22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (1643)

78. mál, framfærslulög

*Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og segir í grg., var borið fram á síðasta þingi frv. til breytingar á framfærslulögunum frá 1935. Í þessu frv. felast sumpart þær breytingar og sumpart nýjar til viðbótar. Frv. okkar komst í fyrra til Ed. og gekk þar í gegnum 2 umr., en af því að því var neitað um afbrigði, varð það ekki útrætt, þótt allt virtist benda til þess, að það ætti nóg fylgi.

Ég þarf ekki að fara ýtarlega út í einstök ákvæði frv., enda var það rætt töluvert í fyrra bæði hér og í Ed. Ég mun því aðeins víkja að viðbótarbreytingunum síðan í fyrra. B-liður 5. gr. var ekki í frv. í fyrra, en þar er lagt til, að lögbundið verði, að framfærslunefnd sé skylt að hlíta úrskurði ráðh., ef á greinir í framfærslumálum. Þetta ákvæði er borið fram vegna þess, að framfærslunefndir, einkum hér í Rvík, hafa oft haft úrskurði ráðh. að engu og þannig neytt fátækt fólk til að leita til dómstólanna, sem því er bæði seinleg leið og dýr. Réttur bæjarstjórna og framfærslunefnda til að leita til dómstólanna, eins og áður, er hinsvegar óskertur. 2. brtt. er breyt. á 35. gr. Þar er ráðh. heimilað, að fengnum till. bæjarstjórnar í Reykjavík, að setja reglur um tilhögun á framfærslumálum Reykjavíkurbæjar. Framfærslumálin í Rvík eru annars eðlis en annarsstaðar, þar sem höfuðstaðurinn er sökum fólksfjölda ekki sambærilegur við önnur framfærsluhéruð landsins. Í gr. segir svo: Í reglugerð þessari má ákveða um sérstakan mælikvarða við úthlutun framfærslueyris, svo og um sérstaka dómnefnd, er úrskurði til fullnustu kærur út af ákvörðunum framfærslunefndar. Auðvitað má þó skjóta ágreiningi til dómstólanna eins og áður. Reglur um framkvæmd framfærslumálanna í Rvík hafa verið harla ófullkomnar, og við álitum, að þær þyrftu að vera fyllri. Þannig álitum við, að þyrfti nýjan sérstakan mælikvarða við úthlutun framfærslueyrisins, svo sem ákveðna upphæð fyrir fæði og húsnæði. Fátækranefnd hefir ákveðið fyrir mörg ár vissan aurafjölda fyrir fæði á dag, og þessum reglum er að sumu leyti fylgt enn. Þessar reglur álítum við, að þurfi að endurskoða. Um dómnefndina er það að segja, að leiðin til stjórnarráðsins hefir oft orðið fátæklingum seinfær. Þar liggur fyrir mikið af erindum, og framfærsluerindi verða oft lengi að bíða afgreiðslu. Við viljum því, að stofnuð sé dómnefnd í framfærslumálum, er sambærileg sé við húsaleigunefndina, er eitt sinn starfaði hér og jafnaði ágreining í húsaleigumálum. Ég held, að með þessu fengist meira samræmi og fljótar gengi að fá úrskurðað um ágreining.

Í 8. gr. eru tvær nýjar smábreytingar. Í 44. gr. er gert ráð fyrir, að innansveitarmenn einir geti kært útaf framfærslumálum. En við setjum í stað þess „félög og einstaklingar“. Þannig mættu þá góðgerðafélög eða einstaklingar í Rvík kæra yfir vondri meðferð á framfærsluþurfa í Seltjarnarneshreppi. Hin breytingin er á þá leið, að lögreglustjóri megi fella úrskurð um aðstoð eða hjálp til bráðabirgða, að fram kominni kæru út af meðferð á framfærsluþurfa, og skuli þá hlutaðeigandi sveit greiða kostnaðinn. Ég veit til þess, að fólk, sem hefir t. d. verið borið út úr húsum, hefir leitað til lögreglustjóra um hjálp og fengið hana stundum, en hann hefir kvartað yfir því, að sig brysti heimild í lögum til þess að veita hjálp í slíkum tilfellum.

Þá er brtt. við 62. gr. Hún er á þá leið, að ef móðir barns giftist, er meðlag hefir tekið eftir dauða barnsföður samkv. 61. gr., eða móðir barns, sem meðlag hefir fengið frá dvalarsveit sinni að barnsföður lifandi, megi hún leita til valdsmanns til að úrskurða það, hve mikið henni beri, eftir að hún hefir gifzt. Til skamms tíma hefir verið talið, að slíkar mæður ættu rétt til styrks af framfærslusveit sinni eftir sem áður, en sá praxis hefir nýlega verið skorinn niður með hæstaréttardómi, og þykir okkur því rétt að fá um þetta nýjar reglur. Við viljum ekki slá því föstu, að þessar mæður eigi þennan rétt, ef þær giftast efnamönnum. En ef slík móðir giftist efnalitlum manni, teljum við ekki rétt, að hún glati þeim rétti, er hún hafði áður en hún giftist.

Ég vil að lokum mælast til þess, að frv. verði vísað til 2 umr. og allshn.