05.05.1936
Neðri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

5. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson):

Herra forseti! Ég hefi ekki átt kost á að vera hér við fyrri umr. þessa máls og því ekki getað sagt neitt um þetta frv., sem fyrir liggur. En ég hefi ásamt hv. 11. landsk. leyft mér að bera fram brtt. við frv. á þskj. 480 og skal halda mig aðallega við að ræða um þær. Þær fara fram á það í fyrsta lagi, að fella niður síðustu setninguna í 1. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að í skrá þeirri, sem ráðh. gefur út um námsbækur, að fengnum till. fræðslumálastjóra, skuli greina, hverjar kröfur skuli gera um efni og efnismeðferð hverrar bókar. Mér finnst það ekki eiga við að setja fyrirmæli um slíkt, því það verður að vera á valdi þeirra, sem bækurnar semja og leggja handrit fyrir n. til þess að velja úr. Það er ekki svo gott að segja fyrir um það, hver efnismeðferð er hentugust fyrir slíkar bækur, sem hér er um að ræða. Til skýringar á þessu atriði skal ég leyfa mér að segja frá því, sem ég nýlega las í ensku blaði, þar sem bókaforleggjari einn segir frá nokkrum endurminningum í sínu útgáfustarfi. Einu sinni kom til hans heldur óálitleg eldri kona með ósköp óálitlegt handrit og afhenti honum það og sagði: „Viljið þér gefa þetta út?“ Hann athugaði þetta handrit í tómi og lét kunnáttumann fara yfir það. Niðurstaðan varð sú, að þetta handrit tók hann til útgáfu þó það væri útlitsljótt og höfundurinn óálitlegur. En þegar bókin kom út, vildi svo til, að maður, sem hafði með fræðslumál fyrir London að gera, sá þessa bók á sýningu, sem haldin var á skólabókum, og honum leizt svo vel á hana, að hún var tekin til allra skóla í London. Og þessi óálitlega kona kom til með að hafa svo mikið upp úr samningu þessarar óálitlegu bókar, að hún gat nú hætt að kenna, því að hún fékk svo álitlega fjárupphæð fyrir þessa bók sína. Ég er viss um, að svona lagað kemur ekki fyrir, þegar n. manna fer að fjalla um þessi mál og segja til um, hvernig þeim skuli hagað. — 2. brtt. fer fram á, að orðalagi 2. gr. verði breytt þar, sem talað er um að dreifa bókunum út á meðal allra skólaskyldra barna í landinu. Það er áreiðanlegt, að þessi aðferð mun reynast dýr, og hún mun stefna í þá átt að gera þetta dýrara fyrir þjóðfélagið og auka eyðslu fyrir það, og það svo freklega, að allar líkur eru til, að þetta fái ekki staðizt lengi. Mér virðist þarna verið að hvetja til óþarfa eyðslu, sem ekki á að eiga sér stað, hvorki í þessu efni né öðru. Mér virðist orðalagið á 2. gr. vera þannig, að það lítur út fyrir, að tilgangurinn sé að sóa sem mestu og að þar séu engin takmörk sett. Það var af þessum ástæðum, að ég bar fram þessa brtt. Mér þykir hóflegra orðalag það, sem hún gerir ráð fyrir, og það orðalag gefur að minnsta kosti ekki til kynna, að ætlazt sé til, að þessu verði sóað stjórnlaust og umfram allar þarfir. — 3. brtt. fer fram á að við 4. gr. bætist, að prentsmiðjustjóri ríkisprentsmiðjunnar skuli hafa þóknun fyrir sitt starf sem forstöðumaður þessa fyrirtækis og skal ráðh. ákveða, hvað há hún á að vera. Mér þykir rétt, að þetta komi fram vegna þess, að ef ríkisprentsmiðjustjóranum er ekki ætluð sérstök þóknun fyrir þetta, þá er það til þess fallið að fela einn kostnaðarliðinn, og það gæti með tímanum réttlætt þessa útgáfustarfsemi. Nú er talað um í frv., að tilgangurinn eigi að vera sá, að gera þetta kostnaðarminna fyrir ríkið. En mér finnst það þurfa að koma ljóslega fram, hver kostnaðurinn er, og ekki megi fela neinn kostnaðarliðinn undir öðrum ríkisstofnunum. Því fer vel á því, að það komi hér fram, að þóknun er nauðsynleg fyrir þetta framkvæmdarstjórastarf, og þá ættu að vera ákvæði í l. um, að ráðh. ákvæði þóknunina. — Næsta brtt. er við 7. gr. Hún er dálítið veruleg breyt. frá tilgangi frv. Í 7. gr. segir: „Til þess að standast kostnaðinn við útgáfu námsbóka þeirra, sem út eru gefnar samkvæmt þessum l., lætur ríkisstjórnin innheimta námsbókagjald af hverju heimili, þar sem er skólaskylt barn, eitt eða fleiri. Námsbókagjaldið skal nema 3–8 kr. á heimili og innheimtast á manntalsþingum samkvæmt skrám, er sveitar- eða bæjarstjórnir semja fyrir lok janúarmánaðar ár hvert og lagðar eru fram samtímis skattskrám.“ Ég vil benda á, að mér þykir þetta þunglamalegt fyrirkomulag, og þetta verður til þess, að stjórnarvöldin þurfa að láta gera eina skrána ennþá til þess að afhenda innheimtumönnum ríkisins til þess að innheimta eftir. Það fer hraðvaxandi þetta skráafargan, sem nauðsynlegt er til þess, að hægt sé að framkvæma ýms lagaákvæði. Hér er rétt ein slík á ferðinni, og hún felur í sér svo verulegan kostnaðarauka fyrir þetta fyrirtæki, að það væri gott að geta fellt það niður, ef önnur lausn fyndist á þessu máli, sem væri hentugri. Nú er það líka ranglátt, sýnist mér, að láta aðra borga námsbókagjald heldur en þau heimili, sem einhverja námsbók hafa fengið á því ári. Mér finnst sanngjarnt, að menn geti sloppið við gjaldið, ef farið er svo vel með bækurnar á einu heimili, að bækurnar endist þar betur. Það hvetur líka til betri meðferðar á þessum hlutum, og mér finnst full ástæða til að brýna það fyrir mönnum. Því ef engin takmörk verða sett, hvað mikið heimta má af þessum ókeypis námsbókum, sem kallaðar eru, þá þykir mér líklegt, að eyðslan verði svo ógurleg, að það komi fljótt í ljós, að það verði að leggja þetta niður. Mér þykir hæfileg lausn á því máli, að skólanefnd fyrir tilstuðlan skólastjóra eða kennara geri skýrslu um, hverjir hafi fengið námsbækur, og þeir séu svo látnir greiða námsbókagjald, en hinir ekki, sem fyrir góða meðferð bókanna eða aðra sparneytni komist hjá því að gjalda námsbókagjaldið það árið. Ég sé ekki betur en að þetta sé sanngjarnara heldur en að öll heimili, sem börn hafa, borgi, hvort sem þau hafa fengið nokkra bók eða ekki. Þetta virðist vera ósköp einfalt, en að vísu viðbót við störf skólastjóra og skólanefnda, en þó ekki óhæfilegt. — 5. brtt. er um það, að 9. gr. falli niður, en hún segir, að ekki megi án heimildar ráðh. selja þessar bækur, sem gefnar eru, og eru við lagðar 10–100 kr. sektir fyrir að selja þær. Ég skil ekki, hvers vegna þarf að hafa þetta í l. Það er auðsætt, að ef nógur forði er allsstaðar fyrirliggjandi af þessum bókum, kemur ekki til, að þær verði seldar. Og ég sé satt að segja ekki, að það þurfi að varða sektum, þó að einhver afhendi afnotaréttinn á bók til annars, ef svo stendur á, að það er þægilegra einhverra hluta vegna. Ég sé ekki betur en það megi láta alveg frjálst. Ég fæ ekki betur séð en að þarna sé hugsunarvilla, sem gerir það að verkum, að 9. gr. er eins og hún er orðuð í frv. Það virðist svo sem þetta sé önnur ráðstöfun til þess að tryggja, að enginn fari vel með bækurnar. Ég get ekki betur séð en að þetta ákvæði sé í alla staði þarflaust. — 6. brtt. er við 10. gr., samskonar og við 2. gr., um að þar sem talað er um að dreifa bókunum út, þar komi að afhenda bækurnar. Mér finnst þetta viðkunnanlegra orðalag í lagamáli, og það er í samræmi við breyt. á 2. gr. — 7. brtt. er við 15. gr., um að síðasti málsliðurinn falli niður, þar sem talað er um bann 9. gr., en hann þarf að falla niður, ef 9. gr. verður felld niður.

