25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (1505)

28. mál, viðgerðir á skipum

*Ólafur Thors:

Hv. 1. þm. Rang. gerði aths. við frv. þetta í fyrra, er það var hér til umræðu. Af því að hann er nú ekki viðstaddur, sökum þess að hann varð að fara á fund annarsstaðar, vil ég í hans stað gera nokkrar aths. við frv.

Það hlýtur auðvitað að vera sameiginlegt áhugamál allra, að halda allri þeirri atvinnu sem unnt er inni í landinu, hvort sem um viðgerðir skipa eða annað er að ræða. Um það eru allir sammála. En ég vil vekja athygli á því, að ef það er gert að skilyrðislausri skyldu, að láta viðgerðir skipa allar fara fram hér á landi, svo framarlega sem ekki er lífsháski að sigla skipinu til íslenzkrar hafnar, þá getur þetta í mörgum tilfellum orðið ný og veigamikil kvöð á sávarútveginn, svo þung, að ef til vill getur þetta hreint og beint orðið til að minnka atvinnuna í landinu við sjávarútveginn. Það er staðreynd, að viðgerðir á skipum hérlendis eru oft miklu dýrari en erlendis, enda þótt útgerðarmenn hafi oftast reynt að láta gera við skip sín hér á landi.

Útvegurinn býr við mjög þröngan kost, eins og bezt sést, ef það er aðgætt, að frá árunum fyrir stríð hefir kaupgjald þrefaldast, kola- og saltverð tvöfaldast og allt annað, sem til útgerðarinnar þarf, margfaldast í verði, en fiskur hinsvegar í lægra verði en þá. En hinsvegar er afli meiri en áður fyrir vaxandi tækni skipstjóra og sjómanna. En jafnframt hafa skattar farið síhækkandi, og nú á enn að leggja nýja kvöð á útveginn til þess að halda atvinnu við viðgerðir skipa í landinu sjálfu.

Þess verður að gæta, að viðleitnin til að koma á fót íslenzkum iðnaði og styrkja hann hefir þegar komið mjög þungt niður á sjávarútveginum. Þótt ég vilji ekki gera lítið úr þessari viðleitni, verða menn þó að sjá um það, að hinn nýi atvinnurekstur, iðnaðurinn, drepi ekki niður annan meiri, hvort sem á það er litið frá sjónarmiði heildar eða einstaklinga. En iðnaðurinn hefir þegar lagt þær kvaðir á sjávarútveginn, að hann verður að kaupa sumar notaþarfir sínar dýrara verði en hann hefði orðið að gjalda fyrir þær erlendis. Og auk þess má ekki gleyma því, að þegar búin er til vara í landinu, sem áður hefir verið keypt frá markaðslöndum vorum, þrengist þar að sama skapi markaðurinn fyrir útflutningsvörur vorar.

Ég hefi áður bent á það, hversu hag útgerðarinnar er komið. Allt, sem til hennar þarf, hefir margfaldazt í verði, en fiskverð hefir lækkað. Útgerðin er komin í kröggur. Hið opinbera hefir ekkert gert til að draga úr þeim, en sífellt aukið á þær með sköttum og gert notaþarfir hennar dýrari með vernd fyrir iðnaðinn. En þessari vernd má ekki beita í fullkominni blindni, heldur verður jafnframt að taka tillit til annara atvinnuvega.

Ég skal ekki segja, hvort slík löggjöf sem þessi er nauðsyn vegna þeirra manna, sem atvinnu hafa á hérlendum skipasmiðastöðvum. Ég held þó ekki. Ekki a. m. k. að því er aðalviðgerðarstöðvarnar snertir, hvað sem ríkissmiðjunni líður. En mér er kunnugt um, að verkstæðin Hamar og Héðinn hafa til þessa haft nóg að gera. Ég held því, að frv. réttlætist ekki af þeim ástæðum. Ég vænti þess því, að n. hrapi ekki að þessu máli og líti ekki eingöngu á það frá sjónarmiði þess aðilja, sem hv. 3. landsk. ber fyrir brjósti.