31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (1661)

81. mál, Landsbanki Íslands

Ólafur Thors:

Ég vil út af orðum hæstv. fjmrh. í sambandi við valdsvið landsbankanefndarinnar taka það fram, að það mun vera álit a. m. k. flestra lögfræðinga, að sá skilningur, sem fram kom í ræðu hans á valdsviði landsbankanefndar, sé ekki réttur. Ég hefi ekki lögin við höndina, en ég man þessa gr., sem hæstv. ráðh. vitnar til. Það er rétt, að í þeirri gr., sem sérstaklega kveður á um valdsvið landsbankanefndar, segir, að hún skuli hafa með höndum ákveðin hlutverk, sem þar eru upptalin, og svo kemur viðbótarsetning, sem hljóðar á þá lund: og auk þess þau önnur mál, sem til hennar kann að vera vísað. Ég hefi athugað þetta, vegna þess að ég veit, að hæstv. fjmráðh. var að hugsa um að hafa sérstök afnot af þessu ákvæði. Ég veit líka, að þeir lögfræðingar, sem hann ráðfærði sig við, réðu honum frá að reyna það, því að það mundi ekki vera haldgott. Mér fannst rétt að láta það koma hér fram, að þessi skilningur hæstv. ráðh. á landsbankalögunum er ekki viðurkenndur.

Hæstv. ráðh. sagðist geta aðhyllzt það, að það orkaði a. m. k. tvímælis, hvaða ávinningur væri að því, að flytja vald bankaráðsins að meira eða minna leyti til landsbankan. Þó sagði hann, að hans flokkur teldi rétt að færa valdið til skuldaeftirgjafa til n., ef þær færu fram úr tilteknu hámarki. Um þetta hefi ég ekki að segja annað en það, að við eftirgjafir skulda kemur náttúrlega það sama til greina eins og við aðrar ráðstafanir, sem undir bankaráðið falla, nefnilega þekking á þessum málum, nauðsyn bankans og hvað farsælast sé með heildarhagsmuni fyrir augum. Ég viðurkenni fyllilega, að ef til þess kæmi, að gefa ætti eftir stórkostlegar fjárhæðir, e. t. v. hundruð þúsunda, þá sé fyllsta ástæða til, að settar séu skorður gegn því, að nokkur misbeiting á valdi geti þar komið til greina, þannig að persónulegir hagsmunir þeirra, sem eiga að þiggja skuldaeftirgjafir, yrðu látnir sitja í fyrirrúmi fyrir því, sem meira varðar, fjárhagi bankanna og heill almennings. En ég sé ekki nokkra tryggingu í þessu efni felast í því, að færa valdið frá bankaráðinu til landsbankans. Þvert á móti tel ég meiri líkindi til, að þeir menn, sem þekkja þó það til starfsemi og hagsmuna bankanna, sem bankaráðsmennirnir verða að gera á hverjum tíma, og vinna í samráði við stjórn bankans, misbeiti ekki sínu valdi, heldur en landsbankanefndarmenn, sem algerlega ókunnugir málum bankans eru kallaðir saman sem pólitísk verkfæri, til þess að taka ákvarðanir um þýðingarmikil fjármál. Ég held þess vegna, að sú tilfærsla valdsins, sem hæstv. ráðh. segist vilja ganga inn á, sé alls ekki til bóta, heldur þvert á móti skapi öryggisleysi á þessu sviði.

Ég þarf ekki miklu að svara hv. 2. þm. Reykv. Hann var að tala um, að ég væri svo hrifinn af hans persónu, að ég þyrfti oft á hana að minnast, en hann væri aftur á móti ekki mikið fyrir að víkja að mér; ég væri nú ekki svo skemmtilegur. Ég skal viðurkenna, að mér finnst þessi hv. þm. ákaflega skemmtilega spaugileg og hlægileg persóna og verður þess vegna stundum á að víkja að honum. Annars fór ég ekki mikið út í persónulegar ádeilur í hans garð nú fremur en ella. Ég gat vel sagt við þennan mann: Það er undarleg umhyggja, sem kemur fram hjá honum fyrir því, að ekkert fyrirtæki megi vera í landinu svo stórt, að það þurfi á miklu fé að halda. Sjálfur er hann ekkert feiminn við að vera í þjónustu erlends stórfyrirtækis. Hann vill berja niður allt stórt, ef það er innlent, en hann er ekki hræddur við stærðina á erlendum auðhringum; þar skapar það ekki tækifæri til að kúga alþýðuna, þótt stórfyrirtæki og mikið fjármagn sé undir einni stjórn. Það vita allir menn, að hér er ekki hægt að fá að flytja inn eina olíutunnu, ef selja á hana lægra verði heldur en þessum hv. þm. þóknast; það eru a. m. k. settar við því allar þær skorður, sem hægt er með því valdi, sem hann hefir. Hann er ekki heldur hræddur við að beita valdi sínu, ef hann getur með því þjónað eigin hagsmunum. Mér finnst því, að þessi hv. þm. hafi ekki ástæðu til þess að emja og skrækja, þótt hann sé nefndur á nafn meðan jafnmildilega er á honum tekið eins og ég gerði í fyrri ræðu minni.

Annars kom ekkert fram málefnalegt í ræðu hv. þm. annað en það, sem ég var í sjálfu sér búinn að svara með fyrri ræðu minni. En ég vil vekja athygli á því, að ef það er vilji hv. þm., að stjórn peningamálanna eigi á hverjum tíma að lúta hinu pólitíska valdi í landinu, þá er fullkomin ástæða til þess fyrir hann að athuga, hvort ekki ætti að skipta um bankastjórn í hvert skipti sem nýir valdhafar taka við stjórnartaumunum. Svo mætti athuga, hvort ekki ætti einnig að skipta um forstjóra fyrir þeim fyrirtækjum, sem hafa undir höndum lánsfé frá bönkunum, og þeim stofnunum, sem annast sölu þeirra framleiðsluvara, sem landsmenn eiga mest undir. Það er margt, sem kemur til athugunar, ef fara á inn á þá braut, að útfæra þingvaldið yfir á öll svið þjóðmálanna. Það getur haft margvíslegar afleiðingar, og ég er ekki viss um, að hv. þm. komist að þeirri niðurstöðu, ef hann vill öfga- og hlutdrægnislaust beita skynsemi sinni, að þetta væri til farsældar fyrir þjóðina. Ég veit, að þetta frv. var borið fram að lítt hugsuðu máli, einmitt á þeim tíma, þegar þessi hv. þm. var í æstu skapi. En nú þegar honum er runnin reiðin og hann er búinn að fá hvíld páskahelginnar til þess að innleiða frið í sálu sína og samvizku, þá ætti hann að vera móttækilegri fyrir ráð honum betri manna bæði í hans eigin herbúðum og annarsstaðar. Er því e. t. v. ekki loku fyrir skotið, að þessum hv. þm. geti notazt betur að sinni góðu greind heldur en raun ber vitni um það, sem af er þessu þingi. Engan mundi það gleðja meira heldur en einmitt mig, sem sökum forns kunningsskapar og vináttu tekur oft sárt til hans, þegar hann verður sér mjög átakanlega til minnkunar. Það væri mér sönn ánægja, ef ég sæi meiri ávöxt af hans góðu greind og minni vott um, að hún verði undir í viðureigninni við hans vandgæfu skapsmuni og dálítið samsetta innræti.