03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (1548)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. atvmrh. sagði, að síðasta ár hefði verið veittar 46000 kr. í þessu skyni, m. ö. o., að frv. væri raunverulega afturför frá því sem verið hefir. Ég vil vekja athygli á því, að í þessum 46000 kr. felst hluti af atvinnubótafénu, þannig að ungir menn hafa verið látnir vinna sérstaklega fyrir atvinnubótafé ríkis og bæjar, en þetta frv. lætur sjálfa atvinnubótavinnu ungra manna vera fyrir utan sitt verksvið, en fer hinsvegar fram á atvinnubótavinnu og kennslu í sameiningu, og til viðbótar við þessar 35000 kr., sem þetta frv. gerir ráð fyrir, má vitanlega veita eitthvað af atvinnubótafénu í heild til vinnu fyrir unga menn. Þannig tók bæjarstjórn Reykjavíkur sér fyrir hendur árið 1935 að leggja fram fé til vegalagningar frá Sogsveginum upp að Vellankötlu, norðaustanvert við Þingvallavatn, með því skilyrði, að unglingar úr Reykjavík fengju vinnu.

Ég vil aðeins geta þess til þess að undirstrika það, að þetta frv. er ekki afturför heldur einmitt framför frá því, sem verið hefir, því að það, sem varið hefir verið í þessu skyni til kennslu og atvinnubótavinnu í sameiningu fyrir unga menn hér í Reykjavík síðustu tvö ár, er 26000 kr., en samkvæmt þessu frv. er lagt til að veita 35000 kr. í þessu sama skyni. En hitt er annað mál, hve miklu af þessari ½ millj. kr. er varið til unglinganna sérstaklega.