19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í C-deild Alþingistíðinda. (2109)

71. mál, búfjársjúkdómar

*Flm. (Páll Hermannsson):

Mér skilst, að maður þurfi að vera stuttorður um þau mál, sem eftir eru á dagskrá. — Það, sem ég í fyrsta lagi get sagt um frv., er, að það er flutt að tilhlutun landbrh. og hefir verið samið af tveim dýralæknum, þó í samráði við suma aðra dýralækna landsins.

Mönnum er kunnugt um það, sérstaklega nú, hvaða vágestur búfjársúkdómarnir hafa reynzt landsmönnum nú að undanförnu. Um það má segja, að ekki hefir þeim verið gefinn meiri gaumur undanfarin ár en svo, að það hefir engum borið skylda til að fylgjast með eða gefa skýrslu um ýmsa búfjársjúkdóma, sem þó hefði getað orðið til þess að tefja fyrir þeim. 1905 voru að vísu sett lög um skýrslur um alidýrasjúkdóma, en þau voru úr gildi numin 1917.

Þetta frv. gengur út frá því, að nú sé hafizt handa um að koma í veg fyrir þessa sjúkdóma, og dýralæknar hver í sínu umdæmi hafa yfirumsjón með eftirlitinu, og hreppstjórar hver í sínu sveitarfélagi gefi upplýsingar um heilbrigði búfjárins. Mér þykir sennilegt, að bezt væri að láta dýralæknana fyrst og fremst vinna að skýrslusöfnun um sjúkdómana. Þetta eru þeir menn, sem eiga bæði að þekkja búfjársjúkdómana og hafa sérstaka tilhneigingu til að kynnast þeim. Og mönnum sé skylt að láta þeim í té allar upplýsingar um, hvort um er að ræða smitandi sjúkdómsfaraldur eða dauðsföll í einstökum tilfellum. Gert er ráð fyrir kostnaði í sambandi við þetta, sem ferðir dýralækna hafa í för með sér.

Mér þykir rétt að taka það fram, að þetta frv. stefnir ekki að þeirri allra skæðustu búfjárveiki, sem nú geisar í landinu þ.e. borgfirzku fjárpestinni. Þetta er aðeins almennt, en ekki bundið við þá sérstöku veiki. Ég geri ráð fyrir því, að þetta þing muni gera einhverjar tilraunir til að taka þá serstöku veiki til meðferðar. Ég skal svo ekki tefja tímann meir, en legg til, að þessu frv. verði að loknum umræðum vísað til landbn.