17.04.1937
Neðri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég sé á þessu frv., sem hér liggur fyrir, að hv. landbn. hefir reynt að vanda frágang þess og gera það svo úr garði, að það gæti komið að tilætluðum notum. Sú n., sem hafði málið áður til meðferðar, hefir vafalaust líka gert sitt bezta til þess, að þessar ráðstafanir mættu koma að notum.

Ég þarf ekki að fjölyrða um það, hvílíkur vágestur þessi sýki er. Það er orðið svo þjóðkunnugt, að ég sleppi alveg að fara út í þá sálma. Hinsvegar er af hálfu löggjafarvaldsins brýn nauðsyn til, að ráðstafanir séu gerðar, sem menn frekast koma auga á til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veikinnar. Og þó það hljóti að vera ærið tilfinnanlegt og kostnaðarsamt fyrir ríkið og einstaklinga, þá dugir ekki að horfa í það, ef aðeins er hægt að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veikinnar. Það er höfuðatriði þessa máls, og mín skoðun er sú á þessu máli, að það verði að reyna að taka það þeim tökum, að fyrst og fremst sé algerlega komið í veg fyrir frekari útbreiðslu veikinnar, og það þýðir ekki annað en hafa það markmið í þessu máli, að skipta alveg um fjárstofn á þeim svæðum, sem veikin er útbreidd á eða hefir gert vart við sig. Með mínum leikmannsaugum get ég ekki betur séð en að veikinni sé þannig háttað, að hún verði alls ekki læknuð og það verði um þrotlausa baráttu að ræða með öðru móti en því, að koma í veg fyrir útbreiðslu hennar og skipta svo um fjárstofn á sýktu svæðunum. Þess vegna er það, sem fyrir mönnum vakir með þessum ráðstöfunum, að reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu eftir ýtrustu getu.

Ég er sammála þessum till., eftir þeirri þekkingu, sem ég hefi á staðháttum, í höfuðatriðum. En þó hygg ég, að ekki hafi verið nógu vel athugað um einstök atriði í þessu máli, og ætla ég að víkja lítið eitt að því, eftir þeim kunnleikum, sem ég hefi, og þá fyrst og fremst þeim atriðum, sem snerta mitt hérað.

Ég sé, að gert er ráð fyrir í þessum till. að girða milli afrétta Borgfirðinga og Húnvetninga. Eftir því, sem mér hefir verið tjáð, er þessi veiki mjög útbreidd í Vestur-Húnavatnssýslu og um Borgarfjörð á stórum svæðum. Mér er því ekki alveg ljóst, hvað girðingu milli þeirra héraða er ætlað að vinna. Beggja megin við girðinguna eru sýkt svæði og veikin það mikið útbreidd, að ég hygg, eftir því, sem ég hefi haft spurnir af, að það verði mjög torvelt að gæta þess, að nokkrar sveitir eða jafnvel nokkrir bæir verði verndaðir á þessum svæðum beggja megin við girðinguna. Þessi girðing hlýtur að kosta ákaflega mikla fjármuni, og mér virðist sem það muni vera nokkuð hæpið, hvort hún kemur að nokkrum notum til varnar útbreiðslu veikinnar. Hv. landbn. hefir kannske eitthvað sérstakt í huga frekar en maður getur séð á frv., svo ég ætla ekki að fara frekar út í þetta atriði. Það má vera, að hún hafi það góðar ástæður, að þetta sé vel réttlætanlegt. Og eins og ég sagði áður, þá álít ég allt réttlætanlegt, sem miðar að því að hefta útbreiðslu veikinnar, svo framarlega sem þær varnir svara tilkostnaði, miðað við það verðmæti, sem vernda á. Ég álít þetta fullkomlega réttlætanlegt, ef þessi skilyrði eru til staðar.

Í till. er gert ráð fyrir að hafa aðeins verði milli Langjökuls og Hofsjökuls. Nú er veikin komin í Austur-Húnavatnssýslu, svo það er meira en lítið hæpið, hvort heppnast megi að vernda það hérað fyrir frekari útbreiðslu, enda kann veikin að vera komin víðar en kunnugt er enn. Ég ætla, að austan Brúarár í Árnessýslu sé fé alveg heilbrigt. Nú hagar svo til, að Biskupstungnamenn innan Hvítár og þeirra fé og einnig fé úr Hreppum gengur norður á afrétti Húnvetninga. Um Grímsnes og Laugardal er það að segja, að þar eru sýkt svæði, og maður gengur út frá því sem gefnu, eins og þessar till. benda til, að setja girðingu milli Biskupstungna og Grímsness. Vötn verða látin ráða þar, sem þau nægja, en annars sett girðing. Ég er sannfærður um, að þetta ráð verður tekið upp, og í þessum till. er að því vikið, að horfið sé að þessu ráði, og það er líka rétt.

