09.04.1937
Neðri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í C-deild Alþingistíðinda. (2020)

132. mál, friðun hreindýra

*Flm. (Hannes Jónsson):

Í vikublaðinu Frumsókn, 9. tölublaði þessa árs, birtist grein eftir Benedikt Gíslason frá Hofteigi um hreindýr. Hann benti þar á, að þau væru nú mjög til þurrðar gengin í landinu og mundu nú ekki vera fleiri en 40 alls, sem héldu sig í Kringilsárrana. Hann benti þar á það, að friðun þessara dýra hefði fallið niður í árslok 1935, en þessu mun ekki hafa verið veitt eftirtekt af þinginu fyrr en nú, að frv. eru komin fram um þetta efni.

Ég skal nú með fáum orðum lýsa nokkuð, hvernig ástatt er um þetta mál og hvernig gangur þess hefir verið á undanförnum árum.

Það mun hafa verið 1771–1787, að hreindýr voru flutt inn til landsins í fjórum hópum. Fyrsta sendingin kom til landsins 1771. Það voru 3 dýr, sem voru flutt til Rangárvallasýslu, og eftir 5 ár voru þau talin vera um 11. En litlar sögur fóru af þessum dýrum, og er talið, að þau hafi farizt öll í Móðuharðindunum, eða a. m. k. um það leyti.

Næsta hreindýrasendingin kemur 1776 og voru alls um 30 dýr send, en komust ekki hingað nema 23, og var þeim sleppt á land á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Héldust þau við á Reykjanesi nokkuð langt tímabil á eftir. Um 1880 er talið, að stofninn hafi verið orðinn talsvert mikill, og er getið um, að sézt hafi 35 dýr í hóp. Þau lifðu af Móðuharðindin, og er talið, að þau hafi a. m. k. lifað fram yfir 1880–81 og allt fram að síðustu aldamótum. En þau munu hafa fallið mjög mikið harða veturinn, 1880–81, og munu þau hafa dáið alveg út um síðustu aldamót. Ég skal geta þess, að talið er, að 1890 hafi sézt 15–20 dýr á þessum slóðum.

1783 kemur enn hópur til landsins. Er það hinn svonefndi Vaðlaheiðarstofn. Ég veit ekki, hvað mörg dýr hafa þar verið sett í land, en þessi stofn dafnaði vel á þessum slóðum. Aðalbækistöð þessara dýra var vestan ódáðahrauns og afréttir Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðar, og döfnuðu þau það vel, að eftir 7 ár er talið, að þau hafi verið orðin 300–400 á þessum slóðum.

Um 1790, þegar dýrastofninn er orðinn svona mikill, þá er leyft að skjóta tarfa, og þrátt fyrir að það mun hafa verið gert nokkuð á þessu tímabili, heldur stofninn áfram að fjölga, svo að 1817 er leyft að skjóta kýr. Þessu heldur áfram fram um miðja 19. öld, að dýrunum fjölgar þrátt fyrir þetta veiðileyfi, og þá eru þau orðin svo mörg, að það er talað um ágang af þeim í beitilöndum bænda, og voru þau þá um tíma algerlega ófriðuð.

Fjórði og síðasti hreindýrastofninn, sem hingað var fluttur, kom hingað árið 1787, og var honum sleppt í Múlasýslu. Það voru 30 dýr, og lífsskilyrði þeirra þarna austur frá virðast hafa verið góð, ekki síður en hinna, sem sleppt var í Eyjafirði. Bækistöðvar þeirra voru frá Hofsjökli eystra og Þrándarjökli, norður að byggðum Norður-Múla- og Norður-Þingeyjarsýslna og vestur að Ódáðarhrauni. Þessi stofn þreifst svo vel, að 1810 er talið, eð dýrin hafi sézt 500 til 600 í hóp saman. Það kom fljótt fram þarna eins og í Eyjafirði, að dýrin þóttu valda ágangi, og var á svipaðan hátt hagað friðun þeirra. Eftir 7 ár var farið að leyfa að skjóta tarfa, og nokkru seinna var leyft að skjóta kýrnar líka. Þrátt fyrir þessa ófriðun, sem að vísu var takmörkuð, hefir þó stofninn haldið áfram að vaxa fram um miðja öldina.

Eins og ég er að nokkru leyti búinn að taka fram, var friðun hreindýranna hagað þannig, að árið 1790 leyfði stjórnin að skjóta tarfa. 3 ára og eldri, í Eyjafirði. Árið 1794 var veitt tilsvarandi leyfi fyrir Þingeyjar- og Múlasýslur og árið 1798 var þetta leyfi fært út yfir allt landið. Árið 1817 var leyft að skjóta bæði tarfana og kýrnar, en yngri dýr en ársgömul voru þó friðuð áfram. Þrátt fyrir þetta dráp fullorðnu dýranna hélt þó stofninn enn áfram að vaxa þangað til 1854, að leitt var í lög, að dýrin skyldu vera með öllu ófriðuð, sökum kvartana, sem höfðu borizt frá bændum um ágang þeirra. Árið 1882 var svo aftur farið að hugsa til að friða hreindýrin, og var þá friðunin bundin við tímann frá 1. janúar til 1. ágúst. Árið 1902 voru dýrin alfriðuð, og var sú friðun framlengd þangað til í árslok 1935.

