02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (1763)

88. mál, atvinna við siglingar

Sigurður Einarsson:

Í ræðu þeirri, er ég hélt hér til þess að andmæla þessu frv., hélt ég, að ég hefði hagað orðum mínum þannig, að laust hefði verið við persónulega áreitni við flm. frv., hv. þm. Barð. Og það er vegna þess, að ég geri þann mun mín og hans, að ég vil ekki yfir höfuð telja það þess vert, þótt skoðun minni sé andmælt, að ráðast á menn með fúkyrðum og persónulegum aðdróttunum. Hitt er löngu kunnugt í þessari hv. d., að þessi hv. þm. á dálítið örðugt með að stilla skap sitt, þegar hann á orðastað við mig, sennilega vegna þess að eitthvað er það í viðskiptum okkar þarna vestra, sem honum er ekki ennþá úr minni liðið og hefir sárnað undan. Ég tek ekki nærri mér að sitja fyrir ónotum hans, en vildi bara óska, að honum bötnuðu þessi eymsli fyrr en seinna. Hv. þm. var að tala um, að ég mundi þurfa að leita mér lækninga við einhverju meini. Það er ekki nema von, að honum komi slíkt í hug, einmitt þetta, að þurfa að leita sér lækninga. En það er ekki fremur sagt til þessa hv. þm. heldur en hvers annars sem væri, að ef ein hlið á húsi manns er úr gleri, þá ætti maður ekki að snúa henni að, þegar maður kastar steini. Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, ef það er látið heita svo um þetta frv., að það sé fram borið af því, að l. um atvinnu við siglingar, sem enn eru ekki orðin ársgömul, séu svo mikill háskagripur í garð sjómanna, að ekki megi við þau hlíta nema kippa sumum atriðum þeirra lengra aftur á bak en til þeirra laga, sem áður giltu. Ef þessum lögum hefði verið flaustrað gegnum þingið undirbúningslítið og lítt hugsuðum, hefði mátt til vorkunnar virða, þótt menn þóttust finna á þeim ærna galla. En nú er alls ekki því til að dreifa, því að þessi lög lágu hér fyrir tveimur þingum og fóru í gegnum 8 umr. alls, auk allrar athugunar í n. Þetta kynni nú ekki að hafa verið nóg til þess að tryggja, að lögin yrðu ekki annar eins gallagripur eins og af þessu frv. mætti ráða og sem væntanlega hefði orðið, ef samningu þeirra hefði upphaflega verið flaustrað af. En nú voru þau samin af mþn. og varið til þess miklum tíma. Ég veit ekki betur en í þeirri n. ætti sæti m. a. sá maður, sem sjómannastéttin hefir um langan aldur talið ýms trúnaðarstörf, og sjálfstæðismenn áttu þar einn bezt mennta sjávar- og siglingafræðing þjóðarinnar, svo að af þeirra hálfu ætti að vera viðunanlega til frv. vandað í upphafi. Þegar á þetta er litið, hvað rækilegan undirbúning þessi lagasetning hefir fengið og hvað skamman aldur hún hefir verið í framkvæmd, tel ég mjög mikið glapræði, að gera á henni svo stórfelldar breytingar, að ekki er einu sinni í öllum atriðum látið staðar numið við það ástand, sem var, áður en þessi l. voru sett, heldur horfið til eldra og að mínum skilningi lélegra ástands en þá var. Hitt kann að vera, að við fyrstu framkvæmd laganna hafi orðið einhverjir örðugleikar á að fá þeim framfylgt, og að menn hafi kunnað ýmsum ákvæðum þeirra miður vel, eins og nýmælum yfir höfuð, án þess að það þurfi að liggja í því, að verið sé að íþyngja mönnum með óþörfum útgjöldum eða öðru slíku. Mér er kunnugt um, að í sérstökum umdæmum hefir verið örðugt að fá viðunandi framkvæmd á þessum lögum, og sumsstaðar hefir félagsskapur sjómanna orðið að kæra til yfirvaldanna yfir sleifarlagi á framkvæmd þeirra, þar sem hreppstjórarnir hafa brotið svo freklega þær reglur, sem settar eru um kunnáttu vélamanna o. fl. Einnig er til lögsagnarumdæmi, þar sem svo er ástatt, að þegar félagsskapur sjómanna bar sínar kvartanir fram, botnaði yfirvaldið sjálft ekkert í því, hvernig lögskráningin hafði farið fram á hans eigin skrifstofu; gruflaði hann sig þó fram úr því þegar hvað eftir annað var búið að skaka í honum með þetta. Þess vegna er það nú svo, að þótt einhverjir smáagnúar kunni að vera á því, að fá lögunum framfylgt í fyrsta sinni, að því er bátaútveginn snertir, þá er ekki þar með sagt, að lögin séu þannig úr garði gerð, að með þeim sé verið að leggja á sjávarútveginn óbærar byrðar. Til þess að finna þeim orðum mínum stað, að hér sé verið að hörfa til lélegra ástands heldur en tíðkaðist, áður en hin nýju lög um atvinnu við siglingar komu í gildi, skal ég benda á, að elzta skipið í íslenzka flotanum, Gullfoss, hefir haft 3 stýrimenn, síðan það hóf siglingar, en samkv. þessu frv. þurfa ekki skip af þeirri stærð að hafa nema 2 stýrimenn.

