05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2294)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Samkv. dansk-íslenzkum sambandslögum frá 1918 eru nú tæp 4 ár þangað til Danir eða Íslendingar hafa það í hendi sér að óska endurskoðunar á sambandslögunum og fara fram 2 breytingar, sem þeim þykir nauðsynlegar, og tæp 7 ár þangað til Íslendingar hafa það einir í hendi sér að fella samninginn úr gildi með þeim ákvæðum, sem þar segir, ef ekki hefir fengizt samkomulag undanfarin þrjú ár um endurskoðun á samningnum eða nýjan samning. Það má því segja, að tími sé til kominn fyrir þingið og þjóðina að gera sér glögga grein fyrir því, hvernig hún ætlar sér að mæta þessu máli þá, í fyrsta lagi, hvort hugsanlegar séu breytingar á núgildandi samningi, í öðru lagi, hverjar þær breytingar eru, og í þriðja lagi, hvernig hentast verði að búa sig undir þau auknu ábyrgðarmiklu störf, er þá kynnu að færast yfir á hendur landsmanna sjálfra. Þetta mál hefir verið tekið til meðferðar á Alþingi áður. Það var á þinginu 1928 í sambandi við fyrirspurn frá þáverandi þm. Dal., Sigurði Eggerz, og hljóðar fyrirspurnin svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vill ríkisstjórnin vinna að því, að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til, og í því sambandi íhuga eða láta íhuga sem fyrst, á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir bæði sem haganlegast og tryggilegast, er vér tökum þau að fullu í vorar hendur?“

Þessari fyrirspurn svaraði þáverandi forsrh. Framsfl., Tryggvi Þórhallsson. m. a. þannig fyrir flokksins hönd:

Ríkisstj. og Framsfl. telur það alveg sjálfsagt mál, „að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til“, og þar af leiðandi er ríkisstj. og flokkurinn reiðubúin til „að vinna að því“. Ríkisstj. og Framsfl. lítur svo á, að sambandslagasamningnum eigi að segja um meðal annars til þess, að „vér tökum utanríkismálin að fullu í vorar hendur“, og þar af leiðandi er ríkisstj. og Framsfl. reiðubúin til þess að „íhuga eða láta íhuga sem fyrst, á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir bæði sem haganlegast og tryggilegast“, enda telur ríkisstj. sér skylt að gefa því máli alveg sérstakan gaum.“

Einnig var henni svarað af öðrum þáv. þingflokkum, Alþfl. og Íhaldsfl., n mjög svipaðan hátt, og þó að Alþfl. kvæði nánar á um þetta mál, má samt segja, að fyrirspurninni hafi verið svarað svo að segja samhljóða af öllum flokkum þingsins. Nú er það að vísu svo, að 2 núverandi þingflokkar voru þá að forminu til ekki til, það eru Sjálfstæðisflokkurinn og Bændaflokkurinn, og þó að meginhluti þeirra þm., sem þá skipuðu Íhaldsfl., séu einnig nú á þingi í Sjálfstfl., þá er ekki víst, eða a. m. k. ekki vitað, að þeir vilji skrifa undir allt, sem Íhaldsfl. á þeim tíma hélt fram í landsmálum. Það er því ástæða enn á ný til þess að taka þetta mál fyrir hér á þinginu, auk þess sem þetta mál þarf að ræða fyrir alþjóð í tíma, þar eð það er bæði í eðli sínu og að formi til alþjóðarmál, þar sem það eru ákvæði um það, að samningurinn verði þá aðeins úr gildi numinn, að fyrst og fremst 2/3 þm. samþ. það, og auk þess 3/4 kjósenda, sem taka þátt í atkvgr. um þetta mál, og 3/4 atkvæðisbærra kjósenda verða að taka þátt í atkvgr. til þess að hún teljist gild; þess vegna er nauðsynlegt, að málið sé rætt meðal þjóðarinnar, svo að hún geri sér fyllilega grein fyrir því og hvaða stefnu hún þar aðhyllist. Ég vil nú geta nokkurt yfirlit yfir þetta mái, þróun þess á síðustu árum og þá reynslu, sem Íslendingar hafa fengið um meðferð sinna mála frá því að þeir hófu sína endurreisnarbaráttu á síðustu öld. Og ég vil strax taka það fram, að sú reynsla, sem fengizt hefir í sjálfstæðisbaráttunni, hefir staðfest það, að þeir menn, er skeleggastir hafa verið á hverjum tíma í stjórnmálabaráttu okkar, hafa næstum alltaf haft á réttu að standa.