Þetta eru þær brtt., sem við höfum leyft okkur að gera við frv. Ég verð að líta svo á, að þær séu allar til bóta, og vona, að hv. þm. fallist á það með mér. Ég tel ekki þörf á að ræða mikið um principatriði þessa máls. Mönnum er ljóst, hvert stefnir með þessu, og að það er margt við það að athuga frá ýmsum sjónarmiðum. Ég vil sérstaklega benda á eitt sjónarmið núna. Það er það, að þetta er beinlínis ráð til þess að stuðla að óhæfilegri eyðslu fyrir þjóðfélagið á þessu sviði. Og ef eyðsla og fyrirhyggjuleysi viðgengst á einu sviði og það er stuðlað að því á allan hátt að útbreiða það af ríkisvaldinu, þá er hætt við, að það breiðist óðum út á fleiri sviðum þjóðfélagsins. Annars skal ég bæta því við, að mér sýnist ekki á ýmsu, sem fram hefir komið upp á síðkastið, að ríkisútgáfan sé nein lausn á þessu máli; það er langt frá því. Fyrir tilviljun rakst ég nýlega á skrá yfir bækur, sem útvarpsskrifstofan hefir gefið út; það eru kennslubækur í málum, íslenzku, dönsku, ensku og þýzku. Maður skyldi nú halda, að hér væri um að ræða stóran markað fyrir þessar kennslubækur, og ég tel víst, að svo sé, en verðið á þessum bókum er svo hátt, að ég tel ekki neinn sóma í því fyrir ríkið hvað þessa útgáfustarfsemi snertir. Það er sízt lægra verð heldur en mundi vera og almennt er hjá einstökum útgefendum. En þetta er það, sem þeir menn, sem nú fara með völdin í þessu landi, vilja knýja í gegn, og við því er ekkert annað að segja heldur en að hlíta því, sem meiri hl. Alþingis vill, jafnvel þó það sé þvert ofan í staðreyndir og alla reynslu. Við því er ekki hægt að gera annað en að benda á agnúana á þessu og hvað betur má fara. Það er náttúrlega ekkert annað en blekking í sjálfu sér að leggja í sambandi við þetta frv. á sérstakan skatt. Ég sé ekki, að ríkið þurfi að leggja sérstakan skatt á, þó að það vilji fara að gefa allar námsbækur. En það virðist vaka fyrir þeim, sem að þessu standa, að tollarnir séu nú orðnir svo háir, að ekki verði lengur unað við að hækka þá almennt, heldur verði að bæta við svona smásköttum, sem eigi að koma til uppbótar hinum almennu sköttum. Ég þykist vita, að þetta sé aðeins byrjun á nýrri skattaálagningu ofan á þá, sem fyrir eru. Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar að sinni.