04.04.1936
Efri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

93. mál, Menningarsjóður

Bernharð Stefánsson:

Eins og hér hefir verið getið, var mál þetta borið undir fjvn., og af því að annar hv. dm., sem á sæti í þeirri n., hefir látið uppi álit sitt, þykir mér hlýða að gera grein fyrir minni afstöðu, og skal ég jafnframt í upphafi geta þess, að ég er í þeim hl. fjvn. sem mælir með því, að frv. þetta verði samþ.

Eins og menn muna, gekk í gildi fyrir rúmu ári síðan, eða 1. febr. 1935, áfengislagabreyt. sú, er leyfði sölu sterkra drykkja auk Spánarvína. Afleiðingin af þeirri löggjöf hefir orðið sú, að töluvert meiri sala fer fram á löglegum vínum en áður var, þannig að ríkissjóður fær töluvert meiri tekjur af vínsölunni en áður. Hinsvegar er það vitanlegt öllum, sem ekki eru haldnir fyrirfram öfgum í þessum málum, að drykkjuskapur hefir þó ekki aukizt, og sízt í hlutfalli við aukningu hinnar löglegu áfengissölu. Ríkissjóður hefir því grætt á áfengislagabreytingunni og ástandið batnað, a. m. k. siðferðislega, því skárra er þó að drekka löglegt áfengi en ólöglegt. (MG: Hafa bruggarar grætt?). Þó bruggararnir hafi ekki grætt, þá eru allir sammála um, að þeir hafa ekki rétt á sér. Málið liggur því þannig fyrir, að ríkissjóður hefir fengið töluvert auknar tekjur vegna þessarar breyt. á löggjöfinni. En menningarsjóður, sem lifði á sektum smyglara og bruggara, hefir tapað.

Menningarsjóður var settur á stofn til að styrkja vísindi og listir í landinu, af því að það þótti nauðsynlegt. Tekjum var honum séð fyrir á þann hátt, að til hans skyldu renna tekjur ríkissjóðs af ólöglegu áfengi. Vitanlega var ekki borgaður tollur í ríkissjóð af smygluðu eða brugguðu áfengi, og tekjurnar voru því sektir þær, er greiddust, þegar þessir lögbrjótar voru nappaðir. Nú hefir önnur þessi „atvinnugrein,“ bruggið, lagzt algerlega niður, eða sama sem alveg, og smyglið hefir stórlega minnkað, og hafa því tekjur menningarsjóðs þorrið. Virðist því ekki ósanngjarnt, úr því sjóðurinn hafði þessar tekjur, að hann fái nú tekjur af hinni löglegu áfengisverzlun ríkisins, þar sem með skynsamlegum áfengislögum hefir reynzt auðið að útrýma svo að segja alveg ólöglegu áfengi, en tekjur ríkissjóðs jafnframt stórvaxið af áfengissölunni. Mér finnst þetta því hið mesta sanngirnismál. — Þess gerist ekki þörf að taka undir rök hv. frsm. menntmn., en ef menn ætlast til þess, að menn hér leggi fyrir sig vísindastörf eða listir, þá getur það engan veginn orðið, nema möguleikar séu á því að styrkja þá úr opinberum sjóði, enda held ég, að um það sé enginn ágreiningur milli hv. þdm., heldur um hitt, sem hv. þm. Dal. vildi halda fram, að réttara væri, að þingið ráðstafaði þessu fé, en setti ekki einstaka menn til að annast úthlutun þess.

Þarna hefi ég algerlega gagnstæða skoðun. Ég held, þegar um persónustyrki er að ræða, að heppilegra sé, að um það fjalli n. manna, en þingið sé ekki að vasast í því. Ég veit ekki heldur hvaða aðstöðu hv. þm., sem eru nú orðnir 49, ættu að hafa til að meta, hvort kaupa skyldi einstakt málverk af einhverjum málaranum eða ekki.

Vel kann að vera, að í einstöku tilfellum hafi orðið handahóf um meðferð þessa fjár, en þrátt fyrir það, þó svo kunni að vera, þá er ég sannfærður um, án þess að ég vilji gera lítið úr hæstv. Alþingi, að á þessu yrði enn meira handahóf hjá því, vegna þess að hv. þm. hafa ekki aðstöðu til að gera upp á milli listamannanna.

Ég er svo þvert á móti skoðun hv. þm. Dal., að ég tel, að svo ætti að koma fyrir þessum málum, að Alþingi veitti enga persónustyrki, heldur sérstakar n. eða stofnanir. Er svo margt persónulegt, sem kemur til greina, þegar Alþingi úthlutar slíkum styrkjum, og þó að það geti vitanlega orðið í böndum n. er hættan miklu minni.

Svo ber á það að líta, að menningarsjóður er til, og hefir engin till. komið fram um að leggja hann niður; slík till. hefir ekki heldur komið frá hv. þm. Dal., en með því fyrirkomulagi, sem nú er, þá er menningarsjóður sýnilega máttlaus. Ef hann á annað borð á að lifa og inna sitt hlutverk af hendi, þá verður að sjá honum fyrir tekjum. Eins og ég hefi tekið fram, þá finnst mér sanngjarnt, að hann fái örlítið brot af tekjum þeim, sem fást af löglegri sölu sterkra áfengra drykkja, þar sem hann áður hafði allar þær tekjur, sem hið opinbera hafði af þeim drykkjum, á meðan þeir voru ólöglegir, en þó hafðir um hönd, sennilega alveg eins mikið og nú er gert.