09.03.1937
Neðri deild: 17. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Dálítill misskilningur hefir komið fram hjá þeim hv. þm., sem gert hafa aths. við frumv., að það sé verið að minnka það fé, sem nú er fyrir höndum til bygginga í sveitum. (HannJ: Lánsfé). Já, lánsfé, — en þessar 50 þús. kr. fari ekki til bygginganna. Og þessar 50 þús. kr. séu bara fé, sem eigi að lána fram sem styrk. En hitt er margtekið fram, að það er hlutur, sem liggur fyrir til yfirvegunar hjá þeim, sem stjórna Búnaðarbankanum, hvernig hægt er að auka veitingu fjár í þessu skyni, svo byggingar þurfi ekki að hætta af þessum sökum. Það kemur þessu frv. ekki við. Það er hægt að auka byggingar með því að útvega sérstök lán, sem ég veit, að er hugsað um af þeim, sem stjórna bankanum.

Ég ætla ekki að útskýra 4. gr. fyrir hv. þm. Það er búið að ræða allmikið um málið, og ég býst við, að það vaki alveg það sama fyrir okkur, sem ákváðum 4. gr., og vakað hefir fyrir þessum hv. þm., sem hefir borið fram alveg samskonar ákvæði þing eftir þing. Annars er það hlutur, sem getur komið til mála, að haga löggjöfinni þannig, að hægt sé fyrir menn að losna við þessa kvöð með því að endurgreiða styrkinn.

Ég lofa því, að þetta verði rætt í n., þó að ég geti engu lofað fyrir n. hönd.