24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Jafnvel þó að þetta mál fari til þeirrar n., sem ég á sæti í, þykir mér hlýða að segja um það nokkur orð við þessa umr.

Ég vildi gjarnan fræðast frekar um það hjá 1. flm., hvað er tilefnið með þessu frv. Samkv. hans framsöguræðu skildist mér hann telja tilefnið aðallega þrennt. Í fyrsta lagi sú óstjórn og það ranglæti, sem komið hefir fram hjá núv. verksmiðjustj. Í öðru lagi, að ekki hafi verið fullnægt settum skilyrðum um valið í stj. Og svo það þriðja, sem hér er mikið um þráttað, að stj. ætti ekki að verða eins pólitísk og sú stj., sem nú situr, eftir því skipulagi, sem hann stingur upp á.

Það er fyrsta atriðið, sem ég vil fá upplýsingar um, áður en málið kemur til n. Hv. flm. gerði enga tilraun til þess að rökstyðja það, í hverju sú óstjórn og það ranglæti hefði komið fram, sem, núverandi stj. hefði sýnt á þeim tíma, sem hún hefir setið. Mér þætti vænt um, að hann kæmi með einhver dæmi. Það var ómögulegt að skilja, í hverju stj. hefði brotið af sér. Hann gat þess, að mikil óánægja væri með skipun hennar. Nú vil ég leggja þá spurningu fyrir hv. flm., hvernig var það með þennan þingmálafund, sem hann hélt í sínu kjördæmi um þetta mál. Ég þykist hafa seð það í blöðum þarna norðan að, að þegar rætt var um það, hvort bráðabirgðalögin skyldu samþ. eða ekki, þá voru það ein átta atkv., sem hv. þm. fekk með sér gegn þeim. M. ö. o., kjósendur þessa hv. þm. litu öðrum augum á þetta mál en hann, og get ég því ekki skilið, að það sé í umboði þeirra, að hann kemur fram með róttæka breyt. á skipun stj.

Ég verð nokkru að svara hinu atriðinu, að ekki skuli hafa verið valið í stj. eins og hann telur skylt, þ. e. a. s. einn maður úr Sjálfstfl. Það er rétt að rifja þá sögu upp dálítið nánar. Ég hygg að mjög þekktir og valinkunnir menn í Sjálfstfl. hafi verið kjörnir til þess að fara í stj. Hv. flm. vissi vel, um hvaða menn var að ræða. Og ég ætla, að þeir menn, sem þar voru efstir á baugi og voru fúsir til að fara í stj., hafi átt almennt fylgi sjómanna. En þá skeður það merkilega, að miðstj. Sjálfstfl. leggur bann á þann mann, sem gerist svo djarfur, að taka sæti í stj. Hvað átti hæstv. ráðh. að gera? Hann verður að velja þennan mann í stj., og enginn neitar því, að hann hafi staðið vel í stöðu sinni. Mér er ekki kunnugt um það, að hann sé yfirlýstur alþýðuflokksmaður. En hann er reyndur og valinkunnur útflutningsmaður og mun hafa staðið nærri sjálfstæðismönnum eftir skoðun hv. flm. En hvorrar skoðunar, sem maðurinn er, þá hefi ég ekki heyrt neinn dæma verk hans á þá leið, að hann hafi reynzt hlutdrægur. Og ég sé enga ástæðu til þess, að gera breyt. á skipulaginn, þó að flokkur. annar en sá, sem hv. flm. tilheyrir, hafi valið í stj., og það menn, sem voru manna bezt hæfir til þess að fylla það sæti.

Ég verð að geta þess hér, að rekstur verksmiðunnar hefir aldrei gengu betur en á siðasta ári. Vinnuráð hafa verið meiri en áður, og allur aðbúnaður og aðhlynning þeirra, sem þar vinna, aldrei verið betri. M. ö. o., samkomulagið hefir verið ágætt. En eins og kunnugt er, lá við, að allt færi í blossa undir fyrrv. stj. En svo brá við á síðasta sumri, að verksmiðjan hefir aldrei gengið betur og útkoman aldrei verið betri. Hefi ég ekki heyrt neinn halda því fram, að verksmiðjustj. hafi ekki staðið mjög vel í stöðu sinni. Og ég heyrði ekki hv. flm. færa nein rök fyrir því, að tilefni væri til þess að skipta um stj., af því að þessi stj. væri ekki starfi sínu vaxin og fyllilega þess verð, að halda áfram starfi sínu næsta sumar.

