08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (3311)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Sigurður Kristjánsson:

Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, vil ég segja það, að mér þykir það merkilegt og bera vott um veikleika hjá þeim aðilja, að hann sagði ekkert orð um það, hvers vegna Framsfl. væri andvígur bandalagsflokki sínum í þessu máli. Hæstv. atvmrh., sem stendur mjög höllum fæti og ekki hefir orðið sniðugur í vörninni — enda var naumast hægt að gera kröfu til þess —, hefir þó bent á, að það hefði leitt til samvinnuslita, ef Alþfl. hefði leyft sér að segja upp þessum samningi, sem hann kallaði landráðasamning. En hæstv. fjmrh. segir ekkert um, hvers vegna Framsfl. heldur svo fast við fyrri afstöðu sína til þessa máls, enda þótt það sé af öllum vitað og viðurkennt, að aðstaða okkar Íslendinga er orðin allt önnur nú en hún var þegar samið var. Hæstv. fjmrh. nefnir engar ástæður fyrir því, að Framsfl. leggur slíkt kapp í þetta mál. Hvort er það af því að Framsfl., sem hefir legið undir í flestum málum, finni nokkra hugsvölun í því að geta þó í þessu máli haldið bandalagsflokki sínum niðri í sínum eigin saur, þannig að Alþfl. og forustumenn hans verði virkir í því, sem þeir sjálfir hafa kallað landráð?

Ræða hæstv. fjmrh. var að öllu leyti ófullnægjandi. Hún sýndi, að Framsfl. hefir nú tekið þessu kverkataki á sambandsflokki sínum — í þessu máli. Það er ekki undarlegt, þótt ég óski eftir upplýsingum um þetta mál. Ég var þegar í öndverðu á móti samningnum og hafði von um, að nú mundi ég fá tækifæri til að greiða atkv. gegn honum; en ég hefi nú verið sviptur þessu tækifæri af stjórninni, og að mér þykir líklegt fyrir atbeina hæstv. atvmrh., eða hann hefir orðið sérstaklega undir í þessu máli.

Hæstv. atvmrh. var að vísa mér á ummæli Jóns Þorlákssonar um þetta mál og vildi með því geta skotið sér undan að svara því, hvort hann sjálfur hefði í rauninni nokkuð meint með þeim stóryrðum, sem hann hafði um þetta mál hér á þingi. Ég get sagt það hæstv. ráðh. til hróss, að hann vísaði mér þar á miklu merkari mann heldur en nokkurn þann, sem er í stjórnarflokkunum. En ég man vel, hvað hann sagði. Hann sagði ekki eitt einasta orð, sem minnir á það, sem Alþfl.menn létu sér um munn fara. Hann talaði þinglega og kurteislega um málið og algerlega laust við þá illkvittni og þann hákshátt, sem einkennir Alþfl. Hann fann að því, að með samningnum væri blandað saman tollmálum og því, sem þeim væri óviðkomandi, sem sé þeim réttindum, sem veitt voru um veiðar hér við land. En þær aðfinnslur voru óviðkomandi þeim aðdróttunum um landráð og mútu og annað þess háttar, sem valdamenn Alþfl. notuðu óspart.

Það er svo að mér skilst, að hæstv. atvmrh. vill skjóta sér undan að svara þessu afdráttarlaust. Hitt, sem hann sagði til þeirra manna, sem eru honum andstæðir, að hann teldi sér meiri feng að fá last þeirra en lof — hann sagði þetta ákaflega breitt —, það er þess eðlis, að mér þykir rétt að leiða athygli hans að því, að þar sem svo er hugsað, er venjulega talið, að nokkuð sé áfátt um siðfágun og siðferðislegan þroska og að þeir menn, sem þannig hugsa, skeyti hvorki um skömm né heiður. Ég vil nú spyrja hæstv. atvmrh. að því, hvort hann telji, að það sæmi stöðu sinni.