Ég hygg aldrei hafi verið skiptaar skoðanir meðal íslenzku þjóðarinnar um það, að bezt væri, að hún væri þess umkomin að fara með öll sín mál, en aðalágreiningurinn og það, sem flokkaskiptingu olli, stafaði af því, að menn voru misjafnlega trúaðir á það, hversu fær þjóðin væri um að taka sín eigin mál í sínar hendur og fara með þau, en eins og ég sagði áðan, hefir hver sú réttarbót, sem þjóðin hefir öðlazt, sérhvert spor, sem stigið hefir verið áfram í þessu máli, í reyndinni orðið ný og ný sönnun fyrir því, að rétt var að krefjast þeirra réttarbóta og stigu þau spor.

Eftir hina ströngu baráttu í sjálfstæðismálinu 1907, 1908 og 1909 var málið í svipinn komið í strand vegna mótstöðu sambandsþjóðar okkar, og ekki sízt vegna þess, að íslenzka þjóðin var klofin um málið. Svo lá það að nokkru leyti niðri og var óleyst, þegar heimsstyrjöldin skall á. En þá var íslenzka þjóðin raunverulega skorin frá þeirri þjóð, sem hún var í sambandi við, og líka frá öðrum þjóðum, svo að hún varð að standa á eigin fótum, því að ef Íslendingar hefðu ekki sjálfir bjargað sér þá í viðskipta- og verzlunarmálum, þá hefðu þeir fengið að deyja drottni sínum. Þess vegna vil ég segja, að sú reynsla, sem á styrjaldarárunum barst þjóðinni í hendur um getu hennar og mátt, hafi fyrst og fremst orðið til þess að leysa sambandsmálið, þannig að sú aukna trú, sem þjóðin fékk á sjálfri sér, varð til þess að sameina hana svo að segja sem einn mann utan um þær kröfur, sem þá voru gerðar og staðfestar í sambandslagasamningnum. En að öðru leyti var það kenningin, sú er ofan í varð í styrjaldarlokin um „rétt smáþjóðanna“, og afstaða sambandsþjóðar okkar til Suður-Jótlands, sem olli því, að Danir gengu lengra til móts við okkur en nokkurn tíma áður. Og ég vil segja, að sömu reynslu, sem við höfum fengið af baráttu fyrir málum okkar inn á við, höfum við einnig fengið þessi 18 ár, síðan sambandslögin voru samþ., að því er snertir starfsemi þjóðarinnar út á við.

Það er dálítið fróðlegt í þessu sambandi að athuga ýms ákvæði í sambandslögunum, sem sum virðast skrifuð nokkuð hikandi hendi, og sjá, hvernig þróunin hefir verið í þeim á undanförnum árum. Ég skal t. d. minna á 10. gr., þar sem sagt er, að hæstiréttur Danmerkur skuli hafa æðsta dómsvald í íslenzkum málum. Síðar í gr. er Íslendingum þó getin heimild til þess að stofna sinn eiginn dóm. Og reynslan varð sú, að ekki var látið líða lengur en til 1919 að nota þessa heimild; þó að nokkrar breyt. hafi síðar verið gerðar á lögunum um hæstarétt og nokkrar deilur stundum verið háðar innbyrðis um hæstarétt, þá býst ég ekki við, að til sé nokkur maður meðal Íslendinga, sem lætur sér detta í hug að færa þetta til fyrra horfs. Þú vil ég minna á 8. gr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Danmörk hefir á hendi gæzlu fiskiveiða í íslenzkri landhelgi undir dönskum fána. ...“. Þetta stendur í fyrri hluta gr., en í seinni hlutanum er Íslandi gefin heimild til þess að taka landhelgina í sínar hendur, að öllu eða nokkru leyti, á sinn kostnað.

