26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

19. mál, eyðing svartbaks

*Sigurður Kristjánsson:

Hv. 8. landsk. ræddi mest um 1. brtt. n. Ég get verið sammála hv. n., að leiðinlegt er að útrýma þessum fugli með eitri, ef það væri unnt á annan hátt. En ég hygg, að þessi aðferð kæmi helzt að notum, ef hafa á eitthvað upp úr þessu frv. Vel má vera, að verðlaunin séu of lág. Ég held, að á því geti enginn vafi leikið, að þó örfáir menn njóti gagns af svartbaksvarpi þá er það ekkert á móts við það tjón, sem víst er, að hann gerir á ýmsum stöðum í æðarfuglavarpi, auk þess sem hann leggst á unglömb og aðra sér minni máttar fugl, og dýr. En þó sannarlega sé nauðsyn að útrýma honum, þá vildi ég heldur, að gerð yrði tilraun til þess með hærri verðlaunum fyrir skot og séð, hvernig tækist, áður en horfið yrði að eitruninni. Náttúrlega nær það alls engri átt að ganga eins langt og hv. allshn. gerir því það er satt, sem einn hv. þm. sagði, að með því er verið að friða svartbakinn, eða sama sem friða, þegar bannað er að eitra og bannað er að skjóta hann um varptímann. Það er alveg satt, að þetta er að friða hann að mestu leyti í framkvæmdinni, eða líklega öllu. Ef því þetta er gert af mannlund, eða réttara sagt af ímyndaðri mannlund, sem sé að þeim finnst hart að myrða dýr, sem eru að ala upp afkvæmi sín, þá vil ég benda hv. allshn. á, að hún hefði átt að hugleiða það, sem hv. frsm. falaði um, að einn svartbakur myndi drepa eða gæti drepið 2000 æðarfuglaunga á einu vori eða um varptímann. Mér finnst það vera misskilin ást á svartbaknum að ætla að friða hans líf, til þess að einn svartbakur geti haft ráðrúm til að myrða eitthvað um tvö þúsund önnur dýr. En ég er ekki svo harðbrjósta, að ég gangi inn á að útrýma þessum fugli með eitri, ef ekki er álitið hægt að útrýma honum með skotum. Þess vegna vil ég ekki fylgja till. hv. þm. Mýr. og 9. landsk., sem mér virðast hafa svartbakinn óeðlilega mikið. Það er rétt eins og þetta væri keppinautur, þegar þeir eru að tala um þetta veslings dýr.

Ég vil sem sagt losna við svartbakinn, en á sem mannúðlegastan máta. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að bera hér fram skrifl. brtt. við fyrstu brtt. allshn., á þá leið, að liðurinn orðist sem hér segir: „Aftan við l. gr. bætist: Þó er bannað að eyða honum með eitri“. Þar með er fellt burt úr brtt. að banna að eyða svartbaknum um varptímann.