Hv. þm. fór að blanda afskiptum mínum af flóabátum inn í þessa umræðu. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að þó að rekstur flóabáta sé nokkuð dýr, og kostnaðurinn að miklu leyti borinn uppi af opinberum framlögum, þá getur það ekki verið afgerandi röksemd fyrir því, að höggva beri verulegt gat á annars vel samræmda trausta löggjöf, til þess að hlífa ríkissjóði við sáralitlum útgjöldum til rekstrar flóabátanna, með því að slaka á kröfunum um skipshafnir á bátum yfirleitt. Mér er kunnugt um, að örðugleikar þess flóabátafélags, sem hv. þm. minntist á, myndu ekki minnka, þótt þetta frv. yrði að l., því að þeir liggja í allt öðrum hlutum. Mér er vel kunnugt um hag þess félags, og hvað viðvíkur rekstrarkostnaði þess, þá liggja sumpart til hans ýmsar persónulegar ástæður, sem hv. þm. er nákvæmlega eins vel kunnugt um og mér. Ég vék að flóabátsfélaginu Norðra, þessu óskabarni okkar beggja, hv. þm. Barð. og mín. Það er vitanlegt, að þetta félag hefir haft menn á kaupi allt árið í kring, og ef til vill lengri tíma stundum en þörf er á. Það virðist því liggja næst, að félagið hagi starfsmannahaldi sínu betur en svo, að það af þeim ástæðum þurfi að rekast með tapi, áður en farið er að rjúka til og breyta löggjöfinni til að vernda þetta og önnur félög, sem líkt stendur á um, með því að fækka kunnáttumönnum. Annars er það um þetta félag að segja, að ég býst við, að við hv. þm. Barð. séum báðir reiðubúnir að leggja því allt það lið, sem við getum. Okkur er það vel kunnugt báðum, að þetta félag er nauðsynlegt og verður að starfrækja, sökum þess að líf og velferð fjölda manna við Breiðafjörð er undir því komið, að félagið geti haldið uppi starfsemi sinni.

Hv. þm. var að tala um það, að sönnunarbyrðin hvíldi á mér og hv. 3. landsk., um það, að með þessu frv. væri verið að draga úr öryggt skipa. Sönnunarbyrðin er frá mínu sjónarmiði fyrst og fremst fólgin í því, sem ég hefi þegar tekið fram, að mig rekur ekki minni til, að opinberlega hafi komið fram neinar verulegar eða rökstuddar umkvartanir um, að þessi l. væri sú áníðsla á sjávarútveginum, að hann þeirra hluta vegna átti svo erfitt uppdráttar. Hvað einstakir þm. kunna að hafa hlerað eða heyrt í þessu efni, eða hvað fyrir þeim kann að hafa verið borið upp, það er ekki hægt að taka til greina sem almenn rök í þessu máli.

Hv. þm. Borgf. var að brigzla okkur hv. 3. landsk. um það, að við værum að hlaupa hér eftir hagsmunum stéttarbræðra okkar eða flokksbræðra. Ég læt mér svona lagaðar röksemdafærslur í léttu rúmi liggja; hv. þm. má halda hvað hann vill um þetta. En hvað tilgangi þessa frv. við kemur, þá verð ég að segja það, að ég var nú svo kurteis að trúa því, sem hv. þm. Barð. sagði, að hann væri sá sem segir í grg., en eftir öllum umr. um þetta mál, þá fer ég nú satt að segja að vera í stórum efa, að svo sé. Hv. þm. sagði, að mál þetta væri borið fram af þeim ástæðum, að það hefði verið samþ. á flokksþingi framsóknarmanna. Það er nú náttúrlega gott og blessað, en þar með er náttúrlega ekkert um það sagt, að málið þurfi endilega að vera nytsamlegt. Þeirri göfugu samkomu getur vitanlega skjátlazt eins og öðrum. Og þetta getur verið eins og hver önnur Egilsstaðasamþykkt frá sjónarmiði þeirra, sem vit hafa á þessu máli, þó að það slampist í gegn á flokksþingi framsóknarmanna.