Fyrirtæki eins og þetta, sem hér um ræðir, eru stofnuð í þágu atvinnuveganna, til þess að koma skipulagi á vinnslu síldarinnar og gera sjómönnum og útvegsmönnum kleift að nota sér þann mikla auð, sem í síldinni felst. Það eru sjómennirnir og verkamennirnir, sem eiga líf sitt komið undir þessu, og svo vitanlega þriðji aðilinn skipaeigendur. Og ég verð að álíta, að það séu þessir tveir aðiljar, sem eiga sjálfir að ráða mestu um það, hvernig þessum málum er stjórnað.

Ég get bent á það, að við jafnaðarmenn hofum yfirleitt gert afarlítið að því, að seilast til yfirráða í landbúnaðarmálum, þó að við vitanlega eigum fullan rétt á því, að eiga menn í stj. þeirra stofnana, sem ríkið leggur til stórfé, eða þar sem það tekur að meira eða minna leyti þátt í rekstrinum. Ég get vel skilið afstöðu hv. flm. hvað það snertir, að hann vilji láta áhrifa síns flokks gæta í stj. þessara fyrirtækja. En að hann eigi að vera sá, sem mestu ræður, fæ ég ekki skilið út frá sjónarmiði þeirra, sem hafa mestra hagsmuna að gæta og mest eiga undir því komið, að allt gangi vel, en það eru hinar vinnandi stéttir. Og ég get sagt það sem mína skoðun, að ég hefi enga trú á því, að það veljist nýtari menn til þessa starfs, þó að Alþingi skipi þá en ráðh. velji þá. Og reynslan hefir sýnt það. (BSt: En ef væri nú sjálfstæðis- eða framsóknarráðh.? ) Hann myndi skilja þá ábyrgð, sem á honum hvíldi, og velja hæfa menn til starfsins.

Ég get ekki séð, að neitt tilefni liggi fyrir, sem réttlæti slíka skipun á fyrirkomulaginu á stj. verksmiðjanna, sem hér er farið fram á. Það eru nú uppi háværar kröfur meðal almennings um að fækka í verksmiðjustj. Einnig eru háværar kröfur um það norðanlands, að hafa ekki nema einn framkvæmdarstjóra, og er það talið nóg. Og yfirleitt er sú stefna ríkjandi hjá almenningi, að hlaða ekki saman mörgum mönnum í stj. slíkra fyrirtækja og hér um ræðir. Og ég get vel skilið þá kröfu. Hvað því viðvíkur, hvort þessar ríkisverksmiðjur kunni að auka svo rekstur sinn, að nauðsynlegt sé að hafa þá fleiri, þá skal ég ekki leggja neinn dóm á það. En reynslan hefir sýnt, að við meðalrekstur, eins og nú standa sakir, er verksmiðjunum ekki þörf á nema einum hæfum og duglegum manni.

Ég vil svo að lokum minnast nokkrum orðum á ákveðin í 2. gr. Ég hygg, að þar sé nokkur ágreiningur á milli mín og hv. flm. En það er einmitt um það, hvenær og hvað mikið eigi að verðleggja síldina, þegar hún er flutt á land, í verksmiðjurnar. Í l. eins og þau voru upphaflega og eru enn, er þetta fyrirkomulag hugsað þannig að síldin sé tekin til vinnslu, og fáist svo fyrir hana eins og reynslan sýnir, að varan selst að frádregnum kostnaði. Ég hygg, að ég tali í umboði allra, sem við verksmiðjurnar skipta, þegar ég segi, að þetta fyrirkomulag sé talið óþolandi. Það, sem verður að ske, er það, að verksmiðjurnar kaupi síldina fyrir ákvæðisverð, og verður þá vitanlega farið eins nærri hinn raunverulega verði hennar og unnt er. Ég skal játa, að í 2. gr. er gert ráð fyrir möguleikum um þetta. En það er ekki sama, hverjir hafa úrslitaatkvæðin um það. Það er einmitt þetta, sem er orðin svo hörð og ákveðin krafa meðal sjómannanna hér, að síldin sé keypt föstu og sanngjörnu verði, og vona ég, að mér gefist tækifæri til þess við 2. umr. þessa máls, að skýra fra, hvers vegna þessi krafa er fram komin. Og vitanlega veitur mikið á því í 2. gr., að úrslitaatkvæðin hafi þeir, sem hafa fullkominn skilning á því, hvort hér sé farið eftir sanngjörnum leiðum fyrir þá, sem við verksmiðjuna skipta.

Ég hefi óskað þess af hv. flm., að hann færi skýrari rök fyrir því, hvað sú verksmiðjustj. hefir brotið af sér, sem hann vill koma frá og fá aðra í staðinn fyrir. Mér er nauðsynlegt að fá að vita það út í æsar, áður en ég skapa mér um það ákveðna skoðun, hverjar eru hinar sönnu ástæður fyrir þessu frv., sem er fram komið þvert ofan í gefin loforð hv. flm. og hans samflokksmanna um það, að bráðabirgðal. skyldu ná fram að ganga.