Reynslan í þessu efni hefir verið sú sama, að Íslendingar hafa strax notað sér þá heimild, sem í þessari gr. telst. um að taka gæzluna í sínar hendur. Þjóðin hefir keypt dýr gæzluskip og hefir síðan verið að smáleita fyrir sér um fullkomnun á gæzlunni, þannig að hún kæmi að sem mestum notum, en yrði þó sem ódýrust, og það má segja, að gæzlan sé nú að mestu leyti rekin af þjóðinni sjálfri undir hennar eigin fána. Og ég býst við, að allir séu nokkurnveginn sammála um, að eigi gæzla landhelginnar að verða unnað en nafnið tómt, þá hljóti þjóðin sjálf að taka hana algerlega í sínar hendur. Og þó að það ákvæði þessarar gr., að Íslendingar gætu tekið alla gæzluna í sínar hendur, hafi ekki verið notað til þess ýtrasta enn, þá má segja, að þjóðin liti á það sem sanngjarna kvöð gagnvart okkar sambandsþjóð, sem samkæmt 6. gr. hefir sama rétt til landhelginnar eins og Íslendingar sjálfir, að hún leggi, meðan það ákvæði gildir, nokkurt fé af mörkum til þess að verja sameiginlega landhelgi. En þegar sambandslagasamningnum verður sagt upp, tel ég, að það verði sjálfsagt eitt af því fyrsta, sem ísl. þjóðin sameinist um, að hina sameiginlegi ríkisborgararéttur falli niður, og þá vitanlega um leið krafan um landhelgisgæzluna. Í 7. gr. sambandslaganna er Íslendingum gefin heimild til þess að gera samninga við erlend ríki um íslenzk mál, þó að þessi mál að forminu til liggi aðallega og raunar eingöngu í höndum okkar sambandsþjóðar, þar sem við höfum falið henni meðferð þeirra fyrir okkar hönd. Reynslan hefir í þessum málum orðið nákvæmlega sú sama og í öðrum atriðum, sem ég hefi minnzt á. Íslendingar hafa orðið að gera marga flókna verzlunarsamninga, sem þeir voru knúðir til vegna haftastefnu stórþjóðanna, og þessa samninga hafa þeir orðið að mestu eða öllu leyti að hafa með höndum sjálfir. Ég skal aðeins nefna nokkra þýðingarmikla samninga, sem við höfum haft með höndum á síðari árum; það er t. d. verzlunarsamningurinn við Noreg, samningar við Spánverja, Breta, Ítali og árlegir samningar við Þjóðverja, svo ég aðeins nefni nokkur dæmi. Það er í þessu sambandi skylt að geta þess, að danskir embættismenn, bæði sendiherrar og aðrir, hafa sýnt vilja og alúð í því að verða okkur að liði. En reynslan verður vitanlega sú, að vegna þess að þeir hafa ekki nægilega þekkingu á íslenzkum staðháttum og atvinnulífi, þá hafa þeir orðið harla vanmáttugir í þessum efnum, þrátt fyrir þeirra góða vilja. Það hlýtur að koma að því, að það verða Íslendingar, og þeir einir, sem verða að reka þau erindi sjálfir, sem talað er um í 7. gr. Þeir verða að treysta á sjálfa sig í þeim efnum, ef nokkur á að vera fær um að annast þau. Það er nokkurnveginn seð, að Íslendingar verða að búa sig undir að taka utanríkismálin að fullu og öllu í sínar hendur, þegar þeir eiga þess kost samkvæmt dansk-íslenzka sambandslagasamningnum. Og þá er að gera sér grein fyrir, á hvern hátt þessu verði bezt fyrir komið. Þetta er mikið vandamál, og sannarlega kominn tími til, að þjóðin geri sér grein fyrir, hvernig þessu verði fyrir komið. Af þessum ástæðum er þessi þingsályktunartillaga fram komin.

Eins og hv. þm. sjá, er þessi þáltill. borin fram af utanríkismálan., eða nokkrum hluta hennar. Ég harma það mjög, að ekki hefir gefizt tækifæri til að ná til allra nefndarmanna til þátttöku í framburði þessarar till. En það hefir því miður ekki verið hægt, af þeim ástæðum, að stjórnarandstæðingar hafa nú um nokkurt skeið ekki tekið þátt í störfum utanríkismálan. Ég harma þetta mjög og álít, að þó að við Íslendingar berjumst hart og óvægilega um innanlandsmálin, þá eigum við að standa sem einn maður, þegar um er að ræða mikilsverð utanríkismál.

Ég skal ekkert um það segja, hvaða afstöðu aðrir þingflokkar kunna að taka í þessu máli, en af fram komnum brtt. geri ég ráð fyrir, að flokkarnir geti staðið saman um meginefni þáltill. Um það atriði í brtt. á þskj. 71, að í stað þess að við ætlumst til, að utanríkismálanefnd fari með þessi mál, þá ætlast flm. brtt. til, að skipuð verði sérstök n. í málið, þá vil ég segja það, að ég álít, að það hafi ekki minnstu þýðingu. Það verði aðeins undirnefnd úr utanríkismálan., og mjög sennilegt, að sömu menn yrðu kosnir í þessa n. og nú eru í utanríkismálan.

Ég vil enda þessi orð mín með því að bera fram þá ósk sem formaður utanríkismálan., að Sjálfstfl. geti farið aftur að taka þátt í störfum utanríkismálanefndar, og að það megi verða svo í framtíðinni, að hvað margir flokkar sem hér á landi berjast um innanlandsmálin, þá megum við bera gæfu til að sýna þann þjóðarþroska að vinna saman sem ein óskipt þjóðarheild hvenær sem erlend vandamál ber að höndum.