15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

18. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Út af því, sem hv. l. þm. Skagf. minntist á, að ekki hefðu allir verið sammála um útsvarsl. fyrir 1926, vildi ég minna á að ekki voru heldur allir ánægðir með þær breyt., sem þá voru gerðar. — Það kann að vera svo, að fram að 1926 hafi verið fulllangt gengið um að elta menn uppi með útsvarsálagningu víðar en í heimilissveit, en heimild hafði verið fyrir því veitt af þinginu, og þar af leiðandi er sýnt, að þingvilji lá fyrir. Það varð ofan á á þingi 1926 fyrir forgöngu hv. 1. þm. Skagf., sem þá var ráðh. og hafði með þessi mál að gera, að sett voru ný útsvarslög, er ákváðu, að heimilissveit ein skyldi hafa rétt til útsvarsálagningar, nema ef stundaður væri atvinnurekstur annarsstaðar. En þess í stað var svo ákveðið og til ætlazt, að atvinnusveitin fengi hluta af útsvarinu eftir reglum, sem þar um voru settar. Hygg ég, að þetta ákvæði hafi orðið pappírsgagn, sem ekkert er farið eftir, og held ég, að innheimtan gangi mjög erfiðleg, fyrir atvinnusveitinni og sé tæpleg möguleg. En það var einmitt þetta ákvæði, sem átti að réttlæta breyt., sem gerð var 1926, þegar skertur var réttur atvinnusveitarinnar. Nú, þegar kunnugt er orðið, að ákvæði þetta kemur ekki að notum, eða hefir ekki reynzt í framkvæmdinni eins og til er ætlazt, þá er ekki nema eðlilegt og réttmætt, að fram komi till. til að rétta við aftur réttindi atvinnusveitar. Þó að skammt sé gengið í brtt. hv. þm. Dal., er hún þó spor í rétta átt. Það er vitanlegt, að víða stendur svo á, að fólk leitar atvinnu um stuttan tíma árs. Ég get nefnt t. d. Siglufjörð um síldveiðitímann, og svo er um fleiri staði. Er vitanlegt, að þegar svo stendur á um bæi og kauptún, að þeir hafa ýmsan kostnað af, vegna þessa aðstreymis fólksins, er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir fái gjöld frá þessu fólki. Þetta átti líka að verða svo samkv. áðurnefndu ákvæði í útsvarsl., en það hefir orðið þýðingarlaus bókstafur. Ég vildi því segja það, sem ég hefi tekið fram í sambandi við annað mál, að ég tel brýnustu þörf á að athuga útsvarsl. bráðlega, helzt fyrir mesta þing, og þá verði athugað rækilega, hvernig verði komið fyrir útsvarsálagningunni, svo að réttlátt sé milli atvinnu- og heimilissveitar. Þrátt fyrir það þótt ég telji þörf þessarar endurskoðunar, þá mun ég, þar sem ég tel brtt. hv. þm. Dal. vera til bóta, og þar sem ég veit ekki, hvað úr endurskoðun þessarar löggjafar kann að verða greiða henni atkv. mitt.