18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Sigurður Einarsson:

Ég geri ekki ráð fyrir að blanda mér inn í þessar deilur á milli hv. 6. landsk. og flm. brtt. á þskj. 99. En mig langaði til að beina einni fyrirspurn til hv. þm. Borgf. Hann talaði um, að hann væri stuðningsmaður brtt. á þskj, 99, vegna þess, að hún mælti með óskum sínum um það, að þeim sveitarfél., sem nýir erfiðleikar hefðu skapað þröngar kringumstæður, yrði hjálpað. Á hv. þm. hér við þau sveitarfélög, sem orðið hafa fyrir hnekki af völdum fjárpestarinnar? Hv. þm. Borgf. og þeim öðrum, sem úr þessum héruðum eru, þar sem þessi vágestur hefir gert vart við sig, er hér raunar nokkur vorkunn, því að fyrirsjáanlegt er, að víða muni verða þröngt fyrir dyrum. En mig langaði til að fá það upplýst, hvort það er þetta, sem hv. þm. átti við.

Ég álít, að þetta geti ekki komið til greina við það, hvernig þessum eftirstöðvum verður varið. Það er ekki kreppulánasjóðs að bæta úr þessum vandræðum, heldur verður hér að taka til alveg sérstakra ráðstafana.