15.04.1937
Sameinað þing: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (2319)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Magnús Torfason:

Áður en ég sný mér að þessu máli, vil ég geta þess, að það hefir komið fyrir óvenjulegt fyrirbrigði að því er snertir utanríkismál. Vegna þess að ég býst við, að þetta sé í síðasta sinn, sem ég legg þar orð í belg, vil ég lýsa því yfir, sem ég veit um þetta, því að ég tel, að það sé rétt, að það sé á almenningsvitund. Af sérstökum ástæðum hefi ég grennslazt eftir gerðabók svokallaðrar fullveldisnefndar, sem starfaði áður en sambandslögin voru sett 1918. Sú gerðabók hefir ekki fundizt hér og finnst ekki í skjölum Alþingis og hefir horfið á einkennilegan hátt. Ég hefi í bréfi til forseta SÞ. skýrt frá þessu, og skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

Ennfremur hefi ég í vetur orðið var við, að horfið hefir böggull með skjölum, sem var marglakkaður og átti að fara mjög heimulega, en mér sagt, að Magnús heitinn Kristjánsson, þáverandi forseti Sþ., hafi komið með til geymslu í skjalasafninu. þessi plögg eru, eftir því sem ég hefi annarsstaðar fengið að vita, snertandi utanríkismál vor. Ég vildi geta þessa hér, en skal ekki fara út í það að svo stöddu, en það mun gefast tækifæri til þess síðar.

Að því er þetta mál snertir, þá skal ég ekki leggja á móti því, að till. verði samþ. eins og hún er orðuð hér, enda þótt ég hefði kunnað betur við, að það hefði verið á annan hátt. En út af orðum, sem fellu við fyrri umr. þessa máls, vil ég vekja athygli á tveimur eða þremur atriðum.

Í þeim umr. komu fram raddir um að ýta undir þá kröfu, að við skyldum taka landhelgisvarnirnar af Dönum nú þegar í okkar hendur. Ég fyrir mitt leyti er algerlega á móti þessu og hefi alltaf verið á móti því, að létta undir með Dönum í þessu efni. Þeir eru skyldir til samkv. sambandslagasamningnum frá 1918 að halda uppi landhelgisvörnum hér við land, og ég vil láta þá uppfylla þá skyldu. Ég tel yfirleitt varhugavert að falla á nokkurn hátt frá þeim kröfum, sem við eigum rétt á. Við vitum ekki, hvenær við þurfum til þeirra að taka, og sérstaklega þegar svo stendur á, að slíkt og annað eins hefir útgjöld í för með sér, þá er engin ástæða til að falla frá neinum rétti í slíku efni. Ég segi þetta fyrir þá sök, að ég held, að það sé ekkert nema fordild, þegar menn eru að tala um, að við eigum að taka okkar landhelgismál alveg í okkar hendur, sökum þess að annars muni útlendar þjóðir líta svo á, að Danir séu það eiginlega hervald hér á Íslandi. Ég geri ekki mikið úr þessu að sjálfsögðu, en sérstaklega geri ég ekki mikið úr því vegna þess, að við mundum aldrei geta bannað Dönum fremur en öðrum þjóðum, sem hafa fiskiskip hér við land, að hafa hér herskip til að gæta þeirra, og ef þau væru hér uppi, þá mundi álitið vera það sama, hvort sem við rættumst hafa okkar landhelgisvarnir í okkar hendi eða ekki. En ef ætti að reka Dani burt og banna þeim að hafa hér herskip, þá væri það fjandsamleg athöfn gegn þeim, sem við eigum hvorki að sýna þeim né öðrum, og höfum ekki heldur ráð á.

Að því er líka að gæta, að þetta mál getur haft fjárhagslega þýðingu, þegar til samninga kemur um okkar mál 1943, því að ég býst við, að þegar þar að kemur, verði gerðar þær kröfur, sem við eigum með réttu á hendur Dönum fjárhagslegs eðlis.

Þá var verið að draga úr yfirlýsingu minni, sem ég gerði í sambandi við þetta mál. Ég hélt, að hún hefði verið fullgreinileg, sérstaklega vegna þeirrar aðstöðu, sem ég hefi haft í þessu máli. Ég hélt, að engum dyldist, að engum fremur en þeim, sem ekki þóttust geta samþ. sambandslögin 1918, væri það ánægjuefni, og hrein og bein uppreisn fyrir þá. Hvernig málum er komið nú, því að á þeim tíma, sem liðinn er, er það fram komið, að við erum algerlega varnir fri samningunum 1978. Það mælir þeim enginn maður bót.

Það var tekið hér fram af öllum flokkum, að þetta, sem við gerðum nú, bæri ekki að skoða sem óvináttubragð í garð Dana. Nú er þetta ekki nema hárrétt. Ég skal ekki lasta þetta út af fyrir sig, þó að það í sjálfu sér hafi verið oþarft. Sérstaklega var það óþarft af hv. frsm. Sjálfstfl. að hnykkja þrisvar sinnum á þessu. Það var nóg að gera það einu sinni. Ég býst við, að Danir séu það miklir stjórnmálamenn, að þeim detti aldrei í hug að skoða kröfur okkar um sjálfstæði og okkar umleitanir í þá átt sem fjandsamlega athöfn gegn þeim. En auk þess var þetta óþarfi af því, að það er allt annað en hér andi köldu til Dana yfirleitt, því að það er kunnugt, að Íslendingar sækja til þeirra bæði til menningar og frama, skemmtunar og gleðskapar, og yfirleitt er innilegra samband milli Dana og Íslendinga en annara þjóða, og Danir eru hafðir hér í hávegum. Og það er víst, að með hverju ári, sem líður, blanda þeir meira og meira blóði við okkur Íslendinga, svo að það er sízt ástæða til að vera með neinn fyrirvara um það, að við viljum sýna Dönum nokkra óvild. Meira að segja, Danir eru blátt áfram dýrkaðir hér á landi. Ég get sagt sögu af því. Það kom fyrir, að ein prestsdóttir falleraðist, sem ekki er nein nýjung. Þegar móðir hennar frétti þetta, sárnaði henni, sem von var, því að þetta var myndarstúlka. En svo lýsti stúlkan því yfir, að faðirinn væri danskur. Þá lét móðirin huggast. Ef þetta sýnir ekki vináttu við Dani og dýrkun á þeim, þá veit ég ekki, hvað getur sýnt það betur.

En svo að við sleppum nú öllu gamni, þá vil ég segja, út af því, að mér finnst kenna svona heldur þess í þessari yfirlýsingu, að við þykjumst litlir karlar, og eru það sjálfsagt leifar af gömlum hugsunarhætti, nefnilega þeim hugsunarhætti, að við stöndum ekki jafnfætis Dönum. Ég er sannfærður um, að hver önnur þjóð, sem þættist jafnborin Dönum, mundi ekki hafa haft slíka yfirlýsingu í sambandi við slíkt mál sem þetta, eins og við höfum hér gert. Og ég tel meira varið í að halda okkar manndómi uppi og sjálfum okkur heldur en hitt, að vera með óþarfar yfirlýsingar, sem alls ekki ættu að koma fram.