Um gæzluna milli jökla er það að segja, að verðir geta ekki nægt. Það er ekki aðeins, að það sé langt svæði milli jöklanna, heldur hagar þannig til, að á því svæði milli jöklanna, sem heppilegast væri að koma vörðum við á, er haglaust fyrir hesta, nema vestur í Tjarnardölum og austur undir Hofsjökli, í Blágnýpuveri. Og ef gæzlan ætti að fara fram um Kjöl, þá er útilokað að mestu leyti, að þessir menn gætu haft not af hestum, því þeir gætu ekki haft þá nema í Tjarnardölum og Blágnýpuveri. Það er útilokað, að mennirnir geti haldið sig þar. Þeir yrðu að vera á ýmsum svæðum á Kjalhrauni og fótgangandi, og það er erfitt starf fram eftir sumri, því fé að sunnan streymir norður um Kjöl svo þúsundum skiptir. Í réttirnar austur við Seyðisá fá Biskupstungnamenn upp undir þúsund fjár, og þó er meginið af því fé, sem fer norður fyrir Kjöl, komið suður fyrir og kemur ekki í réttirnar við Seyðisá. Af þessu sést, að fjárstraumurinn norður um Kjöl er mjög mikill. En þó þessir agnúar væru á gæzlunni, þá vil ég þó ekki segja, að með duglegum vörðum væri þetta alveg óyfirstíganlegt. En þá kemur annað atriði til greina, en það er, að á þessu svæði er afarþokusamt, sérstaklega að vorlagi, og svo að haustlagi, sem náttúrlega reynir minna á. En að vorlagi og fram eftir öllu sumri er þarna mjög mikil þoka, og ekki einn sólarhring í einu, heldur er þarna niðaþoka sólarhring eftir sólarhring, ef veðrátta er þannig, að úrkomusamt er og skýjað loft. Allir, sem komið hafa að fjárgæzlu, vita, hve ströng gæzlan þarf að vera, ef hefta á för fénaðar til stöðva, sem hann er vanur að fara á að sumarlagi. Það er þess vegna útilokað, að varzlan á þessum svæðum með vörðum einum komi að tilætluðum notum. Þá er ekki öðru til að dreifa en færa vörzluna norður um Kjöl, þar sem haglendi er og minni þoka og því auðveldara að hafa gæzluna. Fyrir utan Kjöl kemur ekki til greina að hafa hana nema við Hvítá, og það er þreytandi að halda fé Biskupstungnamanna í hálfgerðu svelti, og það þyrfti þá fjölda manns til gæzlunnar frá Hvítá og upp að Hofsjökli, að austanverðu, til að passa fé Hreppamanna, að það færi ekki norður um. Þetta er ótryggt, m. a. vegna þess, að það er þokusamt á austanverðu svæðinu, og vegna þess, hvað féð leitar mikið norður um. Þetta mundi því ekki koma að tilætluðum notum, og því útilokað að hafa verði eingöngu. Þá er ekki öðru til að dreifa en færa gæzluna norður fyrir Kjöl. Þá kæmi sér bezt að girða frá ármótum Seyðisár og Blöndu og vestur í Búrfjöll, vestur undir sanda, og hafa verði með girðingunum. Svæðið á sandinum og vestur í jökul er mjög auðvelt að passa. Það mætti hafa verði frá Blöndu, þar sem kvíslar hennar enda, og upp í jökul, sem ekki er langt svæði, og þar er miklu minni þoka en á Kili, því þarna er láglendi. Þetta er því eina leiðin til að setja örugga gæzlu þarna.

Viðvíkjandi því atriði, sem ég býst við, að borið verði fram, að Húnvetningar þættust missa dálítið af sínu afréttarlandi með þessu móti, þá vil ég segja, að það getur komið þeim að fullum notum, svo að þeir missi einskis í, ef þeir reka stóð sitt suður fyrir girðingarnar og halda því þar. Með því móti missa þeir ekkert af sínum afrétti.

Ég vil í fullri vinsemd skjóta þessu til hv. landbn. og biðja hana að athuga þetta atriði mjög gaumgæfilega.

Ég skoða þetta mál þess eðlis, að n. en ekki einstakir þm. eigi að bera fram brtt., svo að ekki verði umturnað gerðum n., sem byggir á nákvæmri íhugun og með það eitt fyrir augum, að þetta komi að fullkomnum notum. Þetta sjónarmið virðist mér, að hv. landbn. hafi í þessu máli.

Ég óska, að n. taki þetta til athugunar, og mun ég ekki við þessa umr. bera fram brtt., en ég vil eiga von á því, að ég megi eiga tal við hv. n. um þessi atriði milli 2. og 3. umr.