann að vera; en þó er það svo um föðurinn að þessum óskapnaði, að inn í hans höfuð kemst ekki skilningsneisti.

Ýmislegt væri ástæða til að gera aths. við af því, sem ráðherrarnir hafa sagt, sérstaklega það, sem hæstv. atvmrh. sagði til hnekkis því að samþ. till. okkar um skipun rannsóknarnefndar. Hann sagði, að allt væri upplýst í þessu máli, það þyrfti enga nefnd. Stj. hefði sem sagt upplýst allt, — að hlustanir hefðu farið fram eftir úrskurði lögreglustjóra, og allt, sem till. talar um að rannsaka, væri stj. búin að upplýsa. En hæstv. ráðh. gleymdi bara einu: að menn trúa ekki ríkisstj., hún hefir glatað tiltrú sinni, bæði hjá Alþingi og borgurunum yfirleitt. Þeir gera sig ekki ánægða með það, sem ráðherrarnir segja, allra sízt þegar komið hafa fram alvarlegar missagnir frá hans hendi.

Hæstv. ráðh. var með sögu nokkra, sem mér er sagt, að hann segi nú við flestöll tækifæri. En nú kom hún nokkuð ömurlega við, og fór hann skakkt með hana í tilbót. Sagan byrjaði nú á því, að hann hefði aldrei fengið lánaðan pottinn, nefnilega ráðh. sjálfur, því að hann kvað símann aldrei hafa verið notaðan til hlerunar. En í öðru lagi hafi potturinn verið heill, þegar stj. fékk hann að láni: að mennirnir, sem hlustað var á, hafi verið afbrotamenn, og að það megi ekki hlusta á nema menn, sem sterklega eru grunaðir um afbrot. Í þriðja lagi var potturinn heill, þegar honum var skilað: að engum hafi verið mein gert, m. ö. o., að það hafi ekki verið sannað brot á nokkurn mann.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, sem hæstv. atvmrh. var hér að ræða um afbrot manna í sambandi við togara; hv. þm. G.-K. hefir gert því skil. Ég vil aðeins bæta því við, að það má ganga út frá því vísu, að þegar þessi hæstv. ráðh. blæs sig út, svo að hann ætlar að springa, þá er hann að blása frá sér þeim grun — þeim alvarlega grun —, sem stundum hvílir á honum og stj. hans um að fara ekki sem ráðvandlegast að í meðferð mála. Og um þennan grun er að ræðu í þessu tilfelli. Ég hygg, að hæstv. ráðh. sé kunnugt um það, að það er nokkuð almennt álit, að stj. hafi beitt mikilli hlutdrægni í þessari rannsókn. A. m. k. efast víst enginn úr mínu liði um það, að þessar hlustanir í höndum lögreglunnar og þessa ráðherra hafi stöðvað rannsóknina um íslenzku togarana, af því að við málið voru riðnir hans flokksmenn. Þessu hefir aldrei verið hnekkt, og staðreyndin er sú, að eftir öll svigurmælin um sekt íslenzkrar togaraútgerðar dettur allt í dúnalogn allt í einu.

Þetta er það, sem hv. þm. G.-K. var að spyrja um og hæstv. ráðh. á eftir að svara: Af hverju datt allt í dúnalogn? var það af því, að það fannst ekki, sem leitað var að, eða að það fannst, sem ekki var leitað að?

Út af því, að það er alltaf verið að mikla þessi brennivínssölumál og réttlæta þessa seinni hlustun með því, hvað almennur háski stafi af þeim, vil ég í fyrsta lagi undirstrika það, sem ég áður sagði, að það er ríkisstj., sem selur þetta áfengi, og það er varla hægt að líta á þessa áfengissala hér nú orðið, sem selja eingöngu frá ríkisverzluninni, öðruvísi en sem umboðssala ríkisstj.

Þeir eru ekkert annað. Og það trúir enginn lifandi maður á vandlætingar stj. út af þessu máli. Almenningur lítur svo á, að stj. fái hér yfirskinsástæðu til að geta látið misnota símann, og í öðru lagi að gremjan við bifreiðarstjórana frá í vetur út af því að vilja ekki kyngja benzínhækkun stjórnarinnar alveg þegjandi hafi alltaf soðið í þeirra æðum og beinum, og sé því þessi herferð hafin til þess að reyna að setja einhvern sérstakan blett á þá í þessu vínsölumáli, — sé hefndarpólitík stj. gagnvart þessum mönnum. (Raddir: Heyr!). Ég hefi enga ástæðu til að neita því, að þetta er mín skoðun einnig.

Því hefir óspart verið haldið fram, að rannsókn þessa máls væri óþörf, ef úrskurðir fengjust birtir. En því fer fjarri. Það er sjálfsögð og réttmæt krafa, sem ég og fleiri höfum gert, að úrskurðir verði birtir; og alveg sérstakt gildi hefir sú krafa frá minni hálfu, að fá að sjá þá, því að þeir eru orðnir eignarskjal þeirrar stofnunar, sem mér með l. er heimilað að sjá öll skjöl hjá. En það tek ég ákveðið fram, að ég álít engan veginn fullnægt með birtingu úrskurðanna, heldur sé rannsóknar fullkomin þörf. Því að ég meina a. m. k. það með flutningi þessarar till., að það þurfi að rannsaka miklu meira heldur en þessa tvo úrskurði, sem við hefir verið gengizt. Það er minn grunur eins og margra annara, að síminn hafi verið misnotaður miklu meira en þetta. Og það vil ég fá upplýst með því að skipa þessa rannsóknarnefnd. Ég er sannfærður um, að það verður álit alls almennings í landinu, að ef stj. lætur vísa till. frá, svo sem nú er stofnað til, þá sé það af því, að hún þori ekki að láta skoða ofan í pokann hjá sér.