20.04.1937
Efri deild: 49. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Jón Baldvinsson:

Ég vil taka undir það, sem hæstv. atvmrh. sagði viðvíkjandi heimild handa ríkisstj. til þess að banna útflutning á kjöti frá sýktum svæðum, ef nauðsyn krefði. Það er vafamál, hvort heppilegt væri að orða þetta þannig, því að það er alls ekki vitað nema með því móti gæfist tilefni til þess að banna útflutning á kjöti úr þeim héruðum, þar sem sýkin væri, þó að meiri hluti kjöts þaðan gæti verið jafngóður og annarsstaðar. Þess vegna væri réttara að búa út almenna heimild handa ríkisstj. til þess að banna útflutning kjöts, ef henni sýndist svo, án þess að nefna þar þau héruð, sem veikin væri í. En þetta þarf hinsvegar að athuga, og ég hugsa, að hverri ríkisstj. mundi nægja slík heimild, ef hún kæmist inn í þessi lög, og það er mjög eðlilegt að setja hana í samband við þessi lög. Það er náttúrlega ekki útilokað ennþá, að hægt sé að setja einhver heimildarlög fyrir ríkisstj. með sérstöku frv., því að ég geri ekki ráð fyrir, að um það yrðu neinar deilur, en það verður hægt að athuga milli umr., þó að búizt sé við, að þingið verði rofið þá og þegar, því að ég geri ekki ráð fyrir, að þinginu ljúki svo, að þetta mál verði ekki afgr. Það verður að gera ráðstafanir í þessu efni, sem menn álíta, að komi að mestu haldi, en ég vil enn taka undir það með hæstv. atvmrh., að það væri heppilegast að hafa þetta meira í heimildarformi heldur en jafnfortakslaust eins og lögbundin ákvæði frv. En ég skil það vel, að það væri vandasamt fyrir hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. að gera ákvarðanir eftir slíkri heimild, því að það yrðu kannske bornar fram kröfur um ýmsa hluti, sem ekki er fært að koma í framkvæmd, ef ekki er beinlínis fé fyrir hendi til þess, og ef til vill væri ekki skynsamlegt að framkvæma hér á landi, þó að háværar kröfur kynnu að koma fram um það, og mér skilst, að það hafi verið ástæðan fyrir því, að hv. landbn. hefir gert þetta svo fortakslaust. Stjórnin verður því að bera ábyrgð á framkvæmdunum, enda hefir hún betri tök á að rannsaka, hvað helzt skuli gera, en þingnefnd eða þingið, þar sem starfstími þess mun nær á enda að þessu sinni.