24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (1495)

25. mál, alþýðutryggingar

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Að gefnu tilefni verð ég að segja nokkur orð, ekki sízt þar sem beint hefir verið til mín fyrirspurn, en áður en ég svara henni vil ég geta þess, sem mér láðist áðan, viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði um fátækraframfærið, þar sem hann var hissa og taldi ekki rétt, að sveitarstjórn léti fátækraframfærið nokkuð koma við sögu við úthlutun til einstakra gamalmenna. Undrun hæstv. ráðh. á þessu er því einkennilegri, sem sjálf lögin taka það beinlínis fram, að það sé einn aðalkostur þeirra, að sveitarstjórnirnar ættu með þessu að losna sem mest við fátækraframfærið. Nú kemur hæstv. ráðh. fram, sem er ótrúlega illa að sér í því, sem löggjöfin hljóðar um, og flaskar mjög verulega á þessu atriði. Það væri gaman að sjá hann gefa út auglýsingu um, að nú mætti enginn, sem er á fátækraframfæri, koma til greina, og sjá, hvernig honum tækist að verja það eftir ákvæðum laganna og fullyrðingum þeirra, sem lögunum fylgja. Það er sjálfsagt, að þeir, sem eru á þessum aldri, og þó þeir séu á fátækraframfæri, eiga samkv. ákvæðum laganna að fá styrk, og það er það, sem gerir það að verkum, að menn sætta sig að sumu leyti betur við lögin en ella.

Þá vil ég spyrja hv. 1. landsk., hvers vegna forsprakkar Alþfl. og verkalýðsfélaganna hafa ekki í ýmsum kauptúnum látið ganga til atkv. um sjúkratryggingarnar. Það er bókstaflega hægt að sýna fram á það sumstaðar á landinu, að þeir hafa ekki þorað það, enda er það svo í einu stærsta kauptúninu hér sunnanlands, að það hefir verið fellt að ganga að lögunum.

Þá kem ég að fyrirspurn hv. 6. landsk. Mig furðar á því, að hann skuli koma fram á síðustu stundu alveg eins og álfur úr hól, þótt merkilegt megi virðast, sérstaklega þar sem hann hefir áður verið nokkuð með í sveitarstjórn þar, sem hann áður átti heima. Það undrar mig, að hann skuli ekki vita, hvernig reglurnar um úthlutun ellistyrktarsjóða eru. Hann spyr, hvað ég eða aðrir mundu gera, ef engin umsókn kæmi. Að engin umsókn komi, er svo sjaldgæft, að segja mætti, að það gæti komið eins og einu sinni fyrir á 10 árum í einum hreppi. Þar sem þetta er nú svona sjaldgæft tilfelli, þrátt fyrir allt það, sem gert er til þess af hálfu flokksbræðra hv. þm., að fá fólkið til að sækja um opinbera hjálp, þá tæki það engu tali, að gera fyrirspurn á Alþingi um það, hvað gera ætti í slíku tilfelli. Komi engin umsókn, þá verður vitanlega ekkert fé veitt, og það ætti ekki að vera nein goðgá. Vilji fólkið ekki fá þennan styrk, sem að lögum á að úthluta, þá er ekkert við því að segja, þá er féð ekki veitt, og það er engin goðgá, því að féð leggst við sinn sjóð, og svo seinna, þegar umsóknir koma, verður fé úthlutað. Þannig hefir það t. d. verið í þau 18 ár, sem ég hefi verið sýslumaður, að það hafa aðeins komið fyrir 1–2 tilfelli, því að annað var tekið aftur, og það var með ráði gert, því að þá voru ekki í þeim hreppi gamalmenni, sem töldu sjálfa sig þurfa styrk, en næsta ár komu í þeim hreppi því fleiri óskir um, að það yrði úthlutað, og það vakti enga sérstaka eftirtekt, og sízt að það þyrfti að breyta löggjöfinni vegna þess. Þetta er ofur einfalt. Nú skal ég fræða hv. þm. á því, sem hann og fleiri virðast ekki skilja, að í raun og veru er það svo samkvæmt þessum l., að það er ekki skylt að veita styrk úr sveitarsjóði, nema því aðeins að sveitarstjórn telji, að styrksins sé þörf. Sumir telja, að öll gamalmenni, sem komin eru yfir vissan aldur, eigi rétt á ellistyrk, en 81. gr. l. sker úr um þetta. Þar segir, að sveitarstjórnir úthluti þeim gamalmennum styrk, svo fremi að hún telji, að þau hafi þörf fyrir hann. Þar sem þessir gallar hafa komið fram á l., þá höfum við leyft okkur að leggja til, að þetta verði lagfært.