02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (1768)

88. mál, atvinna við siglingar

Sigurður Einarsson:

Ég hefi verið að lýsa eftir því við þessar umr., að tilgreind væru rökstudd opinber mótmæli og aðfinnslur við l. um atvinnu við siglingar, sem réttlættu þetta frv. Þau mótmæli hefir enginn bent á, að fram hafi komið, svo að í rauninni er ekki hægt að henda reiður á því, hvað fyrir meðmælendum frv. vakir. En hinsvegar hafa komið fram mótmæli gegn þessu frv. frá aðiljum, sem taka verður tillit til. Ég vil gera nokkra grein fyrir þeim mótmælum, svo að hv. n. geti metið þau og vegið.

Í slettur hv. þm. Barð. vil ég ekki eyða tíma. Hann er að brýna mig á því, að ég hafi farið halloka í samkeppnisprófi í guðfræði. Að svo stöddu geri ég mér þau úrslit að góðu. En án þess að vilja vera með samskonar slettur í garð hv. þm., vil ég benda honum á, að honum stæði mér að rifja upp codex eticus dómara og lögfræðinga en að brigzla mér, því að mér hefir skilizt sem þjóðin gerði líka nokkrar kröfur til þeirra í þeim efnum. Þegar hv. þm. hefir rifjað þetta upp og lagt á sitt fróma hjarta til eftirbreytni, þá skal ég fúslega skrifta fyrir honum við tækifæri. Um pésann, sem hann segir, að ég hafi dreift út á bak sér, er það að segja, að það voru greinar, sem komu í viðlesnasta blaðinu hér, Alþýðublaðinu, og hefði hann getað svarað þeim, ef embættisáhugi hans hefir þá gefið honum tíma til þess.

Þá eru það hin tvö hnupluðu frv. Um það fyrra er það að segja, að frambjóðendur Alþfl. í Árnessýslu báðu mig að koma til fundar við sig til athugunar á frv. um garðyrkjuskóla, og var frv. samið af okkur í sameiningu. En um frv. um atvinnuleysi ungra manna er það skemmst að segja, að Aðalsteinn Sigmundsson kom að máli við mig, er ég var nýkominn frá útlöndum í vetur, og kvaðst vilja senda mér frv., er hann óskaði, að flutt yrði á þingi. Mér var af flokksmönnum mínum falið að flytja frv., og gerði ég það. Hvers vegna Aðalsteinn Sigmundsson var líka að senda okkur þetta frv., eða hvort það var eins og það, sem hann sendi hv. þm. Barð., og hvers vegna það frv., sem honum var sent, kom ekki fram, veit ég ekki. (BJ: Það kom seinna). Það sýnir þá bara, að forseti UMFÍ hefir ekki talið það skipta máli, hvenær hann sendi honum frv. þetta.

Hvaða aðiljar eru það nú, sem helzt ættu að leggja eitthvað til málanna, er svona frv. kemur fram? Ég held, að enginn efi sé á, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur séu slíkir aðiljar. Frá báðum þessum aðiljum liggja fyrir mótmæli. Það fyrrnefnda er samband skipstjóra, vélstjóra og stýrimanna. Þeir hafa sent langt skjal. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér niðurstöður þessa álitsskjals:

„Vér leyfum oss því í sambandi við frumvarp það, sem hér liggur fyrir, að setja fram eftirfarandi kröfur og tilmæli:

a) að frumvarp þetta verði fellt þegar í stað, vegna þess að liðug 8 mánaða reynsla af lögum nr. 104 1936, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, er fullkomlega ónóg til þess að draga neinar ályktanir um, hvernig þau gefast í framkvæmdinni.

b) að ofangreind lög verði ekki endurskoðuð, fyrr en þau hafa verið nægilega langan tíma í gildi, til þess að séð verði, hvernig þau reynast, og teljum vér minna en 5–10 ár ekki geta nægt. Ennfremur, að lögunum sé ekki breytt, meðan farmenn og útgerðarmenn sem stéttir una þeim).

e) að engin mál, er farmannastéttina varða, séu framvegis afgreidd, án þess að leitað sé umsagnar sambands vors um málin.

d) að ef svo skyldi fara, að frumvarp það, er hér liggur fyrir, yrði ekki fellt viðstöðulaust, þá afgreiði Alþingi ekki málið, án þess að umsagnar sambands vors sé leitað um frumvarpið, og myndum vér þá fara út í einstök atriði þess“.

Þetta eru niðurstöður athugana Farmanna- og fikimannasambands Íslands, réttindamannanna, sem hv. flm. frv. telur, að séu allt of margir á skipunum, en lætur sér þó víst ekki detta í hug, að hafi síður vit á þessum málum en hann. En mótmæli Sjómannafélags Reykjavíkur ganga í sömu átt. Heildarniðurstaða þess er, að þetta frv. miði að því að draga úr öryggi á sjónum, að með þessu sé verið að þrengja möguleikana fyrir unga menn til að vinna sig upp í skipstjórastöður og stýrimanna. Ennfremur segir í þessu álitsskjali, að frv. yrði til stórtjóns örygginu á sjónum, ef að l. yrði. Þá er og kunnugt, að á leiðinni eru til Alþingis mótmæli frá öðrum hlutaðeigendum, og munu þau verða lögð fram við síðari umr. þessa máls. Er ósanngjarnt að hafa að engu umsagnir þessara aðilja, þrátt fyrir það, þó að einhverri flokkssamkundu komi í hug að gera slíkar breyt. sem þessar. Í öðrum málum hefir verið tekið slíkt tillit til hlutaðeigandi hópa. Við setningu l. um alþýðutryggingar hefir t. d. verið tekið sérstakt tillit til fámenns hóps manna, símamanna. Hér er þó um ólíkt fjölmennari hóp að ræða, og er skylt að taka ekki síður fullt tillit til hans.