Það, sem sjá má af þessari sögu hreindýranna hér á landi, er það, að fyrstu árin eftir að þau voru flutt hingað fjölgaði þeim mjög ört. Og fjölgunin hélt áfram, þó leyft væri að skjóta tarfana, og jafnvel þó eitthvað væri drepið af kúm líka. Þetta bendir til, að til þess hjörðin haldist vel við þurfi að halda hæfilegu hlutfalli á milli tölu tarfanna og kúnna. Það er líka vitanlegt, að ef tarfarnir verða hlutfallslega of margir, þá valda þeir svo miklum ófrið í hjörðinni, að það getur haft áhrif í þá átt að fækka dýrunum. Þegar alfriðun kemst á, sýnist hreindýrunum fara að fækka, þangað til svo er komið, að nú er ekki vitað um, að til séu nema eitthvað 40 dýr. Það eru vitanlega engar skýrslur til um, hvað hreindýrastofninn er stór nú, en allar líkur benda til, að hann sé mjög genginn til þurrðar. Náttúrlega geta hér fleiri ástæður komið til greina heldur en friðunarruðstafanir. M. a. getur maður hugsað sér, að beitilöndin hafi versnað af því dýrastofninn hafi orðið of stór. En ég hygg, að aðalástæðan liggi í þessu, að tarfarnir hafi orðið of margir í hlutfalli við kýrnar. En einmitt samkv. þessari niðurstöðu, sem reynslan virðist benda á, hefi ég hagað mínu frv. eins og sjá má á þskj. 280. Ég hefi hér farið mjög eftir þeim till., sem þm. N.-M. flutti á þingi 1927, þegar þetta mál var til meðferðar. Ég geri ráð fyrir, að þó e. t. v. ýmislegt bendi til þess, þá sé þó ekki svo algert áhugaleysi orðið um ræktun hreindýra hér á landi, að öllum sé sama, hvernig fer um þennan litla dýrastofn, sem eftir er. Það var vitanlega hugmynd manna í fyrstu, að hreindýrin yrðu nytjadýr hér á svipaðan hátt og í heimalöndum þeirra, en þó menn séu búnir að tapa trúnni á þannig lagaða ræktun þeirra og hér verði því aðeins um villta framleiðslu að ræða, þá má gera ráð fyrir, að mikil not mætti af henni hafa, ef skynsamlega er að farið og hæfilegt dráp leyft. Það þarf ekki að taka það fram, að kjöt þessara dýra er mjög gott, og þó við séum ekki yfirleitt í vandræðum með kjöt til manneldis, þá gæti orðið gott á vissum stöðum, þar sem refarækt er að komast á, en lítið er um heppilegt og ódýrt kjöt til refaeldis, að grípa til hreindýrakjötsins sem fóðurbætis. Eins og menn vita, er kýrkjöt ekki eins gott til refaeldis eins og t. d. hrossakjöt. En þar sem mjólkurframleiðsla er mikil og mikið fellst því til af kýrkjöti, sem lítt er til manneldis fallið, en hinsvegar dýrt að ala hross til refafóðurs, mundi mega bæta kýrkjötið upp með hreindýrakjötinu. Mér sýnist, að á þessu árabili, sem hreindýrin hafa verið hér á landi, hafi furðu lítið verið gert til þess að fylgjast með lifnaðarháttum þeirra. Það tel ég, að væri þó mjög nauðsynlegt, og gera þyrfti víðtækar tilraunir með, hvernig hægt er að láta hreindýrahjarðir þrífast bezt hér á landi. Vitanlega þurfa þau öðruvísi beitarland heldur en t. d. sauðfé; þau þurfa helzt fjallagrös og skógvið. Á þeim stöðum, þar sem slíkur gróður vex, tel ég líklegt, að hreindýrarækt gæti komið að miklum notum, með skynsamlegri friðun og hæfilegri veiði.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Hér er komið fram frv. um algerða friðun hreindýra, en ég vænti þess, að hv. landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, athugi það vandlega áður en hún hverfur frá mínum till., að hin blinda friðun, ef svo má að orði kveða, á undanförnum árum, sýnist ekki hafa náð tilgangi sínum. Hér þarf frekari ræktun að eiga sér stað en verið hefir; það tjáir ekki að láta náttúruna eina í þessu efni. Ef hreindýrin ættu ekki meiri framtíð fyrir sér en það hér á landi, að stofninn geti ekki vaxið meira en raun hefir á orðið, þá væri að vísu ekki mikil ástæða til að gera sérstakar ráðstafanir til þess að halda þeim við. En ég hefi trú á, að víða hér á landi gæti ræktun hreindýra komið að miklum notum, ef rétt er á haldið.